Nokkra athygli vakti í júní síðastliðnum þegar nokkrir einstaklingar sem starfað hafa flestir á einhvern hátt í bókmenntageiranum fengu send eintök af nýrri glæpasögu, Páfagaukagarðurinn. Höfundur hennar hefur kosið að koma ekki fram undir nafni en nota þess í stað höfundarnafnið Akörn en segist vera þjóðþekkt manneskja. Miklar getgátur hafa verið uppi um hver Akörn er en það hefur ekki tekist að upplýsa það. Eintak af bókinni var sent bókabúðinni Skáldu í Reykjavík með því fororði að það skyldi vera boðið til sölu á 30.000 krónur. Það eintak hefur verið selt en nú hefur Skáldu borist önnur prentun af bókinni sem sögð er breytt og betrumbætt frá þeirri fyrstu en eigandi verslunarinnar óskar eftir skýrari leiðbeiningum frá Akörn um hvað hann eigi að gera við þessa nýju útgáfu. Hann segir að margir telji sig vita hver Akörn er en engin kenning um það byggi enn sem komið er á nægilega traustum grunni.
Eintakið sem sent var Skáldu í júní hefur verið selt en Akörn setti það skilyrði að það yrði til sýnis í versluninni í 3 mánuði eftir söluna og sá tími er ekki liðinn. Þegar fyrsta prentunin barst var mikið rýnt í hver Akörn gæti verið. Þátturinn Bara bækur á Rás 1 var til að mynda lagður undir að reyna að komast að því. Eiríkur Örn Norðdahl rithöfundur sagði í þættinum að hann teldi sig vita hver Akörn væri, út frá ritstíl bókarinnar, en vildi ekki gefa það upp. Ýmsir rithöfundar voru orðaðir við að vera Akörn en enginn þeirra gekkst við því.
Umræðan um hver Akörn væri lognaðist fljótlega út af en hann eða hún virðist ekki hafa sagt alveg skilið við Páfagaukagarðinn en samkvæmt umfjöllun Bara bóka koma þar meðal annars við sögu handrukkarar á Blönduósi sem starfa fyrir albönsku mafíuna.
Á Facebook-síðu bókabúðarinnar Skáldu er greint frá því að í morgun hafi beðið í bréfalúgu verslunarinnar umslag með nýju eintaki af Páfagaukagarðinum. Á myndum sem birtar eru með færslunni má sjá að með eintakinu er handskrifaður miði þar sem á stendur eins og í fyrra skiptið að um sé að ræða glæpasögu eftir höfundinn Akörn sem sé þjóðþekkt manneskja. Á miðanum stendur einnig að um sé að ræða aðra prentun bókarinnar sem sé breytt og betrumbæt en fyrsta prentun sé uppseld, en eins og áður segir var aðeins eitt eintak úr fyrstu prentun selt. Kápan á annarri prentuninni er eins og á þeirri fyrstu nema hvað að hún er í öðrum lit. Í fyrra skiptið var hún blá en í þetta sinn appelsínugul.
