Ben Klock er æðstipresturinn í berlínsku teknókirkjunni – Spilar 10 tíma maraþonsett á Berghain – Kemur fram á Sónar Reykjavík um næstu helgi
Einn goðsagnakenndasti og umtalaðasti teknóklúbbur heims undanfarinn áratug er Berghain, sem er til húsa í gömlu orkuveri í námunda við lestarstöðina Ostbahnhof í Berlín. Klúbburinn byrjaði sem blætis- og hommaklúbbur í kringum aldamót en er í dag orðinn að óumdeildri Mekka teknóáhugafólks um allan heim.
Klúbburinn er sveipaður ótrúlegri dulúð enda hægara sagt en gert að komast inn. Ógnvænlegir og óþægilega mannglöggir dyraverðir handvelja fólk inn á staðinn úr biðröðinni og eina leiðin til að fá inngöngu virðist vera að fylgja ótal óskrifuðum hegðunarreglum sem aðeins hinir innvígðu þekkja til hlítar.
En ef maður er svo heppinn að komast inn í steinsteypukastalann tekur við manni gríðarstór nakin verksmiðjubyggingin, stórar grískar styttur af stæltum karlmönnum, nístandi kaldur hljómurinn úr risastóru vélarrýminu, og myrkir og völundarhúslegir gangar þar sem enn eimir af sögu staðarins sem kynlífsklúbbi. Dópsalarnir halda til á klósettunum og á dansgólfinu strjúkast saman hálfnaktir, sveittir og dansandi líkamar. Sem sagt, einstök stemning.
Einn þeirra sem hafa tekið þátt í að móta hljóm Berghain, þá hörðu, köldu og naumhyggjulegu takta sem berast úr risastóru og óviðjafnanlegu hljóðkerfi staðarins, er þýski plötusnúðurinn Ben Klock. Hann hefur verið fastur liður á dagskrá klúbbsins allt frá 2005 og hefur nafn hans þannig orðið órjúfanlegur hluti af teknósögu 21. aldarinnar. Auk þess að ferðast um heiminn sem plötusnúður, smíða og gefa út sína tónlist, rekur hann sitt eigið útgáfufyrirtæki sem nefnist Klockwork.
Þessi virti plötusnúður er einn þeirra sem koma fram á tónlistarhátíðinni Sónar Reykjavík í Hörpu um næstu helgi. Af því tilefni heyrði blaðamaður DV í Ben Klock og spjallaði við hann um Berghain-kirkjuna, teknó og 13 tíma löngu maraþon DJ-settin sem hann er þekktur fyrir að bjóða upp á.
„Alveg frá því að ég var lítill hef ég hlustað mikið á tónlist og prófað mig áfram á ýmis hljóðfæri. Við áttum helling af hljóðfærum heima: gítara, píanó, trommur, tyrkneskan saz-gítar, ástralskt didgeridoo og svo framvegis. Ég spilaði líka á píanó, æfði mig alltaf í klukkutíma eða tvo eftir skóla og var sömuleiðis duglegur að leika mér við að spila á ný hljóðfæri. Ég skoðaði mikið af tónlistartímaritum og uppgötvað þannig hljóðgervla, til dæmis Roland Jupiter 8, og dreymdi um að eignast svoleiðis og hafa í mínu eigin hljóðveri. Bróðir minn smíðaði svo handa mér heimagerðan mixer og ég fór að gera mínar fyrstu upptökur heima, prófa mig áfram með þrjú kasettutæki og míkrófón,“ segir Klock um tónlistarsköpunina.
