fbpx
Föstudagur 10.júlí 2020
Fókus

Hjörvar segir ekki neitt heillandi við það að drepa: „Ef ég fengi útrás fyrir því að drepa dýr þá myndi ég held ég bara vinna í sláturhúsi“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Mánudaginn 14. október 2019 20:00

Hjörvar Ingi Hauksson hefur stundað veiði frá barnsaldri.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Trophy-veiði“ er afar eldfimt umræðuefni í samfélaginu. Það eru ekki einungis dýraverndunarsinnar og grænkerar sem eru á móti því heldur virðist vera samróma álit í samfélaginu gegn trophy-veiði. Það vakti alþjóðlega athygli þegar bandaríski tannlæknirinn Walter Palmer drap ljónið Cecil árið 2015. Dýraverndunarsinnar, stjórnmálamenn og frægt fólk gagnrýndi Walter harðlega.

Trophy-veiði nýtur mikilla vinsælda þrátt fyrir að vera afar umdeild . Til að fá innsýn inn í hugarheim trophy-veiðimanns ræddi DV við Hjörvar Inga Hauksson.

Hjörvar Ingi hefur búið á Hornafirði allt sitt líf. Frá barnsaldri hefur hann veitt dýr og segir að veiði sé honum nánast í blóð borin. Hjörvar hefur tvisvar sinnum farið í veiðiferð til Afríku og skotið framandi dýr eins og gíraffa, antilópu og puntsvín.

Undirritaður blaðamaður viðurkennir að skilja ekki þetta „sport“, rétt eins og allar aðrar tegundir af veiði, og reyndi eftir fremsta megni að gæta hlutleysis.

Sveitasauður

Hjörvar Ingi lýsir sér sjálfum sem „sveitasauði sem þekkir ekkert annað. Ég er veiðimaður, vinn sem sjómaður, vélstjóri. Ég ólst upp við veiði og hef verið í þessu allt mitt líf.“

Frá fjögurra ára aldri fylgdist Hjörvar áhugasamur með pabba sínum verka gæsir og önnur dýr í bílskúrnum heima.

„Þetta hefur verið meira og minna nánast mitt eina áhugamál frá upphafi og pabbi fékk nú ekkert alltaf frið fyrir manni þegar maður var yngri. Ég var farinn að tuða um það að fá að koma með á veiði þegar ég gat mögulega tjáð mig um það,“ segir Hjörvar.

Meðan önnur börn gætu verið viðkvæm fyrir því að sjá dauð dýr var þetta hluti af uppeldi Hjörvars. Þegar hann var fimm ára fór hann í fyrsta skipti á veiði með pabba sínum, vopnaður dótariffli. Hann hélt hann hefði skotið sína fyrstu gæs, sem pabbi hans reyndar gerði. Hjörvar rifjar upp þessa hlýlegu æskuminningu og vísar í mynd sem hann á af sér frá þessum degi.

„Þetta er kannski svona skólabókardæmi um mynd sem er falleg. Það er ekki verið að veiða óhóflega, ein gæs og það sést alveg  hve hamingjan er yfir ljómandi á þessari mynd. Ég held það hafi verið alveg hundaheppni að þessi mynd hafi verið tekin, það er ekki sjálfsagt að menn eigi myndir af sér á svona augnablikum,“ segir Hjörvar.

Hjörvar Ingi þegar hann var fimm ára og hélt hann hefði skotið sína fyrstu gæs.

Ég valdi þetta áhugamál í raun og veru ekki, það var það sem valdi mig.“

Átján dýr

Hjörvar hefur farið tvisvar sinnum til Afríku í veiðiferð og fór hann upphaflega frekar óvænt. Vinur hans var að safna saman í hópferð og ákvað hann að skella sér með. Hjörvar og félagar fóru til Afríku stuttu fyrir verslunarmannahelgi 2018 í fimm daga veiðiferð. Þeir fóru svo aftur um miðjan ágúst í ár í tíu daga veiðiferð. Samtals hefur Hjörvar drepið átján dýr í Afríku.

