Hrósa skal því sem vel er gert og útvarpsmaðurinn Jón Axel Ólafsson tók það verkefni að sér í dag er hann mærði hjónin Regínu Ósk Óskarsdóttur og Sigursvein Þór Árnason. Þau stóðu fyrir brekkusöng á túninu við Roðasali í Salahverfi í gærkvöldi, en þetta var í fimmta sinn sem hjónin halda brekkusöng fyrir nágranna og fleiri um verslunarmannahelgina.
Jón Exel segir þetta gott dæmi um fórnfýsi og frumkvæði. Hér hafi hjónin viljað gott af sér leiða og fari ekki fram á endurgjald. Hann skrifar á Facebook:
„Þetta framtak er frábært dæmi um fórnfýsi og frumkvæði. Fólk sem vill láta gott af sér leiða án þess að fá nokkuð í staðinn. Skemmta nágrönnum sínum af áhuga og góðvild, í skítaveðri, þegar þau gætu verið að hafa góðar tekjur af starfi sínu sem tónlistarmenn, segir meira en mörg orð um þessi hjón. Við skulum heldur ekki gleyma því að þau rífa sig upp á sunnudagsmorgnum til að spila í barnastarfi Lindakirkju. Þetta eru hjón með fallegt hjarta.“