„Ég byrjaði að spila í hljómsveitum og hlustaði á ýmsar gerðir tónlistar en á einhverjum tímapunkti var mig farið að þyrsta í eitthvað alveg nýtt … og þá uppgötvaði ég teknóið. Það sem ég upplifði var miklu ákafara en nokkuð sem ég hafði komist í tæri við áður. Þarna var verið að skapa algjörlega nýjan hljóm. Ég er raunar alveg sannfærður um að teknóið hafi verið síðasta stóra byltingin í tónlistinni. Ég varð algjörlega háður. Þannig varð ég líka heillaður af starfi plötusnúðarins. Ég byrjaði að DJ-a í partíum og einn daginn kom upp að mér maður sem sagðist vera að opna klúbb og væri að leita að plötusnúðum. Þannig byrjaði ævintýrið.“
Eitt af því sem Ben Klock er frægur fyrir eru hin gríðarlega löngu maraþonsett þar sem hann spilar jafnvel í yfir 10 klukkutíma – hann segir raunar 13 tíma vera lengsta settið sem hann hefur spilað einn og óstuddur. Hann hefur áður sagt að yfirleitt haldi hann sér ekki gangandi á neinu nema kaffi og kampavíni, tónlistin taki hreinlega yfir. Ég bið hann að lýsa því hvernig settin fara fram, hvernig hann undirbýr sig og svo framvegis.
„Það er í raun ómögulegt að undirbúa DJ-sett of mikið, því þá nærð þú ekki að vera „í augnablikinu“ þegar þú spilar. Þetta snýst um að gera hlutina algjörlega ósjálfrátt og fylgja flæðinu. Þegar ég er í stuði get ég spilað í marga, marga klukkutíma án þess að taka eftir því hvað tímanum líður.“
Hvernig er að vera staddur inni í tónlistinni í svona langan tíma? Á sér stað einhver tilfinningaleg uppbygging eða þróun hjá þér í settinu – ferðu í gegnum margar mismunandi tilfinningar á meðan þú ert að spila?
„Maður fer vissulega í gegnum margar ólíkar tilfinningar í settinu, og það er bara góðs viti, það væri ómögulegt að viðhalda og spila á sömu tilfinningarnar í 10 tíma – það væri hræðilega leiðinlegt.“
Þannig að þetta verður ekki bara að sömu rútínunni kvöld eftir kvöld, eins og í níu-til-fimm skrifstofuvinnu?
„Það er eiginlega ómögulegt að bera þetta saman við níu-til-fimm vinnu, þetta er allt öðruvísi og ákafari upplifun. Maður upplifir held ég ekki jafn margar töfrastundir á skrifstofunni. Eða ef svo er, þá ertu virkilega heppinn!“
Þú vannst sjálfur lengi dagvinnu á skrifstofu samhliða plötusnúðarstarfinu, er það ekki?
„Jú, það var raunar ekki fyrr en ég var að vinna að plötunni „One“ árið 2008 sem ég sá að mér tækist aldrei að klára plötuna nema ég hætti í dagvinnunni sem grafískur hönnuður – þangað til hafði ég verið að spila og gera tónlist á kvöldin og um helgar. Mér fannst það rosalega stórt skref og mikil áhætta, en það reyndist ein besta ákvörðun sem ég hef tekið. Þá varð ég algjörlega fókusaður á tónlistina og einmitt þá fór ferillinn á flug.“
DJ-sett er líklega það form tónlistarsköpunar sem veltur hvað mest á víxlverkun skaparans og áheyrenda, stemningin í rýminu hefur áhrif á tónlistina og tónlistin mótar stemninguna á dansgólfinu. Hvernig myndir þú segja að þetta sé hjá þér, að hvaða leyti hefur umhverfið þar sem þú spilar og andrúmsloftið áhrif á tónlistina þína og DJ-settin þín?
