Talaði um mikilvægi þess að vera maður sjálfur og gefast ekki upp – „Ekki vera í símanum í bíó, borgaðu í stöðumæli og vertu góður við aðra“
„Ég hef aldrei drukkið. Aldrei dottið í það. Ekki það að það sé áfengisvandamál einhvers staðar í kringum mig – ég byrjaði bara aldrei á þessu. Ég hef smakkað – og þótti þetta allt saman vont á bragðið. Og fyrir mér var þetta mjög einfalt: Hvers vegna í ósköpunum ætti ég að vera að drekka eitthvað sem mér þykir vont á bragðið ef ég þarf þess ekki?,“ sagði Ævar Þór Benediktsson leikari í ræðu sem hann hélt fyrir fermingarbörn á vegum Siðmenntar í lok apríl síðastliðnum. Ævar Þór, betur þekktur sem Ævar Vísindamaður, miðlaði af eigin reynslu til ungmennanna og gaf þeim fjölmörg góð og gild ráð út í lífið. Meðal annars kom Ævar inn á mikilvægi þess að vera ávallt maður sjálfur.
Líkt og fram kom í ræðu Ævars Þórs er mikilvægt að standa með sjálfum sér og þá ekki síst á unglingsárunum þegar einstaklingar verða gjarnan fyrir hópþrýstingi frá jafnöldrunum, til dæmis varðandi drykkju. „Vinir mínir drekka langflestir og það er í góðu lagi. Þetta þýðir ekki að ég sitji einn heima og sé aldrei boðið í partý, alls ekki. Jújú, ég verð þreyttari fyrr en þá fæ ég mér bara kaffi og er góður langt fram á nótt. Það sem ég er að reyna að segja að þetta er val. Ekki byrja að drekka vegna þess að einhver er að neyða þig til þess. Vertu þú sjálfur! Ef vinur þinn eða vinkona nennir ekki að hanga lengur með þér því hann drekkur en ekki þú – þá er þetta ekki alvöru vinur þinn. Punktur.“
Ævar Þór sagði fermingarbörnunum meðal annars frá æskudraumnum sínum, sem varð að verða leikari, og hvernig hann hélt ávallt í þann draum þrátt fyrir hindranir.
„Þegar ég var 5 ára gamall gerði ég mér grein fyrir því að það væri maður sem ynni við það talsetja Strumpana. Hann hét Laddi og fengi pening fyrir það að breyta á sér röddinni og tala inn á teiknimyndir. “Þetta er það sem ég vil gera,” ákvað ég. Þremur árum seinna sá ég söngleikjabíómyndina Litlu hryllingsbúðina. Önnur ljósapera kviknaði yfir höfðinu á mér: Þetta var líka vinna. Að syngja og leika. Og oft var það sama fólk sem gerði það og talaði inn á teiknimyndirnar. Hvað hét þessi stórkostlega starfsgrein eiginlega? Leikari.
Maður þarf samt að hafa klárað framhaldsskóla til að geta orðið leikari þannig að ég hélt í þennan draum í mörg ár. Þegar ég svo loksins var orðinn nógu gamall til að fara í inntökupróf í Listaháskóla Íslands undirbjó ég mig brjálæðislega vel. Það eru þrjú þrep í inntökuprófunum. Ég flaug í gegnum það fyrsta. Í gegnum næsta. Og svo – komst ég ekki inn. Og ég ætla ekki að ljúga að ykkur; ég var 21 árs gamall og grenjaði í heila viku. Án djóks. Sat við tölvuna mína, horfði á þætti og grenjaði ofan í Subwayinn minn. En – ég gafst ekki upp. Og það er önnur lexía sem er svakalega mikilvæg. Því það mun gerast: Maður mun fá nei, það tekst ekki allt í fyrstu tilraun.
En í stað þess að skella í lás og hætta við allt saman varð ég helmingi ákveðnari. Næst ætlaði ég að komast inn! Ég undirbjó mig helmingi betur, ég lærði af reynslunni, fór aftur í prufurnar ári seinna – og flaug inn.“
Þá sagði Ævar Þór frá því hvernig karakterinn Ævar vísindamaður varð til en það var eftir að Ævar Þór gekk til liðs við barnaþáttinn Leynifélagið á RÚV. Í kjölfarið fylgdu fleiri tækifæri. Aftur kom Ævar inn á mikilvægi þess að vera maður sjálfur. „Og svo komu þættir, bækur, lestrarátök og þessi ræða. Og ég get lofað ykkur því, að Ævar vísindamaður myndi aldrei virka, aldrei, ef ég væri ekki ég sjálfur.“
Ævar Þór benti á að „eins hallærislega og það hljómi“ þá sakar ekki að leita ráða hjá foreldrum sínum. „Á einum tímapunkti í menntaskóla átti ég í hrikalegum stelpuvandræðum – en ekki hvað? Ég ákvað, eftir að hafa fengið kjánahroll í heilan dag, að hringja í pabba. Og það sem hann sagði hjálpaði. Foreldrar manns, þótt þau skilji ekki enn nákvæmlega hvað Snapcaht er, vita margt,“ sagði hann um leið og hann útskýrði forritið vinsæla fyrir fávísum foreldrum.
Í lok gaf Ævar Þór fermingarbörnunum nokkur handahófskennd ráð fyrir framtíðina en óhætt er að segja að viskumolar Ævars geti nýst hverjum sem er í daglegu lífi. Til dæmis það að sleppa því að tala í símann í bíó og vera ávallt kurteis við þjónustufólk. Þá ráðlagði Ævar ungmennunum að vera góð við aðra. „Þótt þeir fari í taugarnar á þér. Sérstaklega ef þeir fara í taugarnar á þér. Vertu meganæs. Ofurnæs. – Það fer miklu meira í taugarnar á þeim.“
Einnig ráðlagði hann ungmennunum að borga ávallt í stöðumæli og láta pirring ekki bitna á stöðumælavörðum sem séu einungis að vinna sína vinnu. Þá ráðlagði hann þeim að velja sér framtíðarstarf sem þau hefðu gaman af, enda kæmust þau ekki hjá því að vinna meirihluta vikunnar.
Þá benti hann á að það er allt í lagi að spyrja ef maður veit ekki eitthvað, og sömuleiðis ferst heimurinn ekki þó að einhver geri mistök. „Þú ert ekki vitlaus þótt þú vitir ekki svarið við einhverju. Það veit enginn allt – en allir vita eitthvað. – Nema Google. Google veit allt.“
Þá sagði Ævar Þór að það væri ekki skömm að því að vera nörd, heldur þvert á móti væri það virðingarvert. Þess vegna eigi að líta á það sem hrós að vera kallaður nörd.
„Allir, allir sem þið dýrkið og dáið eru nördar. Að vera nörd þýðir ekki að vera stanslaust í tölvunni – að vera nörd þýðir að vera ógeðslega góður í einhverju. Sumir eru góðir í að leika, þau eru leiklistarnördar, aðrir eru brjálæðislega góðir söngvarar – vegna þess að þau voru með söng og tónlist á heilanum. Þau er tónlistarnördar. Rithöfundar, íþróttafólk, dansarar, sjónvarpsfólk – nördar á sínu sviði. Annað orð er sérfræðingur – en það er lengra og leiðinlegra. Nörd er miklu meira töff.“