Allar 46 tilnefningarnar – Netkosning hafin
Menningarverðlaun DV fyrir árið 2015 verða veitt miðvikudaginn 9. mars næstkomandi klukkan 17.00 í Iðnó. 45 verkefni, hópar og einstaklingar eru tilnefndir til verðlaunanna í ár í níu flokkum; kvikmyndum, leiklist, dansi, tónlist, myndlist, arkitektúr, hönnun, bókmenntum og fræðum, en auk þess veitir forseti Íslands sérstök heiðursverðlaun og lesendaverðlaun dv.is verða veitt. Föstudaginn 26. febrúar hefst netkosning á dv.is sem stendur til miðnættis 9. mars, þar sem lesendum gefst tækifæri til að kjósa þá tilnefningu sem þeim líst best á – sú tilnefning sem hlýtur flest atkvæði í netkosningunni hreppir lesendaverðlaun dv.is.
Taktu þátt í netkosningunni. Sá sem fær flest „Like“ hlýtur lesendaverðlaun dv.is.
Mengi
Menningarsetrið Mengi hefur á undanförnum árum haldið úti kraumandi og vandaða dagskrá viðburða af öllu tagi. Á örfáum fermetrum á Óðinsgötu hafa verið haldnir árlega hátt á annað hundrað viðburða; tónleika, myndlistar-, dans- og leiksýninga, Hvað tónlist varðar hefur Mengi skapað fágætan vettvang fyrir samtal og sköpun óháð formi, tíma eða stað, þar sem á einum mánuði má heyra innlenda sem erlenda listamenn flytja rokk, raftónlist, barokk, þjóðlög, samtímatónlist, djass eða allt í senn. Á nýju ári bættist barnastarf í tilrauna- og fræðslustarfsemina sem fyrir var, sem gert hefur Mengi að ómetanlegum suðupotti uppgötvunar og upplifunar fyrir listamenn og neytendur.
Misþyrming
Misþyrming fer fyrir svartmálms-bylgju sem skellur nú á ströndum landsins með vaxandi ákafa. Hljómsveitin heldur úti Vánagandr útgáfunni sem er með puttann á púlsi svartmálmsins og gerði hina hnausþykku plötu Söngvar elds og óreiðu. Hún hefur verið að vekja athygli innan og utan landsteinanna með djöfullegum hamagangi sínum, óreiðukenndum melódíum og almennu svartnætti.
Stelpur rokka!
Grasrótarsamtökin Stelpur rokka! eru nú á sínu fimmta starfsári. Þessi sjálfboðaliðareknu samtök starfa af feminískri hugsjón við að efla ungar stelpur í gegnum tónlistarsköpun. Kjarninn í starfinu eru rokksumarbúðirnar, en þar læra stelpur á hljóðfæri, hvernig það er að spila saman í hljómsveit, kynnast farsælum tónlistarkonum og fræðast um hinar ýmsu hliðar tónlistar og jafnréttisstarfs. Yfir 60 hljómsveitir hafa verið stofnaðar í sumarbúðunum. Búðirnar fara sífellt stækkandi og verða settar á stofn búðir á Grænlandi og í Færeyjum sumarið 2016.
Stórsveit Reykjavíkur
Stórsveit Reykjavíkur skipar mikilvægan sess í íslensku tónlistarlífi og verður skemmti- og menningargildi hennar seint ofmetið. Að árlegum swing-tónleikum undanskildum lék sveitin á seinasta ári tónlist Helge Sunde og Thad Jones, lék tónlist af hinni sögufrægu plötu Ella and Basie!, hélt magnaða afmælistónleika til heiðurs Frank Sinatra í Hörpu og Hofi og lék útsetningar Hauks Gröndals á jólatónleikum fyrir alla fjölskylduna. Síðast en ekki síst átti sveitin stórleik í flutningi sínum á tónlist Jóels Pálssonar í frábærum útsetningum Kjartans Valdemarssonar.
Úlfur Úlfur
Íslenskt rapp var í mikilli uppsveiflu á síðasta ári. Af mörgu frábæru listafólki átti tvíeykið Úlfur Úlfur sterkasta framlagið á hinni ofurþéttu plötu Tvær plánetur, sem var sneisafull af góðum hugmyndum, sannfæringarmætti og kraftmiklum lagasmíðum. Hljómsveitin hefur verið lengi að og mótað sterkan og slitgóðan heildartón undir fölskvalausri tjáningu í íslenskum samtíma.
Dómnefnd: Dr. Gunni (formaður), Alexandra Kjeld, Dana Rún Hákonardóttir.
Selma Björnsdóttir og Gísli Örn Garðarsson fyrir Í hjarta Hróa hattar
Leikritið er eftir David Farr sem nýtir sér gamlar enskar þjóðsögur af útlaganum fræga í Skírisskógi en snýr skemmtilega upp á þær. Sýningin er einstaklega fagmannleg, flæðir vel og fallega svo hvergi sjást hnökrar. En um leið er hún innileg og einlæg og kallar fram sanna gleði hjá áhorfendum eins og ævintýri eiga að gera. Hér ættu margir skilið að fá hrós og rósir auk leikstjóranna, ekki síst leikmyndahönnuðurinn Börkur Jónsson sem skapaði sannkallaðan ævintýraskóg á stóra sviði Þjóðleikhússins. Marga leikarana mætti líka nefna, til dæmis Guðjón Davíð Karlsson í hlutverki þjónsins Pierre og Láru Jóhönnu Jónsdóttur í hlutverki húsmóður hans, aðalsmeyjarinnar Maríönnu.