Á annarri mynd sem fylgir færslunni má sjá að búið er að árita bókina með þeim orðum að þessi önnur prentun sé til „lesandans í kaupbæti.“ Hvort þetta þýði að þessi nýja útgáfa eigi að berast kaupanda fyrsta eintaksins án viðbótarendurgjalds virðist ekki fyllilega ljóst miðað við færsluna. Eintakið nýja er einnig áritað með orðunum „manu propria“ sem veldur sömuleiðis heilabrotum en í færslunni er spurt:
„Hvað á þetta að þýða? Hvað lesið þið úr skriftinni? Hvað þýðir þetta „manu propria“? Hver er „lesandinn“? Hver er eiginlega Akörn? Eruð þið með kenningu?“
Í athugasemd við færsluna segir Brynhildur Þórarinsdóttir dósent við Háskólann á Akureyri að skriftin sem sjá má á myndunum sem fylgja færslunni, sem sjá má hér fyrir neðan, sýni að viðkomandi hafi lært Ítalíuskrift í grunnskóla en ekki lykkjuskrift. Ítalíuskrift hafi verið tekin upp 1984 en innleidd í alla skóla á árabilinu 1984-1990. Höfundurinn Akörn sé því fæddur eftir 1978. Brynhildur bendir hins vegar á að Akörn: „Gæti verið svo útsmoginn að láta einhvern skrifa þetta fyrir sig til að blekkja okkur, því manu propria var gjarnan notað í prentverkum þegar eiginhandaráritun höfundar var ekki til staðar. Þá væri Ítalíuskriftin blekking og höfundur miðaldra lykkjuskrifari og áhugamaður (atvinnumaður?) um handrit/bókasöfnun/útgáfusögu.“
Í annarri athugasemd er síðan fullyrt að á myndunum sjáist skrift Dags Hjartarsonar rithöfundar.
Í samtali við DV játar Einar Björn Magnússon eigandi Skáldu því að hann hafi orðið hissa þegar hann mætti í verslunina í morgun og ný sending frá Akörn beið þar. Hann segir það ekki alveg skýrt hvort að orðin, „til lesandans í kaupbæti“, sem nýja eintakið er áritað með, þýði að það sé ætlun Akörn að einstaklingurinn sem keypti eintakið af fyrri prentuninni, sem til sölu var í versluninni, eigi að fá þetta eintak af annarri prentuninni í kaupbæti:
„Ég skildi það fyrst þannig að sá sem að keypti fyrri bókina ætti að fá þessa líka en ég er ekki alveg viss.“
Einar Björn óskar eftir frekari leiðbeiningum frá Akörn um hvað eigi að gera við bókina:
„Hver á að fá þessa bók í kaupbæti?“
Eins og áður segir fengu nokkrir einstaklingar úr bókmenntageiranum eintak af fyrstu prentun Páfagaukagarðsins. Einar segist ekki hafa vitneskju um að þessir sömu einstaklingar hafi einnig fengið eintak af þessari annarri prentun en tekur undir með fréttamanni með að það virðist ólíklegt að aðeins hafi verið prentað þetta eintak af annarri prentuninni.
Einar segir að síðan hann birti færsluna á Facebook-síðu Skáldu um nýju prentunina af Páfagaukagarðinum hafi ekkert skýrst neitt frekar hver Akörn geti verið og engin ný nöfn, sem ekki verið nefnd þegar Akörn lét fyrst á sér kræla, hafi komið fram.
Við færsluna er eins og áður segir nefnt nafn Dags Hjartarsonar en Einar segir að hann hafi heyrt Dag nefndan áður í þessu samhengi:
„Hann hefur neitað fyrir það en auðvitað … höfundur sem er undir dulnefni hlýtur að neita fyrir það ef hann er spurður.“
Einar segist ekki vera með neinn ákveðinn höfund í huga sem hann telji líklegastan til að standa á bak við Akörn. Hann hafi hingað til ekki heyrt neitt sem renni nægilega sterkum stoðum undir hver Akörn geti verið til að hægt sé að varpa fram ákveðnu nafni:
„Það eru margir sem þykjast vita hver þetta er. Ég hef heyrt mörg nöfn og fólk er alveg viss um að þetta sé einhver. Það eru allir vissir um að sín tilgáta sé rétt.“
Einar segist að lokum spenntur að sjá hvort færslan og svo þessi umfjöllun DV muni koma bókmenntaáhugafólki frekar á sporið um hver Akörn geti verið. Hvort að hinn dularfulli Akörn muni nokkurn tímann stíga fram í dagsljósið á eftir að koma í ljós en sé það sé rétt hjá Akörn að hið raunverulega nafn hans sé landsþekkt virðist sem svo að þarna sé ferðinni einhver sem landsmenn ættu að kannast vel við.