Ali Eastburn er 58 ára móðir frá Nashville í Bandaríkjunum. Hún segir að eftir breytingaskeiðið hafi hún átt erfitt með að léttast og ákvað að leita til þyngdarstjórnunarlyfsins Ozempic því hún vildi „vera grönn“ í brúðkaupi sonar síns. Það gekk illa að léttast, svo hún stækkaði skammtinn og sprakk botnlanginn í kjölfarið.
Hún segir í samtali við DailyMail að hún telur þetta hafa verið lyfinu að kenna og að það hafi „næstum drepið“ hana.
Ali vildi léttast fyrir brúðkaup sonar síns. Hún hafði áhyggjur af því hvernig hún myndi líta út á myndum og byrjaði þess vegna á Ozempic. „Til að byrja með var þetta eins og kraftaverk, kílóin hrundu af mér,“ segir hún.
„Mér leið vel og fann fyrir von.“
Hún var búin að missa tæp sjö kíló þegar hún hætti að léttast. „Ég vissi að ég þurfti að gera eitthvað drastískt þar sem ég var örvæntingarfull að léttast meira. Ég vildi ekki hata brúðkaupsmyndirnar. Ég stækkaði skammtinn svo ég gæti náð markmiði mínu að missa níu kíló.“
Ali tók það ekki fram hvort hún hafði samband við lækni áður en hún stækkaði skammtinn. Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna (FDA) varaði við því í fyrra að taka stærri skammt en ráðlagt er gæti leitt til alvarlega meltingarvandamála.
Ali segir að hún fann strax áhrifin eftir að hafa stækkað skammtinn. „Fyrstu vikuna var ógleðin stjórnlaus, ég hafði enga lyst á því að borða né drekka nokkuð,“ segir hún og bætir við að hún hafi fengið skelfilegan brjóstsviða.
„Ég var hundlasin,“ segir hún. Hún endaði á bráðamóttöku tvisvar vegna ógleði og „hrottalegs niðurgangs.“
Hún flaug samt til Kaliforníu, þar sem brúðkaupið var, en hún varð svo veik í fluginu að hún fór með sjúkrabíl á sjúkrahús um leið og hún lenti. Þá kom í ljós að hún væri með sprunginn botnlanga.
Ali lá inni á sjúkrahúsi í fjóra daga og missti af viðburðum tengdum brúðkaupinu. „Ég bara grét því ég vissi að þetta væri mér að kenna. Ég missti af þessu því ég vildi vera grönn og það fór alveg með mig.“
Sem betur fer missti hún ekki af brúðkaupinu sjálfu. „Mér tókst að mæta alveg á síðustu stundu og var svo verkjuð,“ segir hún.
„Við héldum að ég myndi ekki mæta í brúðkaupið, hvað þá lifa þetta af.“
„Ég myndi hvetja fólk til að hugsa vel og vandlega áður en það ákveður að taka inn þyngdarstjórnunarlyf, þetta drap mig næstum því,“ segir hún.
„Það er ekki þess virði að vera grönn ef þú missir líf þitt í leiðinni.“