Hreyfiprentstofan í Nýló – Nemendur Myndlistaskólans sýna afrakstur grafíknámskeiðs
Á laugardag var opnuð ný sýning nemenda í fornámi Myndlistaskólans í Reykjavík í Nýlistasafninu, en verkin unnu þeir í Hreyfiprentstofunni – færanlegu grafíkverkstæði sem Sigurður Atli Sigurðsson og Leifur Ýmir Eyjólfsson sjá um. Sýningin er sett upp innan um og kallast á við verk frá bókverkabúðinni Boekie Woekie sem sýnd hafa verið í Nýló frá því í janúar.
Upprunalega sóttum við innblástur í íslenskan landbúnað, því líkt og bændur samnýta traktora og fleiri landbúnaðarvélar vildum við deila prentverkstæði sem gæti ferðast milli vinnustofa og við gætum nýtt í ýmis verkefni.
„Hreyfiprentstofan er net listamanna með aðgang að hreyfanlegu grafíkverkstæði. Upprunalega sóttum við innblástur í íslenskan landbúnað, því líkt og bændur samnýta traktora og fleiri landbúnaðarvélar vildum við deila prentverkstæði sem gæti ferðast milli vinnustofa og við gætum nýtt í ýmis verkefni,“ segir Sigurður.
„Stofan hefur verið starfandi síðan á síðasta ári og hefur mótast eftir þeim verkefnum sem okkur hefur verið boðið að taka þátt í. Þetta er ekki listamannahópur heldur hafa einstaka listamenn aðgang að tækjunum og geta notað í eigin sköpun og verkefni. Við erum með tækjabúnað fyrir grafík og silkiþrykk, bókband og innrömmun, alls konar pressur og hnífa. Við höfum sett upp verkstæðið í Íslenskri grafík, Myndhöggvarafélaginu í Reykjavík, Myndlistaskólanum í Reykjavík og Nýlistasafninu en einnig á vinnustofum listamanna,“ segir hann.
Hvað er svona áhugavert við þessa tjáningaraðferð, prenttæknina?
„Prentið býður upp á að búa til verk í upplagi og þannig nær það meiri dreifingu. Einnig er tengingin við bókverkið og fjölfeldið sem sameinar texta og mynd og getur skrásett til dæmis athafnir og gjörninga.“
Nú hafa nemendur úr Myndlistaskólanum verið að nýta sér Hreyfiprentstofuna og sýna afraksturinn í Nýló. Hvað hafa þeir verið að skapa?
„Undanfarnar vikur höfum við Leifur Ýmir verið að kenna nemendum í fornámi Myndlistaskólans í Reykjavík. Það sem er sérstakt við þetta námskeið er hversu víðtækt samstarf listastofnana hefur verið um það. Myndlistaskólinn í Reykjavík bauð Hreyfiprentstofunni að flytja starfsemi sína inn í skólann til kennslu, upp úr því bauð Nýló okkur að flytja kennsluna til þeirra og vera í samtali við sýningu Boekie Woekie sem þar stendur yfir. Þá kom upp sú hugmynd að nemendurnir yrðu með viðburð á safnanótt Vetrarhátíðar og það gekk vonum framar,“ segir hann.
„Nemendurnir hafa verið að vinna með grunnaðferðir í grafík; dúk- og tréristur og aðeins í bland við nýrri tækni eins og geislaskurð hjá Fablab. Kúrsinn ber nafnið Hugmyndavinna – Útfærsla en í upphafi lögðum við áherslu á að vera ekki með neinar hugmyndir í sambandi við myndefni, að þær kæmu í gegnum aðferðina og efnið. Einnig fjallar kúrsinn um það hvernig maður setur upp listasýningu en þeim var úthlutað ýmsum verkefnum, svo sem að útbúa sýningarskrá, halda utan um arkíf, skrifa texta um sýninguna, búa til bókverk samhliða ferlinu, silkiþrykkja plakat, ljósmynda vinnuferlið, sjá um „internet presence“ og síðan var einn útnefndur tengiliður stofnana þar sem þetta er svo vítt samstarf. Þau læra einnig að ganga frá verkum, smíða ramma og ramma inn og hengja verkin upp. Síðan ratar það oft í ramma sem finnst í ruslinu, misheppnuð prent og sull,“ segir Sigurður Atli.
Og verða verkin sett upp innan um sýninguna hjá Boekie Woekie sem stendur í safninu?
„Já, verkin og verkstæðið allt verður sett upp innan um sýningu Boekie Woekie. Stjórn Nýlistasafnsins var svo sniðug að sjá tengingu milli þess sem við vorum að gera og sýningarinnar. Bæði Boekie Woekie og Nýlistasafnið búa yfir ríkri arfleifð í sambandi við prent, fjölfeldi og bókverk. Það sem opnar fyrir þennan möguleika á samstarfi er líka viðmót Boekie Woekie sem skilgreinir sig ekki aðeins sem bókabúð heldur líka sem gallerí og ekki síst sem skóla. Þessi leikgleði í listinni er ríkjandi í sýningunni allri og er einmitt eitthvað sem hefur verið stór þáttur í námskeiðinu okkar,“ segir Sigurður Atli.
Sýning nemenda úr Myndlistaskólanum í Reykjavík stendur yfir í Nýlistasafninu til sunnudagsins 21. febrúar.