Fyrrverandi bryti (e. butler) Buckingham-hallar, Grant Harrold, afhjúpar í nýútkominni bók sinni, The Royal Butler, fjögurra orða álit Filippusar prins um hjónaband Harrys prins og Meghan Markle, og af hverju Karl konungur mun aldrei aftur treysta Harry og áætlun Vilhjálms um að nútímavæða konungsfjölskylduna.
„Konungurinn treystir ekki Harry vegna þess sem Harry hefur sagt. Hann óttaðist að hann myndi nota það sér í hag. Og það hefur hann gert,“ sagði Harrold við Page Six. „Hann hefur gert það sem heimilisfólk gerir venjulega og sagt frá öllu. Það er stórmál fyrir fjölskylduna að einn af fjölskyldunni geri þetta. Þau voru öll svo náin og að sjá það samband algjörlega eyðilagt, ég sé þau ekki geta lagað sambandið.“
Harry er staddur í Bretlandi í þessari viku, þar sem orðrómur er um að hann eigi áheyrn hjá konunginum föður sínum, en Harrold varar við því að hlaðvarps-, bóka- og sjónvarpssamningar hans og Markle útiloki að þau komi aftur inn í konungsfjölskylduna.
„Ef þau sættast og síðan kemur upp nýtt ósætti hvað er það sem stoppar að komi ekki önnur bók, Netflix-þáttaröð eða viðtal um nýja ósættið?“ spurði Harrold.
Harrold, sem var bryti Karls konungs á árunum 2004 til 2011 (þegar Karl var prinsinn af Wales), sagði að Vilhjálmur og Harry hefðu enn verið ótrúlega nánir meðan hann gegndi þjónustu sinni.
„Þeir tveir voru ekki bara bestu vinir, þeir voru óaðskiljanlegir. Í Highgrove [einkaheimili Karls] voru þeir alltaf saman. Þeir fóru í göngutúra saman, saman á krána, saman á mótorhjól. Mjög sjaldan gerðu þeir hluti í sitthvoru lagi.“
Í bókinni, sem kemur út 23. september, skrifar Harrold um hvernig allt breyttist eftir að Harry hitti Markle í júlí 2016.
„Um leið og Meghan kom inn í líf hans breyttist allt. Það gæti verið að Harry hafi upplifað sjálfan sig og skyndilega ákveðið að honum líkaði ekki við skipulagið, en vandamálið er að Meghan var með honum þegar það gerðist. Stærsta breytingin í lífi Harrys er Meghan.“
Harrold telur þó einnig að „eitthvað stærra hafi gerst“ á milli bræðranna.
„Ég varð virkilega hissa þegar þeir rifust. Það hlýtur að vera eitthvað dýpra í gangi sem okkur er ekki sagt frá.“
Meðal ýmissa ávíta á bróður sinn í endurminningum sínum Spare sakaði Harry William um að hafa ráðist á hann líkamlega og slegið hann í gólfið og brotið hundaskál árið 2019. Hann kallar hann einnig „ástkæran bróður sinn og erkióvin“ í bókinni.
Bræðurnir voru þó enn í góðum samskiptum þegar Harry og Markle giftust árið 2018 í stórri athöfn í St. George’s kapellunni í Windsor kastala, þar sem bæði Elísabet II, hin látna drottning, og Filippus prins, voru viðstödd. Harrold sagði að Filippus hefði ekki getað staðist að segja álit sitt á brúðkaupinu.
„Þegar öllum formsatriðum var lokið horfðum við á hamingjusama parið, og síðan aðra meðlimi konungsfjölskyldunnar, ganga út úr kapellunni. Þegar Filippus prins kom út sneri hann sér að drottningunni og sagði: „Guði sé lof að þetta er búið.“ (e. Thank f–k that’s over.)
„Þetta var mjög fyndið. Ég held að hann hafi verið að tala fyrir hönd meirihluta fólks sem var viðstatt, en hann var maðurinn sem sagði það í raun og veru. Ég stóð á móti honum og það var svo fyndið,“ sagði Harrold, sem bætir við að athugasemdin hefði fengið drottninguna, sem lést árið 2022, til að snúa sér að eiginmanni sínum og brosa.
Þegar Markle var komin í embætti sem meðlimur konungsfjölskyldunnar var hún talin truflun. Á þeim tæpu tveimur árum sem hún var starfandi meðlimur konungsfjölskyldunnar varð hún fljótt þekkt fyrir að reyna að gera hlutina á sinn hátt og pirra marga.
Harrold minntist eins atviks þar sem Markle vildi bjóða vinum sínum í hádegismat á degi sem hún átti að sinna konunglegum skyldustörfum.
„Hún vildi frekar borða hádegismat með vinum sínum, hélt að það væri í lagi en það var það ekki,“ sagði Harrold og benti á að konunglega dagbókin væri fullbókuð sex mánuði fram í tímann.
„Þannig virkar þetta ekki. Það er ekki hægt að breyta dagskránni. Hún hélt greinilega að hún gæti komið inn og gert sitt, en það er ekki hægt,“ bætti Harrold við.
„Ég held að vandamálið með Meghan sé að hún fór inn í stofnunina, sem konungsfjölskyldan er, og gerði ráð fyrir eftir að hafa horft á allar Disney-prinsessurnar að það yrði eins og hún vildi. Þegar maður gengur til liðs við konungsfjölskylduna fær maður reglur og verklagsreglur sem þarf að fylgja.“
Á sama tíma segir Harrold í bókinni að þrátt fyrir aðdáun konungsfjölskyldunnar á hefðum, búist hann við að Vilhjálmur, 43 ára, muni afnema mörg af langvarandi formsatriðum þegar hann verður þjóðhöfðingi og nota valdatíð sína til að ýta á „endurstillingarhnapp“ og minnka fjölda lykilpersóna fjölskyldunnar.
„Satt best að segja, þegar George, Charlotte og Louis, börn Vilhjálms og Katrínar, verða fullorðin og byrja að taka þátt, þá mun konungsvaldið aðeins samanstanda af Walesprinsinum og þremur börnum þeirra,“ segir Harrold.
„Konungsvaldið mun verða brothættara með árunum og það er að breytast. Það er orðið meira eins og frægðarfólk heldur en söguleg stofnun. Harry var fyrsti frægi konungsfjölskyldumeðlimurinn.“
Harrold bendir á að Walesfjölskyldan muni einnig halda áfram að lifa án bryta, eitthvað sem Vilhjálmur og Katrín, hafa gert í mörg ár.
„Ég vildi vera bryti, annast heimili þeirra og þau vildu það ekki,“ sagði Harrold. „Þau vildu gera hlutina sjálf. Þau bera sína eigin hluti, vaska upp og elda sjálf. Þau eru ennþá mjög þannig. Vilhjálmur tekur mjög mikið til verka. Ég er sá eini hingað til sem hef eitthvað komið að starfi ráðsmanns fyrir hann.“
Harrold bendir einnig á í bók sinni hvernig það að vinna fyrir konungsfjölskylduna getur stigið sumum meðlimum til höfuðs og ákveðnir vilja láta í sér heyra.
„Ég lærði snemma um stjórnmálin innan stofnunarinnar. Sumir starfsmenn geta verið konunglegri en konungsfjölskyldumeðlimir!“
Harrold bendir á að bílstjórarnir og ritararnir, sérstaklega, telji sig betri en aðrir starfsmenn Hann kallar þá viðeigandi „mennina í jakkafötunum.“
„Við áttum öll að vinna sem teymi. En það var alltaf þessi öfundartilfinning. Því hærra sem maður komst í starfi, því fleiri líkaði ekki við mann.“