„Þú borgar fyrir hvert veitt dýr og borgar náttúrlega fyrir uppihald og annað þarna úti. Svo borgarðu uppstoppun á því sem þú vilt uppstoppa, en þú ræður því alveg,“ segir Hjörvar og bætir við að hann eigi von á fimm hausum af dýrum sem hann veiddi í fyrra og seinna í ár muni hann fá þrettán hausa af dýrum sem hann veiddi í ár.

„Trophy-veiði getur verið dýr en það er líka möguleiki að komast nokkuð ódýrt frá henni. Ferð eins og þessi í ár kostar á fimmtu milljón og þá á eftir að borga fyrir uppstoppun. Peningarnir fara meðal annars í að vernda dýr sem eru í útrýmingarhættu,“ segir Hjörvar.

Hjörvar Ingi ásamt Daniel og Nicole, eigendum Sunguti Safaris. Hann lítur á þau sem vinafólk sitt í dag.

Veiða ekki drepa

„Fyrir mér er þetta bara veiði í raun og veru. Þetta snýst ekkert endilega um það að drepa, þannig séð. Það er bara einhvern veginn þannig að almúginn sér þetta svoleiðis. Eins og þú kannski heyrir þegar ég tala þá tala ég um að veiða en ekki drepa. Það er hvert veitt dýr en ekki drepið,“ segir Hjörvar.

En þú ert ekki að veiða þér til matar?

„Ekki þarna í raun og veru. En það er allt matreitt af því sem við erum að veiða. Svo er gefið af þessu líka. Það er gefinn matur á herstöð, hæli og eitthvað er selt. Í landi eins og Afríku þá held ég það sé fremur ólíklegt að menn fari að spilla mat. Þeir nýta allt. Þeir nýta matinn betur þarna heldur en við gerum á Íslandi.“

Hjörvar Ingi og gíraffinn sem hann drap í ár.

Ekki blóð á myndum

Innan trophy-veiðinnar er myndin mjög mikilvæg, út á það gengur eiginlega „leikurinn“. En myndin má ekki vera hvernig sem er. Það eru óskráðar, en mikilvægar, reglur sem þarf að fylgja sem Hjörvar segist snúast um „virðingu“.

„Fólk horfir á trophy-veiði eins og dýrið sé skotið og það sé tekin mynd og svo sé restinni hent. En það er ekki svoleiðis. Það er eins langt frá því og hægt er. Ef þú skoðar trophy-myndir þá eru þær yfirleitt ekki sóðalegar. Oftast sést ekki í blóð á þessum myndum. Dýrin eru hreinsuð, blóð úr andliti, skotsárum og öðru fjarlægt. Svo eru teknar myndir,“ segir Hjörvar.

„Leiðsögumennirnir eru mjög fljótir að stoppa þig af ef þú hefur einhverja hugmynd um að taka mynd af þér með dýrunum á einhvern óviðeigandi hátt. Þá benda þeir þér á að þetta sé vanvirðing og ef þú vilt taka svona mynd, þá sé það svo sem allt í lagi, en þeir leggja það til við þig að þú birtir þessar myndir ekki,“ segir Hjörvar.

Margir myndu líta svo á að með því að drepa dýrið þá sértu að vanvirða það en þú lítur svo á að meðan það er hreinsað og stillt upp þá sé það virt, er þar línan dregin?

„Já, í raun og veru. Línan er eiginlega dregin þar. Þetta er hreinsað og gert eins snyrtilegt og hægt er. Myndin verður falleg. Þessu er ekki stillt upp eins og líki,“ svarar Hjörvar.

„Íslendingar þekkja þetta ekki. Yfirleitt eru trophy-myndir hjá Íslendingum sóðalegri en þekkist úti og það er það sem kemur óorði á þetta, ef þetta er haft sóðalegt. Við tökum með okkur vatn á veiðistaðinn og erum með bursta með okkur.“

Það virðist vera einróma álit innan samfélagsins að trophy-veiði sé almennt „siðferðislega röng“. Hvernig svarar þú því?

