Leikstjórinn Cameron Crowe greindi frá því í viðtali við New York Times um helgina hvernig goðsagnakennt atriði rómantísku gamanmyndarinnar Say Anything frá árinu 1989 varð að veruleika. Atriði sem margir segja eitt af mörgu sem einkenni 80´s tímabilið eða níunda áratuginn í hugum fólks.
Crowe segir að aðalleikarinn John Cusack hafi ekki viljað taka upp atriðið þar sem Lloyd (sem Cusack lék) leikur lagið In Your Eyes eftir Peter Gabriel úr ferðagræjum fyrir utan glugga Diane (Ione Skye) til að vinna hana aftur.
„Honum fannst þetta vera undirgefin athöfn: Af hverju þarf Lloyd að vera svona vesalingur? Við áttum í erfiðleikum með að fá þessa senu til að verða að veruleika.“
Myndin var frumraun Crowe í leikstjórastólnum og hann útskýrði að kvikmyndatökumaðurinn Laszlo Kovacs „vissi að við hefðum verið að ströggla við töku á senunni“, svo þeir blekktu Cusack til að halda að hann hefði tekið upp aðra senu.
„Við höfðum í raun tekið upp senuna þar sem Cusack var með tækið á húddi bílsins og hann var að segja: „Það er svona frekar það sem ég myndi gera,“ sagði Crowe. „László hallaði sér að mér og hvíslaði í eyrað á mér: „Ekki hafa áhyggjur, það er engin filma í myndavélinni.“
Á síðasta tökudegi, þegar við vorum að missa dagsbirtuna, sagði hann: „Ég fann stað hinum megin við götuna sem væri góður og bíllinn er lagður þar. Við skulum koma honum yfir götuna og sjá hvort við náum skotinu,“ hélt Crowe áfram. „Svo við hlupum yfir götuna. [John] sagði: „Allt í lagi, ég geri það.““
Samkvæmt Crowe hélt Cusack upp tækinu og var „frekar pirraður yfir því að þurfa að gera þetta einu sinni enn.“
„Og þú vissir það þegar þú horfðir á það á skjánum: Þetta var hin fullkomna tilfinning fyrir senuna,“ bætti Crowe við.
Í Say Anything leikur Cusack framhaldsskólanema, Lloyd, sem verður ástfanginn af samnemanda sínum Diane, þegar þau útskrifast úr menntaskóla (e. High school). Meðan Lloyd er meðaljón í skólanum og hefur ekki hugmynd um hvað hann ætlar að gera í framtíðinni, er Diane framúrskarandi nemandi, sem fengið hefur skólastyrk til náms í Englandi.
Á sýningu myndarinnar í Dallas árið 2023 viðurkenndi Cusack að hann vildi ekki gera atriðið eins og það varð að lokum.
„Mér fannst það of klisjukennt og það var spennan við að gera myndina. Mér líkaði vel við persónuna Lloyd, en mér fannst hann vera aðeins of linur. Hann var eins og lag eftir Paul McCartney án John Lennon. Ég hugsaði bara: „Komdu nú, hann getur ekki verið svona mikill kjáni,“ hélt Cusack áfram. „Svo við fórum fram og til baka með þetta atriði og að lokum sagði ég bara: „Setjum bara græjurnar á húddið eða eitthvað.“ Og svo sagði Cameron: „Viltu bara gera þetta einu sinni?“ Og ég sagði: „Allt í lagi, ég geri þetta einu sinni.“ Og svo hélt ég tækinu upp einu sinni og það er í eina skiptið sem við höfum gert það.“
Í viðtali Crowe við New York Times sagði hann Cusack hafa á margan hátt þroskast við tökurnar á myndinni.
„Hann vildi draga úr Cusack-andanum sínum þegar ég hitti hann,“ sagði Crowe. „Hann sagði bara: „Ég get ekki gert aðra unglingamynd.“ Ég sagði bara: „Þetta er í raun ekki unglingamynd, ég sver.“