Leikarar í sýningunni ≈ [Um það bil]
Í verkinu eru sagðar sögur nokkurra einstaklinga sem hafa orðið útundan í sænska velferðarsamfélaginu á okkar dögum, þeir virðast koma hver úr sinni áttinni en smám saman kemur í ljós að þeir tengjast allir á einn eða annan veg. Það var einstaklega gaman að fá að sjá nýtt og ferskt leikrit eftir eitt athyglisverðasta leikskáld Svía um þessar mundir, Jonas Hassen Khemiri, og sjá það líka tekið frumlegum tökum af Unu Þorleifsdóttur leikstjóra og leikmyndahönnuðinum Evu Signýju Berger. Það eru þó leikararnir Þröstur Leó Gunnarsson, Guðrún Gísladóttir, Snorri Engilbertsson, Þorbjörg Helga Þorgilsdóttir, Katrín Halldóra Sigurðardóttir, Oddur Júlíusson og Stefán Hallur Stefánsson sem tilnefninguna fá, þeir voru hver öðrum betri og nutu þess greinilega að fara með fyndinn, róttækan og ögrandi textann í þýðingu Eiríks Arnar Norðdahl og brjóta allar leikhúshefðir í leiðinni.
Leikhópurinn og Eiríkur Örn Norðdahl fyrir Mávinn
Leikararnir Björn Stefánsson, Hilmir Snær Guðnason, Katla María Þorgeirsdóttir, Jóhann Sigurðarson, Þuríður Blær Jóhannsdóttir, Þórunn Arna Kristjánsdóttir, Hilmar Guðjónsson, Björn Thors, Halldóra Geirharðsdóttir, Waraporn Chanse og Guðrún Snæfríður Gísladóttir hljóta tilnefningu fyrir leik sinn í klassískum gamanleik Antons Tsjékhovs, Mávinum, sem Yana Ross stýrði. Ásamt Eiríki Erni Norðdahl hljóta þau einnig tilnefninguna fyrir viðbótartexta sem skeytt var inn í verkið með snjöllum og sannfærandi hætti. Hinn svarti, rússneski húmor náði leiftrandi flugi, sýningin var meinlega fyndin, full af uppátækjum og ástríðu. Með breytingum á texta tókst að færa verkið til nútímans og án efa fjölga aðdáendum Tsjékhovs hér á landi.
Þorleifur Örn Arnarsson fyrir leikstjórn Njálu
Þorleifur Örn Arnarsson er tilnefndur fyrir leikstjórn Njálu í Borgarleikhúsinu eftir snjöllu handriti sem hann samdi ásamt Mikael Torfasyni. Verkið er saman sett úr nokkrum sjálfstæðum en samhangandi þáttum sem blanda saman leik, dansi, söng og húskarlavígum á rappbardagaformi sem allt myndar eina listilega kóreógraferaða heild, þar sem hvort tveggja skiptir jafn miklu máli: gáskafullur leikurinn að miðaldaritinu og virðingin fyrir því. Ekki síður eiga leikararnir allir sinn hlut í því hversu áhrifamikil Njála er, líka búningahönnuðurinn Sunneva Ása Weisshappel, leikmyndahönnuðurinn Ilmur Stefánsdóttir og danshöfundurinn Erna Ómarsdóttir. Krefjandi verk hefur verið að halda öllu þessu stórvirki saman og þar á Þorleifur Örn mestan heiður.
Kristín Eiríksdóttir fyrir leikritið Hystory
Kristín Eiríksdóttir er tilnefnd fyrir leikritið Hystory sem Sokkabandið sýndi í Borgarleikhúsinu. Sagan segir frá þrem konum um fertugt sem hittast um það bil aldarfjórðungi eftir að hryllilegur atburður varð í lífi þeirra. Þær hafa aldrei talast við síðan en ljóst verður í snilldarlega saminni framvindu verksins að það sem kom fyrir þær eyðilagði líf þeirra. Þótt verkið sé átakanlegt og grimmt er textinn samt sérkennilega fyndinn og uppsetning Ólafs Egils Egilssonar og leikur Elmu Lísu Gunnarsdóttur, Birgittu Birgisdóttur og Arndísar Hrannar Egilsdóttur drógu fram alla kosti hans. Leikmynd Evu Signýju Berger, lýsing Valdimars Jóhannssonar og tónlist Högna Egilssonar gerðu líka sitt til að auka áhrif þessa magnaða verks.
Dómnefnd: Silja Aðalsteinsdóttir (formaður), Arngrímur Vídalín, Bryndís Loftsdóttir.
Erna Ómarsdóttir og Íslenski dansflokkurinn
Dansflokkurinn hefur undir stjórn Ernu fetað inn á ótroðnar slóðir á árinu með spennandi verkefnum sem gera miklar og ólíkar kröfur til dansara flokksins og áhorfenda hans. Samstarfsmöguleikar flokksins voru þandir út með verkinu Stjörnustríð, en þar mættust Íslenski dansflokkurinn, fjölfötluð börn í Klettaskóla og List án landamæra. Samruni listgreina var færður upp á nýtt stig í samstarfi flokksins og Leikfélags Reykjavíkur í verkinu Njála þar sem dansinn og leiklistin haldast þéttingsfast í hendur í hatrömmum átökum þessa sögufræga og alblóðuga verks. Í dansverkinu Liminal var líkamlegum mörkum dansarans ögrað til hins ítrasta og í hinu hápólitíska verki Black Marrow var stórum og áleitnum spurningum varpað til áhorfenda í mögnuðu sviðsverki.
