

Uppáhaldsmorgunmatur Díönu prinsessu nýtur nú síaukinna vinsælda, næstum þrjátíu árum eftir dauða hennar. Um er að ræða útfærslu á svokölluðum „overnight“ hafragraut.
Eins og kemur fram í umfjöllun miðilsins The Takeout þá dvaldi Díana prinsessa á heilsuhæli í Sviss í byrjun tíunda áratugarins. Þegar hún sneri aftur heim í höllu drottningar hafði hún með sér uppskrift frá hælinu sem hún bað hinn konunglega kokk, Darren McGrady, að búa til á hverjum morgni.
Í Sviss kallast rétturinn Bircher muesli, eftir næringarfræðingnum Maxmilian Oskar Bircher-Benner, og er gróflega það sem við þekkjum í dag sem „overnight“ hafragrautur. En ekki eins og flestir þekkja grautinn í dag, það er að láta hafrana í mjólk eða einhvers konar mjólkurvöru yfir nótt.

Nei, Díana vildi láta hafrana marinerast í appelsínusafa yfir nótt. McGrady bar þetta fram með grískri jógúrt, hunangi, sítrónusafa, rifnu „Honeycrisp“ epli, ferskum bláberjum og valhnetum. Úr varð trefjaríkur og sætur morgunverður sem var næringarríkur, ferskur og mettandi.
Bircher-Benner bjó til réttinn snemma á síðustu öld en hafði frekar hugsað hann sem forrétt heldur en sem morgunverð. Engu að síður er rétturinn orðinn staðlaður morgunverður á svissneskum heilsuhælum, sem eru talin þau bestu í heimi.