„Ef ég ætti að svara fyrir þetta þá myndi ég fyrst koma inn á það að það er ekki verið að drepa ungdýr, eða veiða. Það eru felld gömul dýr. Ég til dæmis skaut antilópu í sumar sem þurfti að fella. Ef ég hefði ekki gert það þá hefði bóndinn sjálfur þurft að fella hana og það hefði verið mínus fyrir hann upp á 600 þúsund krónur. Hún var felld á þeim grundvelli að hún var búin að drepa hjá bóndanum þrjá unga tarfa. Hún var komin á þann aldur að hún var geðill og það var ekki hægt að hafa hana inni á svæðunum lengur því hún var farin að drepa yngri tarfana. Hún hættir þessu ekki þegar hún er byrjuð, hún var bara að vernda sitt svæði. Fyrir mér finnst mér mikið skynsamlegra að bóndinn eigi þrjá unga tarfa sem geta verið lifandi í 17 ár frekar en ég myndi sleppa því að fella þennan sem var 14 ára og átti þrjú ár eftir.“

Eru öll dýr sem þú hefur drepið í svoleiðis aðstæðum?

„Ekki öll í þeim aðstæðum að það þurfi að drepa þau. Það er ekki verið að skjóta kálfa eða ungdýr nema þess virkilega þurfi.“

Hjörvar Ingi ásamt puntsvíni sem hann skaut.

Fallegt útlit mikilvægt

Ástæðan fyrir því að ungdýr eru sjaldan skotin er þó ekki dýranna vegna, að sögn Hjörvars. Heldur snýst þetta um útlit þeirra. Hann segir að því eldri sem dýrin eru, því „fallegri“ eru þau og því „flottari“ verður myndin.

„Það er fyrst og fremst verið að skjóta dýrin fyrir myndatökuna og eins fyrir menn að eiga minningar, flytja heim uppstoppuð dýr. Þá er þetta alltaf gert svona. Því eldra sem dýrið er því fallegra er það. Maður sér að það hefur lifað.“

Hjörvar skaut svartan gný (e. wildebeest).

Viðbrögð

Hjörvar deilir trophy-myndum sínum á Facebook og Instagram. Aðspurður hvers konar viðbrögð hann fær segir hann þau mestmegnis vera jákvæð, enda eru það vinir hans og kunningjar sem fylgja honum á samfélagsmiðlum.

„Mér þykir mjög ólíklegt að grænkerar hafi einhvern áhuga á því að vingast við mig þannig að yfirleitt er þetta fólk sem þekkir mann og umgengst mann mikið. Vissulega hef ég fengið neikvæð viðbrögð og maður hefur fengið neikvæð skilaboð á Instagram og manni hefur verið eytt út af Facebook og eitthvað svoleiðis. En í raun er það ekkert sem skiptir mig máli,“ segir Hjörvar.

„Yfirleitt er þetta þá fólk sem maður átti enga samleið með hvort eð er. Þannig að þú ert ekki að tapa neinu á þvi í sjálfu sér. Þegar ég fæ skilaboð þá hef ég oft útskýrt þetta fyrir fólki. Meðal annars fékk ég ein skilaboð í fyrra og útskýrði mitt mál og fékk þá til baka, ókei allt í lagi að skjóta dýr, en af hverju alltaf að taka mynd af þér með því?“

Og hverju svararðu?

„Já, þetta er í raun og veru hluti af þessu. Ég hugsa að ef þú kæmir þarna út og færir að veiða og vildir ekki láta taka mynd af þér með dýrunum þá veit ég ekki hvernig leiðsögumennirnir myndu taka því. Þeir gera ráð fyrir því að þú takir mynd af þér með dýrinu.“

Hjörvar Ingi og kúdúantilópa sem hann skaut.

Af hverju?

Nú verð ég að fá að spyrja þig, af hverju? Hvað færð þú út úr þessu?

„Ég fæ útivist út úr þessu. Þetta er góð útivist, að komast út í náttúruna og þú færð líka góðan félagsskap út úr þessu. Ég hef verið nokkuð lukkulegur með félagana sem hafa komið með mér hér að heiman og svo hefur einn Finni verið að veiða með okkur. Eins með leiðsögumennina úti, þetta er bara fólk sem maður kann vel við. Það er ekki bara veiðin. Við vöknum saman á morgnana, borðum saman morgunmat og hádegismat. Á kvöldin sitja menn saman og segja veiðisögur, bæði sannar og lognar. Bestu veiðiferðirnar eru ekki endilega þær þar sem það er skotið mesta magnið.“

En nú myndu sumir segja að þú getur fengið útivist og félagsskap með því að ganga upp Esjuna í góðra vina hópi. Það hlýtur að vera eitthvað við það að drepa dýrið sem heillar þig?