Katrín Gunnarsdóttir fyrir Macho man
Katrín Gunnarsdóttir samdi sólóverkið Macho Man fyrir dansarann Sögu Sigurðardóttur. Í verkinu er birtingarmynd karllíkamans í nútíma samfélagi dregin fram. Dansarinn er einn í auðu hvítu rými, ber að ofan, án hljóðmyndar annarrar en þeirrar sem hann sjálfur gefur frá sér. Tilbúinn til að mála upp hreyfimynd af svitastorknum heimi mexíkóskrar glímu, rokkstjarna og líkamsræktarkappa eins og hún birtist okkur á Youtube. Sérstaklega áhugavert er að sjá kvenkyns dansara framkvæma þann karllæga hreyfiorðaforða sem settur er fram en sá tvíræði heimur sem við það skapast kallar fram sérstæð hugrenningatengsl sem lifa lengi með áhorfandanum.
Melkorka Sigríður Magnúsdóttir fyrir Milkywhale
Milkywhale er söngsjálf Melkorku þar sem hún stígur fram sem einmana hvalur sem á erfitt með að feta sig í gegnum lífið. Í verkinu fær hún til liðs við sig Árna Rúnar Hlöðversson sem semur tónlistina við texta Auðar Övu Ólafsdóttur en Magnús Leifsson og Jóhann Ágústsson sjá um vídeó- og ljósahönnun. Milkywhale var upphaflega sett upp sem dansverk fyrir Reykjavík Dance Festival, sem tónleikaskotin kóreógrafía þar sem aðferðir danssmíðanna voru nýttar til að binda saman þemabundinn lagalista. Seinna meir var sviðsverkið flutt upp á tónleikasvið Airwaves og verkinu snúið yfir í kóreógraferaða tónleika sem studdir voru af kraftmikilli sviðsumgjörð ljósa og vídeós. Í báðum tilvikum nær Melkorka að fanga athygli áhorfenda með óvæntum uppákomum og skotheldri sviðsframkomu.
Reykjavík Dance Festival
Reykjavík Dance Festival hefur starfað frá árinu 2002. Alexander Roberts og Ásgerður Gunnarsdóttir, listrænir stjórnendur hátíðarinnar, hafa hrist ærlega upp í fyrirkomulagi hennar. Hátíðin starfar nú árið um kring. Hátíðin í ágúst er vettvangur fjölbreytni og stærri sýninga, en viðburðir í nóvember og febrúar eru sértækari og gefa áhorfendum tækifæri til að fara á dýptina. Námskeið sem haldin eru í tengslum við RDF næra danssamfélagið og opna efni hátíðarinnar enn betur fyrir þátttakendum. Hátíðin hefur einnig náð að efla starfsemi sína með víðtæku og gefandi samstarfi við aðrar hátíðir og stofnanir, svo sem Lókal, Íslenska dansflokkinn og Sónar. Þannig teygir hátíðin sig inn á ný svið og opnar danshátíðarformið í allar áttir. Með listrænt hugrekki og samvinnu að leiðarljósi halda listrænir stjórnendur RDF stöðugt áfram að þróa möguleika hátíðarinnar sem skapandi vettvangs í sviðslistum.
Walk+talk
Austurríski danshöfundurinn Philipp Gehmacher er upphafsmaður Walk+talk en allt frá 2008 hafa fjölmargir danslistamenn tekið þátt í viðburðinum víða um heim, nú einnig Erna Ómarsdóttir og Margrét Bjarnadóttir ásamt Gehmacher sjálfum í Reykjavík. Frásagnartækni Walk+talk er sótt í kvikmyndaformið og yfirfærð yfir á danslistina. Hér er boðið upp á blöndu hreyfinga í rými og samtal við áhorfendur, þar sem hreyfing og orð danshöfundar birtast á sviðinu á sama tíma svo úr verður eins konar dansfyrirlestur. Umfjöllunarefnið er hugmynd og skilningur listamannsins á líkama sínum á hreyfingu og þeim hugmyndum sem þar má finna. Tæknin gerir þá kröfu til danslistamannsins að hann útskýri vinnuaðferðir sínar, sköpunarferli, skilning og skynjun á eigin hreyfitungumáli. Walk+talk er tilnefnt fyrir þá innsýn sem viðburðurinn gefur í listrænt ferli danshöfundar og þróun starfsferils.
Dómnefnd: Karen María Jónsdóttir (formaður), Ólöf Ingólfsdóttir, Margrét Áskelsdóttir.
Taktu þátt í netkosningunni. Sá sem fær flest „Like“ hlýtur lesendaverðlaun dv.is.
Fúsi
Gunnar Jónsson og Ilmur Kristjánsdóttir eru eitt hjartnæmasta par íslenskrar kvikmyndasögu. Dagur Kári hefur náð fullum tökum á list sinni, þá ekki síst handritaskrifunum, og varla er feilnótu að finna. Hver sena er listilega vel skrifuð og samræðurnar eru í senn bæði sannar og skemmtilegar, og tala aldrei niður til áhorfandans heldur leiða hann áfram. Mynd sem gerir út á það sammannlega frekar en séríslenska.
