Einkaþjálfarinn og áhrifavaldurinn Hafdís Björg Kristjánsdóttir á fimm syni. Þrír elstu fæddust yfir fimm ára skeið, árin 2005, 2007 og 2010, og þeir yngri árin 2018 og 2019. Það er fjórtán ára aldursmunur á þeim yngsta og elsta og segir Hafdís margt hafa breyst á þeim tíma, eins og væntingar samfélagsins til mæðra og hefur sérstaklega tilkoma samfélagsmiðla haft áhrif.
Hafdís ræðir um móðurhlutverkið í Fókus, viðtalsþætti DV.
„Ég er svo þakklát fyrir að hafa átt börn fyrir tíma samfélagsmiðla,“ segir Hafdís um eldri drengina.
„Ég hefði örugglega farið í 100 prósent mömmuna á samfélagsmiðlum ef ég væri að eignast mitt fyrsta barn núna. Ég er svo fegin að hafa upplifað hitt, því hitt var svo náttúrulegt. Maður gerði alla þessa hluti því maður langaði það og fann að barnið þurfti þess, þetta var náttúrulegra,“ segir Hafdís.
„Núna er svo mikið af reglum, það er ekki hægt að fara eftir þessu. Maður bugast bara, ég fer bara í burnout að fylgjast með samfélagsmiðlamömmum í dag. Eina markmiðið mitt er að láta þá sofa, borða og hreyfa sig og halda svo yngsta á lífi, hann er svakalegur. Ef ég er ekki hlaupandi eftir honum uppi á einhverjum þökum þá er maður að grípa hann því hann er að taka eitthvað tilhlaup og fara í eitthvað heljarstökk,“ segir hún hlæjandi og bætir við:
„Ég er ekki að grínast, þegar fólk spyr mig út í formið sem ég er í, þeir halda mér í formi. Það er bara þannig.“
Til foreldra í dag segir Hafdís: „Finndu þinn takt, og líka taktinn hjá barninu. Það eru engin börn eins.“
Hafdís fer um víðan völl í viðtalinu. Hún ræðir einnig um að finna sig eftir erfiðleika, vinkonumissi og hvernig er að verða fyrir netníði þegar hún var á dimmum stað. Hún opnar sig einnig um æskuna, að verða móðir ung og fæðingarþunglyndi.
Hlustaðu á þáttinn með Hafdísi á Spotify og öllum helstu hlaðvarpsveitum.
Fylgdu Hafdísi á Instagram.