Það fór örugglega ekki framhjá mörgum þegar upptaka úr „kossamyndavél“ hljómsveitarinnar Coldplay kom upp um meint ástarsamband Andy Byron, þáverandi forstjóra tölvufyrirtækisins Astronome, og Kristin Cabot, mannauðsstjóra fyrirtækisins. Myndband af atvikinu fór eins og eldur í sinu um netheima og vakti málið gríðarlega athygli og fljótlega sagði Andy af sér og Kristin sagði starfi sínu lausu. Á sviðstundu voru bæði Andy og Kristin orðin heimsfræg og umtöluð. Hvorugt þeirra hefur tjáð sig um málið til þessa en nú hefur heimildarmaður sem mun vera náinn Kristin stigið fram undir nafnleynd í samtali við People til að leiðrétta umræðuna og koma Kristin til varna.
Heimildarmaðurinn segir málið byggja á misskilningi og að ekki hafi verið um framhjáhald að ræða. Kristin og eiginmaður hennar höfðu fyrir tónleikana ákveðið að skilja og eins hafi Kristin ekki verið að slá sér upp með Andy þó að þau hafi látið vel hvort að öðru á téðum tónleikum.
Sjá einnig: Eiginmaðurinn í Coldplay-skandalnum rýfur þögnina
„Kristin og Andy áttu í fyrirmyndar samstarfi og eru góðir vinir. Það var ekkert framhjáhald. Það er óviðeigandi að faðma yfirmann sinn á tónleikum og hún tekur fulla ábyrgð á því, en þessi skandall, eftirmálarnir og að missa vinnuna – þetta er allt ósanngjarnt.“
Heimildarmaðurinn segir sérstaklega ósanngjarnt að Kristin sé málið sem einhvers konar hjónabandsdjöfull og eins sé ógeðfellt að verða vitni að þórðargleðinni á samfélagsmiðlum. Hér sé um raunverulegt fólk að ræða sem á fjölskyldur.
Heimildarmaðurinn tekur fram að Kristin og Andy hafi farið á tónleikana með hópi vina. Vissulega hafi faðmlagið verið óviðeigandi en það réttlæti þó ekki að Kristin geti varla farið út úr húsi í dag án þess að verða fyrir athlægi eða ágangi fjölmiðla og ljósmyndara.
„Fyrstu þrjá dagana eftir að fréttirnar birtust fékk hún um 900 líflátshótanir í símann sinn,“ sagði heimildarmaðurinn sem fordæmir að Kristin hafi verið tekin af lífi af dómstóli götunnar án þess að hafa nokkuð unnið sér til saka.