Bíó Paradís – heimili kvikmyndanna
Heimili kvikmyndanna stendur svo sannarlega undir nafni. Hefur aukið breiddina í kvikmyndaúrvali hérlendis til muna undanfarin fimm ár og aldrei verið betri en nú eftir að Stockfish hátíðinni var hleypt af stokkunum. Þýskir dagar, japanskir, pólskir og rússneskir, barnasýningar og nemendafræðsla, svartir sunnudagar og íslensk klassík. Loksins fá Íslendingar að sjá það besta, og ekki bara það vinsælasta, sem sýnt er úti í heimi.
Hrútar
Áhrifamikil mynd sem fjallar um íslenskan veruleika á ljóðrænan og jafnframt raunsæislegan hátt. Leikstjóra tekst að gera erfitt viðfangsefnið bæði fallegt og mannlegt. Grímur Hákonarson sýnir hér næmni sína myndrænt sem og í vinnu sinni með leikurum myndarinnar. Sigurður Sigurjónsson og Theodór Júlíusson sýna hvor um sig stórleik og túlka breyskleika mannsins á trúverðugan hátt. Grímur er sannarlega á heimavelli og hann hefur sýnt að hann á fullt erindi út í heim með þessa séríslensku mynd.
Öldin hennar
Sögu íslenskra kvenna og baráttu þeirra fyrir samfélagslegu jafnrétti eru loks gerð rækileg skil í örþáttum Hrafnhildar Gunnarsdóttur sem unnir voru í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna. Þættirnir hafa einstakt heimildagildi fyrir íslenska menningar-, samfélags- og stjórnmálasögu, þar sem metnaðarfull rannsóknar- og heimildavinna býr að baki.
Hvað er svona merkilegt við það?
Í þessari kraftmiklu heimildarmynd varpar Halla Kristín Einarsdóttir leikstjóri ljósi á skrautlega og gróskumikla kvennabaráttu níunda og tíunda áratugarins. Með húmor og hnyttni að vopni tryggja leikstýran Halla Kristín og framleiðandi Hrafnhildur Gunnarsdóttir, að saga íslenskra kvenna sé ekki aðeins áhugaverð, heldur einnig stórskemmtileg. Byltingarandi tímabilsins er fangaður með einstökum hætti í þessu mikilvæga innleggi inn í íslenska kvennasögu.
Dómnefnd: Vera Sölvadóttir (formaður), Valur Gunnarsson, Ísold Uggadóttir.
Linda Vilhjálmsdóttir fyrir Frelsi
Þrátt fyrir einstaka fágun sem einkennir ljóðin í Frelsi hefur Linda Vilhjálmsdóttir á engan hátt dregið tennurnar úr ádeilunni eða mýkt hina ískrandi reiði sem hún miðlar í þessari tíðarandalýsingu og heimsósómapredikun. Útkoman er ein sterkasta ljóðabók síðari ára. Þörf áminning um trylling nánustu fortíðar, illþolandi hlutskipti mannkyns í samtímanum og möguleika ljóðsins til að segja sannleikann á meitlaðan og áhrifaríkan hátt.
Guðmundur Andri Thorsson fyrir Og svo tjöllum við okkur í rallið
Thor Vilhjálmsson var einstakur maður í þjóð- og menningarlífi Íslendinga og Guðmundur Andri, sonur hans, er í einstakri stöðu til að virða hann fyrir sér. Þegar við bætist stílgáfa sem fáum núlifandi íslenskum rithöfundum er gefin fara minningabrot og hugleiðingar Guðmundar um föður sinn á sjaldgæft flug. Sérlega falleg bók um föður, son, skáld, skáldskap, tíðaranda, börn, líf, fjölskyldu, menningarástand og ást.
Auður Jónsdóttir fyrir Stóra skjálfta
Stóri skjálfti eftir Auði Jónsdóttur er áhrifarík áminning um mikilvægi minnisins og hvernig líf okkar mótast eftir minningum okkar úr fortíðinni. Í skáldsögunni púslast líf aðalpersónunnar smám saman fyrir augum lesandans svo úr verður eins konar spennusaga minninganna. Auður sýnir enn og aftur einstaka hæfni í sköpun á trúverðugum og breyskum persónum á sama tíma og hún lýsir erfiðum sjúkdómi sem sjaldan er fjallað um.
Kristín Ómarsdóttir fyrir Flækinginn
Flækingurinn eftir Kristínu Ómarsdóttur er áhugaverð rýni þar sem samfélagið er skoðað út frá jöðrum þess. Umfjöllunarefnið er undirheimarnir, heimili ógæfufólks, sem samfélagið keppist við að fela og bæla – og kallast á einhvern hátt við „undirheima“ mannlegs eðlis. Hér fær sögumaður rödd sem sjaldan hefur fengið að hljóma í íslenskum bókmenntum og velur höfundur snilldarlega að gera hann mállausan. Fólk á erfitt með að skilja hann.
Flækingurinn þvingar lesandann í spor lægstu samfélagsstiga og til að samsama sig fólkinu sem samfélagið hefur snúið bakinu við. Leikandi stíllinn heldur honum föngnum.
