Kristbjörg hefur verið gift landsliðsmanninum Aroni Einari Gunnarssyni síðan 17. júní árið 2017. Þau eiga saman þrjá syni. Fjölskyldan hefur verið búsett í Katar frá árinu 2019.
Kristbjörg hefur verið ein með drengina í mánuð og segist vera bæði örmagna og þakklát á sama tíma.
„Þakklát fyrir samveruna. Örmagna af því að… tja, móðurhlutverkið er endalaus tilfinningarússíbani. Ég finn fyrir samviskubiti að ég sé ekki að gera nóg, en svo finn ég líka fyrir samviskubiti að vera of ströng.
Ég vil veita þeim frelsi, en líka kenna þeim góð gildi, sjálfstæði, virðingu, þrautseigju, um næringu, hreyfingu og góðvild. Allt sem ég vona að móti þá í að verða sterkir og heilbrigðir unglingsstrákar, en þetta er stöðug barátta […] Ég er að reyna að vernda þá fyrir heiminum á meðan ég er að undirbúa þá fyrir hann.“
Kristbjörg gerði tilraun og sleppti skjáum (símum, spjaldtölvum og sjónvarpi) í fimm daga. „[Ég] sá breytinguna. Meiri hlátur, meiri tenging, meiri leikur. En það þýddi líka meira álag fyrir mig, að vera til staðar, taka þátt, sýna gott fordæmi. Engin pása, bara ást, rútína og smá ringulreið.“
Kristbjörg segir að drengirnir kunni kannski ekki að meta þetta strax en að vonandi sé hún að sá fræjum.
View this post on Instagram