Nadine segist alltaf hafa vitað að Snorri myndi enda í pólitík. „Það fór aldrei á milli mála. Allavega fyrir mér, ég er ekki viss um að hann hafi vitað það sjálfur,“ segir hún.
Aðspurð hvaða áhrif þingstarf Snorra hefur haft á þeirra daglega líf segir Nadine: „Það var alveg smá skrítið að verða allt í einu eiginkona þingmanns og allir mega allt í einu segja allt sem þeir vilja um hann og okkur, en það venst mjög hratt og við vissum alveg að þetta yrði svona og ræddum þetta að sjálfsögðu vel áður en hann fór í pólitíkina. Við vorum þó alltaf sammála um að þetta væri rétta skrefið. Það má reyndar alveg segja að ég hafi ýtt honum aðeins út í þetta, hvatt hann til dáða.“
Nadine segir að Snorri hafi viljað bíða með þetta en hún hafi sagt: „Það á aldrei að bíða. Þetta er tíminn.“
Þegar kemur að skoðunum Snorra, sem eru margar hverjar umdeildar, segir Nadine hana og eiginmanninn deila sömu grunngildum.
„Maður er nú aldrei sammála neinum í einu og öllu en við Snorri deilum grunngildum í lífinu og erum á svipuðum slóðum í okkar pælingum. Auðvitað er hann beinskeyttur og hefur sannarlega alla tíð verið mun pólitískari en ég. Stjórnmálastarfinu hefur fylgt nokkur opinber umræða um hann og hans viðhorf, þótt þau komi mér auðvitað ekkert í opna skjöldu, búandi með honum. Það sem mér hefur fundist áhugavert þegar fólk forvitnast um „hvað mér finnst“ um það sem Snorri er að segja, er að sú umræða snýst yfirleitt ekki um það sem hann er efnislega að segja. Þegar maður spyr fólk nánar út í það, snýst sú umræða miklu meira um einhverja mynd sem hans hörðustu andstæðingar hafa reynt að teikna upp af honum. Sú mynd er stundum bara þannig að maður fer hreinlega að hlæja, svo fjarstæðukenndar eru sumar kenningarnar um til dæmis andúð og hatur, þar sem ég tel reyndar að margir aðrir ættu að líta sér nær.“
Nadine segir að það sé misskilningur að hennar mati að Snorri sé almennt umdeildur. Hún segir að fólk sem gefur sig á tal við þau þegar þau eru úti í bæ sé allt svo ánægt með hann.
„Ég sjálf dáist fyrst og fremst að einlægum metnaði hans fyrir íslensku samfélagi. Ég deili þessum metnaði með manninum mínum og eitthvað segir mér að við séum bara rétt að byrja í þessu.“
Viðtalið má nálgast í nýjasta tölublaði Vikunnar.