Halldór Halldórsson fyrir Hugmyndir: Andvirði hundrað milljónir
Hugmyndir: Andvirði hundrað milljónir eftir Halldór Halldórsson er samtal við samtímann. Takturinn er hraður og leiftrandi húmor undirliggjandi. Skáldið hæðist að klisjum ljóðlistarinnar og hnýtir í það stigveldi sem listaheimurinn einkennist af. Ljóðmælandinn er oftar en ekki ýkt birtingarmynd karlmennskunnar sem kemur lesandanum á óvart með hreinskilni sinni. Þessi frumraun höfundar á þessu sviði hittir því beint í mark með nútímalegri nálgun sinni á ljóðformið.
Dómnefnd: Þorgeir Tryggvason (formaður), Halla Þórlaug Óskarsdóttir, Guðrún Baldvinsdóttir.
Bókabörn – Íslenskar barnabókmenntir verða til eftir Dagnýju Kristjánsdóttur
Í Bókabörnum rekur Dagný Kristjánsdóttir hugmyndir manna um börn og bernsku og ekki síst hvernig hugmyndir um barnið hefðu þróast. Hún fjallar um fjóra fyrstu íslensku barnabókahöfundana og bækur þeirra; Jónas Hallgrímsson, Jón Sveinsson eða Nonna, Sigurbjörn Sveinsson og Jóhann Magnús Bjarnason. Bókin er í senn aðgengilegt og fræðilegt yfirlit yfir það hvernig bækurnar birta hugmyndir samtíma þeirra um börn og hvernig þau eiga eða eiga ekki að vera.
Góssið hans Árna – Minningar heimsins í íslenskum handritum í ritstjórn Jóhönnu Katrínar Friðriksdóttur
Góssið hans Árna hefur að geyma fyrirlestra ellefu fræðimanna um handrit úr handritasafni Árna Magnússonar sem fluttir voru í tilefni af því að handritasafnið var tekið inn á varðveisluskrá UNESCO. Greinarnar eru tiltölulega stuttar og aðgengilegar og gefa lesendum nýstárlega og fróðlega sýn á handritin. Handritin sem efnislegir gripir og hönnun bókarinnar spila svo fallega saman að tíðindum sætir. Sóley Stefánsdóttir hannar og brýtur bókina um og verk hennar gerir þetta greinasafn að þeim fallega prentgrip sem það er. Góssið hans Árna er ákaflega vel heppnað rit sem færir handritin nær almennum lesendum.
Landnám og landnámsfólk eftir Bjarna F. Einarsson
Í bókinni Landnám og landnámsfólk fjallar Bjarni F. Einarsson fornleifafræðingur um landnám Íslands, forsendur þess og aðdraganda með landnámsbýlið Hólm í Nesjum sem viðmið. Rannsóknirnar í Hólmi stóðu yfir í tólf sumur og haust á sextán ára tímabili, sem gerir þær með mestu fornleifarannsóknum á landinu, en þó að sögusviðið sé fyrst og fremst Laxárdalur í Nesjum teygir bókin sig vítt um heim, allt austur til Asíu, vestur til Vínlands, norður til Svalbarða og suður til Afríku. Bókin er í senn fræðileg og fræðandi fyrir leikmenn, ríkulega myndskreytt og gefur einkar góða mynd af landnámssögu Íslands.
Heiður og huggun – Erfiljóð, harmljóð og huggunarkvæði á 17. öld eftir Þórunni Sigurðardóttur
Heiður og huggun er merkilegt rit um bókmenntagreinar sem voru vinsælar fyrr á öldum. Þórunn hefur með rannsókn sinni á erfi- og harmljóðum á 17. öld unnið brautryðjandastarf í íslenskum bókmenntarannsóknum. Verkið er afar yfirgripsmikið og í því birtast í fyrsta sinn á prenti textar sem varðveittir eru í handritum. Rannsóknin er ýtarleg og Þórunn leggur áherslu á tengsl bókmennta og samfélags og gefur innsýn í hugsunarhátt og menningarheim 17. aldar og ber saman við hugmyndir okkar tíma. Afar vandað fræðirit og þarft innlegg í íslenskar bókmenntarannsóknir.
Þegar siðmenningin fór fjandans til eftir Gunnar Þór Bjarnason (Mál og menning)
Í verki Gunnars er saga heimsstyrjaldarinnar fyrri rakin á aðgengilegan og áhrifamikinn hátt. Áhrif styrjaldarinnar á íslenskt samfélag eru í brennidepli og höfundi tekst að gefa lesendum innsýn í líf Íslendinga á þessum merkilegu umbrotatímum. Víða er leitað fanga og ekki síst í dagblöðum, bréfum og öðrum íslenskum heimildum. Texti Gunnars er sérlega lipur og lifandi og skilar verki sem er allt í senn, fræðilegt, aðgengilegt og ekki síst skemmtilegt aflestrar. Allur frágangur bókarinnar er vandaður og til fyrirmyndar. Glæsilegt og áhugavert rit.
Dómnefnd: Árni Matthíasson (formaður), Hildigunnur Þráinsdóttir, Guðný Hallgrímsdóttir.
Taktu þátt í netkosningunni. Sá sem fær flest „Like“ hlýtur lesendaverðlaun dv.is.
