fbpx
Sunnudagur 10.ágúst 2025
Fókus

Anna Guðný stendur sig vel í Mongólíu – Gerjaða hrossamjólkin smakkast eins og mysa og rennur vel niður

Björn Þorfinnsson
Sunnudaginn 10. ágúst 2025 09:04

Anna Guðný var óheppinn með hest á fyrsta degi kappreiðanna og flaug af baki eftir að hesturinn fældist og prjónaði. Atvikið náðist á meðfylgjandi mynd. Mynd/Mongol Derby

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þegar átján keppnisleiðum af 28 er lokið í Mongol Derby, erfiðustu kappreiðum heims,  þá er ævintýrakonan Anna Guðný Baldursdóttir í 19. sæti af þeim 45 keppendum sem hófu keppni. Um tíma var Anna Guðný komin upp í 11. sæti en óheppilegt víti frá dómurum kappreiðanna reyndist dýrkeypt.

Hér má lesa fyrri grein um þátttöku Önnu Guðnýjar þar sem meðal annars fyrirkomulag kappreiðanna er útskýrt betur.

Í afar stopulu sambandi við DV, enda er netsamband í óbyggðum Mongolíu ekki beysið, þá segist henni líða vel andlega og að mestu leyti líkamlega og hún sé ánægð með árangurinn hingað til og stefni á hærra sæti á lokakaflanum.

„Fyrstu tveir dagarnir voru eiginlega erfiðastir. Ég var óheppinn og fékk mjög erfiðan hest á fyrstu leiðinni sem hrekkti mig, hann prjónaði yfir sig og við duttum síðan bæði,“ segir Anna Guðný sem blessunarlega varð þó ekki undir hestinum. Sá óþekki lét ekki þar við sitja heldur ákvað eftir 10 kílómetra að nenna ekki meiru og ég þurfti þvílíkt að hafa fyrir því að koma honum í hús,“ segir Anna Guðný.

Hún segist hafa verið afar stirð og lúin eftir fyrstu tvo keppnisdagana og þá hafi hún glímt við svæsna húðertingu undan reiðbuxunum.

Hestarnir geta sumir verið erfiðir. Hér hefur ónefndur knapi fengið byltu og fákurinn geysist í burtu. Mynd/Mongol Derby

„Reiðbuxurnar sem ég er með eru eiginlega of heitar og anda ekki nógu vel. Ég vissi af því að þetta gæti orðið vandamál en það var hægara sagt en gert að finna reiðbuxur á Íslandi sem hentuðu. Flestar reiðbuxur sem við notum heima snúast um það að halda á þér hita, ekki hleypa honum út,“ segir Anna Guðný.

Annað mögulegt vandamál var næring á meðan keppninni stendur. Á meðan kappreiðunum um mongólskar óbyggðir stendur þurfa keppendur að redda sér sjálfir að borða hjá hirðingjum á leiðinni. Ekkert rými er til að taka mat með sér og því renndi Anna Guðný svolítið blint í sjóinn varðandi hvernig fæðan færi í hana. Það hefur komið henni skemmtilega á óvart að mongólski hirðingjamaturinn myndi sóma sér vel á norðlensku sveitaheimili, að minnsta kosti fyrr á árum.

Stund milli stríða með mongólskum heimasætum þar sem Anna Guðný borðaði eitt kvöldið. Mynd/Mongol Derby.

„Ég fæ yfirleitt soðið brauð og kjötsúpu sem er ekki alls ekki ósvipuð þeirri íslensku. Svo drekk ég gerjaða hrossamjólk sem bragðast eiginlega eins og mysa og nóg af mjólkurtei,“ segir Anna Guðný. Svo hefur hún fengið soðbrauð í nesti frá gestgjöfum sínum sem hún maular á hestbaki á meðan keppni stendur.

Keppendur skipta reglulega um hesta til þess að tryggja velferð þeirra. Mynd/Mongol Derby.

Þrátt fyrir að Anna Guðný hafi verið á hestbaki frá blautu barnsbeini þá hefur hún aldrei keppt í kappreiðum og hvað þá gegn reyndu keppnisfólki. Hún komst hins vegar á gott skrið eftir erfiða byrjun og var komin upp í 11. sæti þegar ógæfan reið yfir – víti frá dómurum keppninnar.

Afar vel er fylgst með velferð hestanna og sérstaklega að þeir séu ekki keyrðir áfram. Á hverri stöð þar sem skipt er um hest er fylgst með hjartslætti þeirra og 30 mínútum síðar á hjartslátturinn að vera kominn niður í 56 slög.

Við komu á stöð 14, af 28, var hestur Önnu mældur og reyndist hann fljótlega vera kominn í 58 slög. Að 30 mínútum liðnum voru slögin hins vegar orðin 60. „Þetta var eiginlega algjör óheppni. Það gerist einstöku sinnum að hestarnir stressast upp á þessum stöðvum og það gerðist í mínu tilfelli,“ segir Anna Guðný.

Refsingin var sú að Anna Guðný fékk ekki að halda áfram þann daginn og þurfti að horfa á eftir keppinautum sínum ríða út á meðan hún sat eftir. Það þýddi að hún datt niður úr sæti 11 í sæti 23.

Anna Guðný er þó hvergi að baki dottinn (þetta er reyndar tæknilega lygi því okkar kona datt reyndar einu sinni) og ætlar að gefa allt í lokabaráttuna.

Hægt er að fylgjast með stöðu keppninnar hér.

Anna Guðný fjármagnaði ferðina að hluta í gegnum Karolina Fund og hafa viðtökurnar farið fram úr hennar björtustu vonum. Hún setti sér markmið að fjármagna helming ferðarinnar þar og hefur náð því markmiði sínu. Söfnunin heldur hins vegar áfram á meðan keppni.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Ofurfyrirsætan og eiginmaðurinn eru í mánaðalangri „orma- og sníkjudýrahreinsun“

Ofurfyrirsætan og eiginmaðurinn eru í mánaðalangri „orma- og sníkjudýrahreinsun“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Olga var í fjörunni á Álftanesi þegar hún fékk ónotatilfinningu – „Ég var með bíllykilinn í krepptum lófanum“

Olga var í fjörunni á Álftanesi þegar hún fékk ónotatilfinningu – „Ég var með bíllykilinn í krepptum lófanum“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Telur sig hafa fengið krabbamein vegna framhjáhaldsins

Telur sig hafa fengið krabbamein vegna framhjáhaldsins
Fókus
Fyrir 3 dögum

Laufey spurð erfiðrar spurningar um Ísland – „Ég get ekki sagt neitt“

Laufey spurð erfiðrar spurningar um Ísland – „Ég get ekki sagt neitt“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Sara þjálfari segir það sem er erfitt að heyra – Þetta hjálpaði henni að ná árangri

Sara þjálfari segir það sem er erfitt að heyra – Þetta hjálpaði henni að ná árangri
Fókus
Fyrir 5 dögum

Sjaldséð sjón: Grease-stjarna orðin 74 ára

Sjaldséð sjón: Grease-stjarna orðin 74 ára