Orðið á götunni er að leikararnir Pamela Anderson og Liam Neeson séu að stinga saman nefjum. Þau leika saman í kvikmyndinni Naked Gun sem nýtur nú töluverðra vinsælda.
Einhverja grunar þó að ástarsamband leikaranna sé liður í að kynna kvikmyndina, enda eru samsæriskenningar í tísku í dag.
Pamela hefur þó deilt því hvernig hún komst í mjúkinn hjá leikaranum. Þar var um klassíska leið að hjarta manns að ræða. Pamela ræddi við fjölmiðla á viðburði í New York í vikunni og greindi þar frá því að henni hafi kviðið fyrir því að hitta leikarann. Hún ákvað því, til að losna við kvíðann og til að koma vel fyrir, að baka.
„Ég var stressuð fyrir því að hitta Liam, auðvitað, og svo er maður alltaf stressaður á fyrsta tökudegi. Ég kom með súrdeigsbrauð handa honum, smákökur og möffins.“
Leikkonan segir að þannig hafi hún fundið leið til að dreifa huganum frá kvíðanum og komið í veg fyrir að lenda í klípu. Hún tók fram að hún hafi notað sérstaka möffinsuppskrift. Þetta voru hollar kökur með mikið af trefjum. Þetta útspil gekk vonum framar enda sagði Neeson að brauðið væri til fyrirmyndar og kökurnar sömuleiðis.
Neeson segist sjálfur hafa heillast af Pamelu við fyrsta fund þeirra.
„Ég hafði aldrei hitt hana áður og ég man að ég hugsaði: Vá hún er gullfalleg, en hún er líka svo dásamlega kjánaleg og hefur bara einstaka mennsku. Ég vil ekki mæra af henni skóna en mér leið bara þægilega með henni og við getum verið kjánaleg saman, sem er æðislegt.“
Leikararnir hafa ekki tjáð sig um sögusagnir um meint ástarsamband þeirra. Mögulega vilja þau halda því leyndu og mögulega vilja þau ekki kveða niður sögusagnirnar á meðan þau eru enn að sinna kynningarstarfi vegna kvikmyndarinnar. Ljóst er þó að ef þau eru ekki ástfangin þá verða margir aðdáendur verulega vonsviknir.