Cycle, music and art festival
Cycle er ný og spennandi listahátíð sem hóf göngu sína í Kópavogi síðasta sumar en er í raun fjölþjóðlegt verkefni þar sem teflt er saman tónlist og myndlist í öflugu samstarfi. Það á sérstaklega vel við að halda slíka hátíð á Íslandi þar sem tónlist og myndlist hafa á undanförnum árum runnið æ oftar í sameiginlegan farveg, tón- og myndlistarmenn starfa oft náið saman og fjölmargir sinna í rauninni báðum greinum eða greina hreinlega ekki lengur þar á milli. Á dagskrá þessarar fyrstu hátíðar mátti sjá heimsþekkt nöfn á borð við Ólaf Elíasson, Gjörningaklúbbinn og Simon Steen-Andersen en líka fjölmarga yngri og upprennandi listamenn. Hátíðin virkjaði ótrúlega vítt svið í liststarfsemi höfuðborgarsvæðisins og í gegnum samstarf við Import Projects í Berlín fengu valin verk af hátíðinni framhaldskynningu þar.
Ferskir vindar
Listahátíðin Ferskir vindar var haldin í fjórða sinn í Garði á Reykjanesi en henni stýrir Mireyja Samper. Fimmtíu listamenn frá ýmsum löndum stóðu fyrir fimm vikna dagskrá með sýningum, viðburðum, tónlist, fræðslu og gjörningum. Mireyja var upphafsmaður þessa verkefnis en hún hefur ferðast víða um heim þar sem hún hefur unnið að sinni eigin myndlist og sýnt, en síðan nýtt tengslanet sitt til að kynna hátíðina í Garði og laða þangað áhugaverða listamenn. Hátíðin sannar að það þarf ekki endilega stórt bæjarfélag til að hýsa svona viðburði og á Ferskum vindum vinna listamenn með þátttöku heimamanna, ekki síst skólanema, svo dagskráin virkjar umhverfi sitt betur en yfirleitt tekst á slíkum viðburðum.
Sequences, real time art festival
Sequences hátíðin varð til árið 2006 og hefur nú verið haldin átta sinnum. Frá upphafi hefur verið lögð áhersla á tímabundin verk, vídeó, gjörninga og hljóðinnsetningar sem gefa hátíðinni sinn sérstaka svip og hlutverk í borgarlífinu í Reykjavík þar sem hún hefur svo sannarlega fest sig í sessi. Hátíðin á síðasta ári var sérstaklega vel heppnuð og fjölbreytt, og hún hefur fengið á sig æ fjölþjóðlegra yfirbragð. Það er óhætt að segja að Sequences hafi lagt drjúgan skerf að því að kynna Reykjavík sem menningarborg á alþjóðlegum vettvangi og fjallað er um hátíðina í mörgum helstu listtímaritum. Stjórnandi hátíðarinnar 2015 var Alfredo Cramerotti, forstöðumaður MOSTYN, helstu samtímalistastofnunar Wales.
Ekkisens
Ekkisens er listamannarekið sýningarrými í gömlum kjallara á Bergstaðastræti 25 b í Reykjavík. Að því stendur hópur ungra listamanna sem hefur lagt mikið á sig til að halda grasrótarstarfsemi lifandi í borginni í harðnandi samkeppni við gistiheimili og ferðamannaverslanir. Ekkisens hefur verið rekið í á þriðja ár og hefur starfsemin stöðugt eflst og að hluta til dreifst um landið með þátttöku hópsins í alls konar sýningum og verkefnum, meðal annars hústökusýningum í Reykjavík og á Stöðvarfirði. Listrænir stjórnendur Ekkisens eru Freyja Eilíf Logadóttir og Heiðrún Gréta Viktorsdóttir. Í viðtali við DV sagði Freyja Eilíf: „Markmiðið með hústökusýningum er að skapa sjálfbærni í sýningarstarfsemi listamanna, skapa vettvang sem listamenn geta gengið inn í á eigin forsendum og virkjað sköpunarkraftinn í umhverfinu, samfélaginu, tómum húsum og rýmum sem bjóðast leigulaust. Og nýtni – nýta það sem býðst og er tómt.“
Aðalheiður S. Eysteinsdóttir
Aðalheiður hefur haldið fjölda sýninga um allt land og einnig sýnt erlendis. Tréskúlptúrar hennar eru einstakir og auðþekkjanlegir, og skúlptúrinnsetningar hennar verða sífellt umfangsmeiri en dómnefnd vill sérstaklega draga fram atorkusemi hennar við að efla og halda saman fjölbreyttu listalífi á Norðurlandi. Aðalheiður hefur haldið utan um starfsemi í Freyjulundi í Eyjafirði, á Hjalteyri þar sem haldnar hafa verið sýningar, tónleikar og alls konar listviðburðir. Hún hefur líka tekið yfir gamla Alþýðuhúsið í heimabæ sínum á Siglufirði sem orðið er vettvangur fyrir fjölbreytta starfsemi, meðal annars listahátíðina Reiti þar sem fólk kemur alls staðar að úr heiminum til samstarfs og sýninga. Aðalheiður hefur með óeigingjarnri vinnu og smitandi áhuga virkjað eldri sem yngri með sér og myndlistarlífið fyrir norðan hefur notið hennar og blómstrað síðustu árin.
Dómnefnd: Jón Proppé (formaður), Jón B.K. Ransu, Arna Valsdóttir.