„Í raun og veru myndi ég aldrei nokkurn tímann segja að það væri neitt við það að drepa dýrið sem væri heillandi. Það er í raun og veru kannski frekar það að veiða það. Ef ég fengi útrás fyrir því að drepa dýr þá myndi ég held ég bara vinna í sláturhúsi. En það er kannski allt hitt. Veiði getur verið sýnd en ekki gefin. Eins og maður þekkir hér á landi þá geturðu eytt heilum degi í að veiða eitt dýr. Þú þarft kannski að ganga 20 km og læðast þrjá af þeim. Eða þarft að velja þér leiðir og annað eftir umhverfinu. Það er kannski allt þetta sem heillar mest. Ekki athöfnin sjálf þegar dýrið er fellt. Það er kannski síðasti handleggurinn, jú þá kannski veistu að þú ert búinn að ná markmiðinu.“

Finnst þér erfitt að sjá dýrið kveljast ef þú nærð ekki að drepa það með fyrsta skoti? Finnirðu einhverjar tilfinningar þegar það gerist?

„Jájá, það er ekkert skemmtilegt við það. Þú færð enga útrás við það að lenda í vandræðum með því að aflífa dýr. Það var eitt dýr af öllum þessum átján sem féll ekki innan nokkurra sekúndna. Við lentum aðeins í eltingaleik við það, en það er ekki sú veiði sem er skemmtilegust. Það er eiginlega bara hundleiðinlegt að elta sært dýr. Ef það er hægt að komast hjá því þá gerir maður það. Þú færð mest út úr því ef dýrið fellur samstundis og þú veist að það þurfti ekki að þjást,“ segir Hjörvar.

„Manni finnst líka gott að hugsa til þess þegar maður er að borða kvöldmatinn þarna úti að þú ert að borða dýr sem var frjálst. Þetta eru ekki dýr sem hafa þurft að alast upp í húsum og annað. Þau hafa fengið að njóta sín frá upphafi. Dýrin í Afríku fá að lifa frjáls þar til undir síðustu árin og þá eru þetta örlögin.“

Lokað er fyrir athugasemdir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Katrín svarar Kára

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 4 dögum

Illverk vekja áhuga fólks – „Jeffrey Dahmer er uppáhalds morðinginn minn“

Illverk vekja áhuga fólks – „Jeffrey Dahmer er uppáhalds morðinginn minn“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Sorgmæddur köttur tekur Internetið með trompi

Sorgmæddur köttur tekur Internetið með trompi
Fókus
Fyrir 4 dögum

Vikan á Instagram : „Hvað er skemmtilegra en að djamma með öllum sem þú dýrkar?“

Vikan á Instagram : „Hvað er skemmtilegra en að djamma með öllum sem þú dýrkar?“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Hinar raunverulegu húsfreyjur Íslands

Hinar raunverulegu húsfreyjur Íslands
Fókus
Fyrir 5 dögum

Valgeir bjargaði lífi föður síns en tókst ekki að bjarga bróður sínum

Valgeir bjargaði lífi föður síns en tókst ekki að bjarga bróður sínum
Fókus
Fyrir 1 viku

Drepfyndinn hrekkur fer eins og eldur um sinu á samfélagsmiðlum

Drepfyndinn hrekkur fer eins og eldur um sinu á samfélagsmiðlum
Fókus
Fyrir 1 viku

Svafar var 17 ára sannfærður um að samfélaginu væri að öllu leyti sama um sig

Svafar var 17 ára sannfærður um að samfélaginu væri að öllu leyti sama um sig
Fókus
Fyrir 1 viku

Stjörnuparið setur „snubbuíbúð“ á sölu – Fallegt útsýni yfir miðbæ Reykjavíkur

Stjörnuparið setur „snubbuíbúð“ á sölu – Fallegt útsýni yfir miðbæ Reykjavíkur
Fókus
Fyrir 1 viku

Ósammála um kynningarmyndband KSÍ – „Hjartað í mér sökk“- „Landsliðið í hneysklun“

Ósammála um kynningarmyndband KSÍ – „Hjartað í mér sökk“- „Landsliðið í hneysklun“