Keramiklistakonan Kolbrún Björgólfsdóttir, eða Kogga, giftist ástinni í lífi sínu, Magnúsi Kjartanssyni á dánarbeði hans fyrir 19 árum. Magnús náði að játast henni en lést áður en hann náði að setja hringinn á fingur konu sinnar.
Kogga er gestur Sigurlaugar Margrétar Jónasdóttur í þættinum Segðu mér á Rás 1 þar sem hún sagði frá leirnum, baráttunni fyrir því að standsetja stúdíó og gallerí á Vesturgötu, eiginmanninum sem hún elskaði og reiðinni sem hún sækir enn til að lifa með sviplegu fráfalli hans.
Magnús greindist með bráðahvítblæði sem var mikið reiðarslag. Hann lést árið 2006 og ber Kogga giftingarhringa þeirra um hálsinn síðan. Í keðju hangir líka lítið skrín sem inniheldur lítil skilaboð sem fóru á milli hjónanna á meðan hann lifði og örlítill hárlokkur úr honum. Á meðan hann lifði voru þau þó ekki gift og báru ekki hringa.
„Hann vildi ekki giftast. Fyrir okkur var sambúðin og ástin fyrir okkur og það þurfti enginn að samþykkja það. Svo við giftum okkur ekki.“
Magnús var þremur árum eldri, en þau kynntust þegar þau voru saman í bekk í myndlistarskólanum. Ljóst hár Magnúsar var það sem heillaði Koggu strax og hún vissi fljótt að þetta væri maðurinn sem hún vildi verja ævinni með. Hjónin unnu töluvert saman og eftir þau sitja hin ýmsu verk þar sem myndlistinni og leirlistinni er blandað saman. Heima hjá Koggu er töluvert af myndlist eftir Magnús sem fáir sjá enda er ekki gestkvæmt hjá henni. „Ég á mikið af yndislega fallegum verkum eftir hann, það er eiginlega synd að það sjái þau enginn nema ég.“
Síðasta daginn sem Magnús lifði kom Kogga í heimsókn á spítalann og á móti henni tók Séra Örn Bárður Jónsson. Hann vísaði henni að litlu hvítdúkuðu borði sem á var silfurbikar, biblía, box með hringum og miði sem á stóð að nú ætti að fara fram giftingarathöfn.
Koggu var brugðið enda átti hún ekki von á þessu, en svaraði hiklaust já þegar hún var spurð hvort hún tæki Magnús sem eiginmann.
„Mér tókst að setja hring Magnúsar á fingur hans en hann náði því ekki. Hann náði að segja já, svo var hann farinn.“
Það er ástæðan fyrir því að hún ber hringana um hálsinn en ekki á fingri.
„Fyrst hann gat ekki sett hann á mig þá verður hann ekki þar.“
Hlusta má á viðtalið í heild sinni hér.