Orlofshús í Brekkuskógi (PK Arkitektar)
Árið 2012 stóð Bandalag háskólamanna fyrir samkeppni um orlofshús í Brekkuskógi þar sem PK Arkitektar urðu hlutskarpastir. Orlofshúsin, eru staðsett í grónu kjarrlendi með magnað útsýni til fjalla og yfir Laugarvatn. Þegar horft er á húsin úr fjarlægð má greina dökk form sem setja sterkan svip á landslagið en taka þó ekki yfirhöndina þar sem þak húsanna er grasi vaxið. Þegar komið er nær má sjá ríka efniskennd sem birtist einkum í dökkri timburklæðningunni sem tónar vel við gróið umhverfið. Hvort sem horft er á rýmisupplifun og formgerð, efniskennd og frágang eða notagildi endurspegla húsin framúrskarandi arkitektúr í alla staði. Verkið i heild sinni er sannarlega innblástur og hvatning til að vanda vel til verka í fallegu íslensku landslagi.
Íþróttamiðstöðin í Grindavík (Batteríið og Landslag)
Um er að ræða metnaðarfullt verkefni sem felur í sér öfluga viðbót við þau íþróttamannvirki sem fyrir eru og á bæjarfélagið hrós skilið fyrir að nota núverandi innviði til að skapa stemningu og líf. Þegar horft er á nýju bygginguna má sjá óvenjulegt en að sama skapi áhugavert formtungumál sem birtirt í gluggasetningu og efniskennd. Með landslagshönnuninni eru svo kynnt til leiks mjúk form úr steinsteypu sem mynda nokkurs konar setstalla. Þeir virka sem óformlegar áhorfendastúkur þegar viðburði ber á góma á útisviði sem staðsett er fyrir miðju torgsins. Þessi fjölbreytilega blanda formtungumáls sem birtist í byggingu og torgi er djörf en að sama skapi lifandi og skemmtilegur rammi utan líf og leik í bæjarfélaginu Grindavík.
Hjúkrunarheimilið Dyngja, Blómvangi (Hornsteinar arkitektar)
Árið 2012 stóð sveitarfélagið Fljótsdalshérað fyrir samkeppni um hjúkrunarheimili þar sem Hornsteinar arkitektar fóru með sigur af hólmi. Hjúkrunarheimilið er byggt upp í tveimur álmum sem laga sig að landslagi staðarins. Með þessu móti er öllum 40 herbergjum vistmanna tryggð góð birtuskilyrði og útsýni á sama tíma og álmurnar mynda skjólgóða innigarða í sterku samspili við klettaveggi náttúrunnar. Þegar horft er á bygginguna framanvert myndar sjónsteypa og timburfrágangur fínlegt samspil sem er skemmtileg andstæða hins dramatíska samtals sjónsteypu og kletta. Með þessu móti verður til heildstætt verk sem er bæði hlýlegt og bjart um leið og það skapar sterka tengingu við aldagamla náttúruna.
Orka til framtíðar, afmælissýning Landsvirkjunar á Ljósafossi (Gagarín og Tvíhorf arkitektar)
Síðastliðið sumar opnaði gagnvirk orkusýning – Orka til framtíðar – í sýningarsal Ljósafossstöðvar í Soginu. Um er að ræða samstarfsverkefni þar sem margmiðlunar- og upplýsingahönnun var á hendi Gagarín á meðan Tvíhorf arkitektar höfðu yfirumsjón með hinum arkitektóníska ramma sýningarinnar. Þetta samstarf hefur gefið góða raun þar sem bæði frumleg miðlun upplýsinga og arkitektúr þessarar, rótgrónu og fallegu virkjunar sem teiknuð var upphaflega af Sigurði Guðmundssyni, fær notið sýn. Undur vísindanna, lögmálum og stærðum raforkunnar, er miðlað með listrænum og fáguðum hætti um leið og sterk áhersla er lögð að að gera sýninguna aðgengilega fyrir alla. Það er ánægjulegt að sjá rótgróna orkustöð Ljósafossvirkjunar sem uppsprettu skapandi hugarorku, með fræðslu og leik fyrir unga sem aldna.
Íbúðir í Eddufelli (GP Arkitektar)
Gamalt verslunarhúsnæði tekur hér á sig aðra mynd í formi nýrrar íbúðarblokkar í Efra-Breiðholdi. Blokkin gefur hverfi sem lítið hefur breyst síðastliðna áratugi nýjan og ferskan tón með lifandi efnisvali sínu; timburklæðningum og steinflísum. Þessi tvö efni eru í stöðugum leik hvort við annað sem endurspeglast meðal annars í suðurhlið byggingarinnar, þar sem svalir íbúða stallast hver upp af annarri. Þessi leikur með form og efni virkar vel og myndar jákvætt aðdráttarafl þegar gengið er um hverfið og leiðir vegfarandann að þjónustukjarna hverfisins. Töluverður fjöldi íbúða er í blokkinni sem gerir það að verkum að sumar þeirra njóta takmarkaðra gæða er þær snúa að fjölförnu sundi eða að stoðvegg á jarðhæð. Engu að síður er hér á ferðinni áhugavert verk sem gefur umhverfi sínu ferskan og lifandi blæ.
Dómnefnd: Hildur Gunnlaugsdóttir (formaður), Bjarki Gunnar Halldórsson, Sigurður Hallgrímsson.