„Tónsmíðarnar mínar eru alveg undir beinum áhrifum frá staðnum sem ég spila oftast á: Berghain. Í lögum á borð við „Subzero“ held ég að fólk geti bókstaflega fundið fyrir arkitektúr og andrúmslofti staðarins. Þegar ég kem svo fram sem plötusnúður hefur bæði arkitektúr staðarins áhrif á mig og stemningin á dansgólfinu. Þegar ég spila á litlum stöðum þar sem stemningin er mjög náin þá sæki ég yfirleitt í hlýlegri hljóðmynd og tónlist sem er meira „groovy.“ Í stóru iðnaðarhúsnæði með risastórt hljóðkerfi spila ég frekar hraðari og harðari tónlist en í persónulegra umhverfi. Sumir hlutir virka bara á ákveðnum stöðum.“
Mér finnst vera virkilega dökkur blær yfir tónlistinni þinni og myrk áferð, en það er samt ekki bara það sem aðgreinir hana frá meginstraumi danstónlistar í heiminum, það sem kallað hefur verið EDM (Electronic dance music) heldur er hún miklu gisnari og naumhyggjulegri. Og á meðan EDM gefur áheyrendum tilfinningalega losun og fullnægju nánast samstundis og stöðugt, þá virðist þú leggja þig frekar fram við að viðhalda spennu í gegnum allt settið. Er það meðvituð ákvörðun að skilja eftir svo mikið fyrir ímyndunarafl og tilfinningalega túlkun fólks?
„Algjörlega! Það er raunar þetta sem ég hef alltaf elskað við teknó: dulúðin, plássið sem það skilur eftir fyrir mann til að fylla út í með eigin túlkunum og þessi spenna sem hægt er að byggja upp svo klukkutímum skiptir án nokkurrar stórrar uppskrúfaðrar og augljósrar losunar. Það er þarna sem töfrar og fegurð teknótónlistarinnar liggja. Þannig á teknóið í raun ekkert sameiginlegt með EDM, þar sem athygli fólks er bara viðhaldið í um fimmtán sekúndur áður næsta stóra og pirrandi „drop“ á sér stað. Teknó er miklu táknrænna og tilfinningaþrungnara.“
Ég hef oft heyrt fólk lýsa upplifun sinni af Berghain með nánast trúarlegum eða andlegum hugtökum. Er þetta eitthvað sem þú tengir við, heldur þú að teknóið sé á einhvern hátt líklegra til að hafa þessi áhrif á fólk en annars konar tónlist – og kannski í framhaldinu, heldur þú að umhverfið á Berghain sé jafnvel til þess fallið að magna upp þessa tilhneigingu?
Fatboy Slim (Bre), De La Soul (BNA), Moderat (Þýs), Sleigh Bells (BNA), Tommy Genesis (Kan), Giggs (Bre), Nadia Rose (Bre), Oddisee (BNA), Vatican Shadow (BNA, Helena Hauff (Þýs), B.Traits (Bre), Forest Swords (Bre), Gus Gus, Emmsjé Gauti, Aron Can, FM Belfast, Glowie, Samaris, Kött Grá Pje, Sin Fang, SxSxSx, Øfjord, Alvia Islandia, GKR, Sturla Atlas og Frímann.
„Já og já! Ég held jafnvel að ég hafi verið fyrstur til að nota þetta orð „kirkja“ sem er í dag svo oft notað yfir stemninguna á Berghain. Fyrir mig er þessi klúbbur algjört draumaumhverfi fyrir teknó. Hljóðvistin, arkitektúrinn, töfrarnir sem þessi staður gefur frá sér. Teknó getur skapað mjög ofsafengna upplifun og Berghain er hinn fullkomni staður fyrir það. Það er líka mikilvægt að nefna umburðarlyndið og lyktina af frelsi sem umlykur tónlistina innan veggja staðarins. Nú í dag, þegar vegið er að grunngildum okkar og stór hluti heimsins virðist vera að taka aftur upp gildismat frá miðöldum, er ég alltaf jafn hissa og þakklátur fyrir þá staðreynd að staður eins og Berghain geti yfirhöfuð verið til.“
Þú sagðir áðan að þú undirbúir þig ekki of mikið fyrir hvert sett. Þú hefur þá varla nokkra hugmynd um hvernig settið þitt verður á Sónar Reykjavík?
„Ég hef aldrei komið til Íslands áður þannig að ég hef enga hugmynd um við hverju ég á að búast. Það er reyndar frábær staða fyrir plötusnúð sem hefur komið ansi víða við.“