Hann segir frá þessu í nýjasta þætti af hlaðvarpinu 70 mínútur.
„Það er eltihrellir sem að þú hefur séð,“ segir Simmi við Huga Halldórsson, meðþáttastjórnanda hans.
„Sem hefur beðið hérna fyrir utan þetta podcast stúdíó, komið heim til mín, sent mér skilaboð, ég er búinn að blokka viðkomandi út um allt og þetta er hætt að vera fyndið.“
„Ég var einu sinni í útvarpsviðtali á Bylgjunni í Reykjavík síðdegis og ég labba út af bílastæði sem er svona bílastæðahús, og hún kom aftan að mér, þessi kona. Og þetta er búið að ganga á núna í örugglega þrjú og hálft ár. Baby Reindeer dæmi, það er bara þannig,“ segir Simmi.
Fyrir um tíu til ellefu mánuðum síðan varð Hugi vitni að því þegar konan mætti síðast fyrir utan höfuðstöðvar 70 mínútna.
„Ég var mjög skýr þar, ég sagði: „Ég mun hringja í lögregluna ef þú kemur nálægt mér aftur, nú er nóg komið.““
Simmi segir að hann hafi ekki hringt í lögregluna, en hann hafi líka ekki séð hana frá því að þetta gerðist þar til núna í síðustu viku.
„Ég var með partýbingó síðasta föstudag, hún stóð við bílinn minn þegar ég kom út bakdyrameginn,“ segir hann.
„Ég hugsaði með mér, hvar er [staðan]? Hvað er í gangi, ég get ekki hjálpað henni, ég get ekki lifað með þessu.“
Simmi segir að hann hafi upplifað flóknar tilfinningar að þurfa að hringja í neyðarlínuna vegna málsins, að kona væri að ógna öryggi hans. Þrátt fyrir að fólkið í kringum hann hefur verið að hvetja hann að tilkynna hvert atvik svo hægt sé að skrá þetta og færa rök fyrir nálgunarbanni ef þetta heldur svona áfram, en Simmi hefur ekki fengið sig til þess.
„Þannig ég er enn á byrjunarreit eftir þessi þrjú ár,“ segir hann.
Hann segir að atvikið síðasta föstudag hafi verið „mjög krípí.“
„Ég ætla ekkert að fara í orðaskiptin sem áttu sér stað, þetta er bara mjög krípí. Það sem hún er að segja og það sem hún er að halda fram. Svo er hún að halda út bloggi um þetta og eitthvað kjaftæði, þetta er bara mjög fríkí.“
Simmi segir að það sé öðruvísi fyrir karlmenn að tilkynna ofbeldi þegar kona er gerandi.
„Við karlar erum einhvern veginn, ah… við nennum ekki þessu veseni. Því okkur er klárlega ekki líkamlega ógnað, ógnin felst ekki í ofbeldi, þannig ég skil að konur upplifi eltihrella sterkara en við. Við gerum minna úr þessu því við erum karlar, en einhvern tíma þarf að segja nóg er nóg.“
Simmi heldur áfram að ræða þetta í kringum mínútu 43:00 í spilaranum hér að neðan.