Jungle Bar
Orkustykkið Jungle Bar, sem meðal annars er búið til úr krybbum, er hugarfóstur þeirra Búa Bjarmar Aðalsteinssonar og Stefáns Atla Thoroddsen. Jungle Bar er meðal annars ætlað að vekja fólk á Vesturlöndum til umhugsunar um þá ókönnuðu möguleika sem felast í því að rækta skordýr til matvælagerðar. Búi vakti áður athygli fyrir uppfinninguna „Fly factory,“ vélrænt skordýrabú sem hefur það að markmiði að ala lirfur í matargerð. Með þessum verkefnum segist hann segist vilja útvíkka hugmyndir um starf hönnuðarins. Það verkefni var, líkt og Jungle Bar, að einhverju leyti innblásið af lestri skýrslu FAO, landbúnaðararms Sameinuðu þjóðanna, um stöðu landbúnaðar í Evrópu. Öll þróunarvinna fyrir Jungle Bar var unnin á Íslandi, meðal annars með styrkjum frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Rannís. [[D294994FA5]]
Anita Hirlekar
Aníta Hirlekar er meðal helstu vonarstjarna íslenskrar fatahönnunar. Síðustu ár hefur hún unnið fyrir mörg þekkt fyrirtæki á borð við Dior, Diane Von Furstenberg, Diesel og Bvlgari. Aníta sýndi á Hönnunarmars í fyrra glæsilega útskriftarlínu sína frá Central Saint Martins í London. Þaðan útskrifaðist hún með marstergráðu í fatahönnun og textíl. Aníta er frá Akureyri og sýndi hún á Hönnunarmars með móður sinni, Önnu Gunnarsdóttur textílhönnuði, sem hún segir hafa veitt sér mikinn innblástur. Í haust var Aníta síðan valin til að sýna línuna sína á tískuvikunni í London þar sem hún var sögð „one to watch“ af aðstandendum. Í kjölfarið birtu miðlar á borð við Vogue umfjöllun um Anítu og henni var boðið til Parísar að kynna línuna sína.
OR Type
OR Type er fyrsta og eina sérhæfða leturútgáfa Íslands. Hana reka félagarnir Guðmundur Úlfarsson og Mads Freund Brunse. Þeir hanna leturgerðir og selja og síðustu misseri hafa þeir selt letur til blaðanna New York Times og The Wire. Þá var opinbert letur Sundance kvikmyndahátíðarinnar úr þeirra smiðju. Guðmundur og Mads leggja áherslu á að skapa lifandi letur sem ögrar fyrirfram gefnum hugmyndum um hvernig letur skuli vera.
Knot-púðinn
Ragnheiður Ösp Sigurðardóttir rekur hönnunarstofuna Umemi og framleiðir púðann Knot, sem áður hét Notknot. Púðinn hefur slegið í gegn hérlendis síðustu ár og er nú byrjaður sigurför um heiminn. Á dögunum tilkynnti virta hönnunarfyrirtækið Design House Stockholm að það ætli að framleiða púðann. Í kjölfarið var hann pantaður af búðum á borð við MoMA í New York. Knot-púðinn varð til fyrir tilviljun árið 2011 þegar Ragnheiður var að hekla fígúrur með langar lappir og datt í hug að hekla langar lengjur og gera eitthvað úr þeim. Hún endaði á því að hnýta þær í Knot-púðann en sem barn var hún í skátunum og heillaðist af mismunandi hnútum.
Float
Unnur Valdís Kristjánsdóttir hannaði Flothettuna fyrir fólk til að upplifa vellíðan í vatni, losa um streitu og stuðla að heilbrigði. Vörulínan samanstendur af Flothettu og Fótafloti, og er hún hönnuð til að veita líkamanum fullkominn flotstuðning í vatni. Síðustu misseri hefur orðið til hreyfing í kringum svokallað Samflot, þegar margir setja á sig Flothettur Unnar og fljóta saman. Þetta er skemmtilegur slökunarkúltur og góð viðbót við baðmenningu þjóðarinnar. Samflotin spretta upp í sundlaugum út um allt land og eru bláu hetturnar og fótaflotin orðin staðalbúnaður margra sem njóta þess að fljóta og slaka.
Brynjar Sigurðsson
Brynjar Sigurðsson hefur vakið heimsathygli fyrir hönnun sína: húsgögn skreytt með hákarlahnútum frá Vopnafirði, hjálpartæki fyrir ímyndaðan veiðimann og prik með engan augljósan tilgang. Hann heldur til á mörkum list- og hönnunarheimsins en hefur fyrst og fremst áhuga á því að segja sögur. Hönnun hans hefur prýtt forsíðu Wallpaper, í fyrra hlaut hann Svissnesku hönnunarverðlaunin og einnig kom út bók og vínylplata byggð á verkum hans. Brynjar setti upp í fyrra flotta sýningu í höfuðstöðvum Crymogeu við Barónsstíg með kærustu sinni, þýska innanhússhönnuðinum Veroniku Seidlmair, en saman reka þau hönnunarfyrirtækið Studio Brynjar and Veronika Seidlmair í Berlín.
Dómnefnd: Tinni Sveinsson (formaður), Guðmundur Jörundsson, Sigga Heimis.
Taktu þátt í netkosningunni. Sá sem fær flest „Like“ hlýtur lesendaverðlaun dv.is.