

Ung kona er í rusli eftir að hafa fengið algjörlega óviðeigandi jólagjöf frá tengdaforeldrum sínum. Gjöfin átti að vera fyndin en unga konan móðgaðist svo mikið að jólin voru ónýt.
„Er ég að bregðast of hart við? Þetta var jólagjöfin frá foreldrum kærasta míns,“ segir konan í færslu á samfélagsmiðlum, sem breska blaðið The Mirror fjallar um.
Um var að ræða svartan bol með mynd af konu sitja á eimreið. Á bolnum var áletrunin: „I´m not always a train wreck. Just kidding. Toot toot.“ Sem myndi lauslega þýðast sem: „Ég er ekki alltaf lestarslys. Bara að grínast. Tjú tjú.“

Konan segir að ef hún hefði fengið þennan bol frá vinum sínum og þetta hefði verið einhver brandari þeirra á milli þá hefði henni fundist þetta sniðugt. En þetta kom frá foreldrum kærasta hennar, verðandi tengdaforeldrum.
Segist hún ekki skilja hvers vegna þau hafi gert þetta. Hún sé ekki í neinu rugli í lífi sínu og hafi aldrei verið. Þessi óskiljanlega gjöf túlki hún sem nokkurs konar árás á sig.
„Ég hef verið í sambandi með kærasta mínum í sjö ár og við eigum heimili saman. Foreldrar hans gáfu mér þennan bol í jólagjöf og þetta gerði mig leiða,“ segir hún. „Þau sögðust halda að mér myndi finnast þetta vera fyndið en svo er alla ekki. Ég lít ekki á mig sem lestarslys á neinn hátt. Ég er nýútskrifuð úr háskóla, ég er í fullri vinnu og ég á heimili. Er ég að bregðast of hart við?“
Hefur færsla konunnar fengið töluverð viðbrögð. Segist fólk skilja biturð hennar vegna þessarar gjafar.
„Mér myndi finnast þetta fyndið komandi frá sumu fólki en ekki öðru. Þú ein þekkir þau nógu vel til að meta það,“ segir einn netverji.