fbpx
Þriðjudagur 29.júlí 2025
Fókus

Dauðadæmt ástarævintýri heldur netverjum í heljargreipum – Baldur kúrir hjá Auði en hans bíða ólýsanlegar þjáningar

Björn Þorfinnsson
Þriðjudaginn 29. júlí 2025 08:30

Auður tvö er mikilfengleg með afbrigðum. Það sama verður ekki sagt um greyið Baldur

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Undanfarinn sólarhring hafa meðlimir Facebook-hópsins Skordýr og Nytjadýr á Íslandi fylgst spenntir með dauðadæmdu ástarævintýri sem virðist vekja með þeim hroll jafnt sem hlýju.

Á húsglugga einum í Vesturbænum kom íturvaxin gulleit könguló sér fyrir fyrr í sumar og bjó sér til huggulegan vef. Köngulóin, sem hefur hlotið nafnið Auður tvö af ástæðu sem síðar verður útskýrð, vakti athygli Guðrúnar Ingibjargar Þorgeirsdóttur og annarra fjölskyldumeðlima, sem búa hinum megin glersins. Lífsbarátta Auðar hefur vakið mikinn áhuga heimilisfólks sem hefur fylgst með valkyrjunni veiða sér grimmt til matar og dafna. Dag hvern fyllist vefur Auðar tvö af flugum sem hún er svo búin að graðga í sig að morgni.

Bassafantur blindaður af frygð

Auður tvö var lengi áttfætla einsömul en það breyttist um helgina þegar Guðrún Ingibjörg tók eftir því að önnur könguló, svört og visin, hafði komið sér fyrir í miðjum vefnum. Við fyrstu sýn virtist nýi gesturinn hreinlega vera af annarri tegund en gula maddaman sem netverjar höfðu greint sem búsældarlega krosskönguló. Bjóst Guðrún Ingibjörg því við hinu versta fyrir hönd, eða öllu heldur einn af átta ganglimum, hins visna.

Segja má að þær áhyggjur hafi verið á rökum reistar þó að nýi gesturinn, sem reyndist vera karlkyns krosskönguló, hafi fyrst fengið að sýna listir sínar og eiga afar ánægjulega stund. Gesturinn visni var nefnilega mættur í erótískar erindagjörðir, blindaður af frygð gagnvart Auði tvö.

Samkvæmt Wikipediu, sem verður nýtt hér sem heimild því að blaðamaður nennir einfaldlega ekki að vinna almennilega rannsóknarvinnu, þá fer biðilsleikur krossköngulóa þannig fram að visinn graður karlræfill spinnur lítinn silkiþráð yfir vef mikilfenglegra kvendýra, eins og Auður tvö sannarlega er, og byrjar svo að spila takfast á þráðinn líkt og bassaleikari til að vekja á sér athygli.

(Þessi aðferðafræði virkar reyndar líka í mannheimum. Það er gömul saga og ný að auralausir tónlistarmenn nái að heilla sjálfstæðar konu, sem hafa með blóði, svita og tárum komið undir sig fótunum í eigin íbúð, og flytja nánast samstundis inn.)

Áður en spilamennskan hófst hafði áttfætti bassafanturinn látið lítinn sæðisdropa drjúpa á þéttan vefbút sem hann hafði spunnið og síðan sogið dropann upp í lítinn belg á þreifurum sínum því æxlunarfæri karlkyns krossköngulóa eru ekki samtengd. Síðan beið hann færis að stinga þreifurunum inn í kynop Auðar.

(Engar myndlíkingar um auralausan tónlistarmann og sjálfstæða koni verða notaðar til þess að varpa frekari ljósi á þessa truflandi athöfn enda er mikilvægt að virða velsæmismörk.)

Eins og sjá má getur heimilisfólk fylgst náið með ástarævintýrinu hryllilega

Flóttinn mikli misheppnaðist

Allt þetta fór hins vegar fram hjá Guðrúnu Ingibjörgu og hennar fólki enda sváfu þau vært þegar hið erótíska sjónarspil gekk yfir. Það næsta sem þau sáu af visna karleymingjanum var að hann lá í hnipri upp að Auði tvö og virtist una hag sínum vel. Vefurinn fallegi var hins vegar allur í tætlum og ljóst að mikið hafði gengið á.

Guðrún Ingibjörg deildi frásögn og myndum með meðlimum fyrrnefnds Facebook-hóps og má segja að viðbrögðin hafi verið gríðarleg. Athugasemdum rigndi inn og fljótlega var áðurnefndur fróðleikur um líf, störf, ástir og sjúk blæti krossköngulóa kominn upp á yfirborðið. Sumir voru heillaðir af þessum merkilegu dýrum, aðrir óskuðu eftir tafarlausri tortímingu þeirra.

En ef einhverjir sáu fyrir sér fallegt ástarævintýri í Vesturbænum, þar sem alltof margir útlimir og uppsogið sæði í brundbelg kemur við sögu, þá brotlenti sá draumur fljótt.

Fróðir netverjar voru nefnilega snöggir að benda á að krossköngulær eru einar af fáum tegundum köngulóa þar sem kvendýrið étur karldýrið eftir kynmök, það er að segja ef þeir ná ekki að forða sér. Atburðarásin hefur sennilega verið á þá leið að bassaleikarinn visni náði að svala losta sínum, með samþykki frú Auðar að sjálfsögðu, og hafði síðan örlítinn tíma á meðan eftir sáðláts-skýrleikinn (e. post nut clarity) helltist yfir til að forða sér. Það tókst greyinu í Vesturbænum ekki.

Og þá skýrist loks nafnagiftin sem allir söngleikjaunnendur ættu að hafa áttað sig á. Gula köngulóin, Auður tvö, er nefnd í höfuðið á mannætuplöntunni óseðjanlegu í Litlu Hryllingsbúðinni. Heiðurinn að nafnagiftinni á Haukur Smári, eiginmaður Guðrúnar Ingibjargar, og það segir sig því nánast sjálft að karldýrið visna hlaut nafnið Baldur blómasali enda verða örlög þeirra félaganna þau sömu að lokum, að enda í gini Auðar.

Lamaður af eitri og bíður hryllilegra örlaga

Þegar þessi orð eru skrifuð tórði Baldur hins vegar enn og virtist ekki vera enn kominn á matseðil Auðar.

„Ég athuga með lífsmörk þeirra á hverjum morgni með því að blása á þau bæði og athuga hvort þau hreyfa sig,“ segir Guðrún Ingibjörg en eins og lesa má af orðfærinu starfar hún sem læknir.

(Þá er vert að geta þess að hún starfaði líka eitt sinn sem sumarstarfsmaður á Morgunblaðinu og hefur því mikinn skilning á örvæntingu blaðamanna í algleymi gúrkutíðar sem er í raun forsenda þessarar greinar.)

Áhugasamir netverjar hafa óðir og uppvægir óskað eftir frekari fregnum af Baldri. „Hann er á lífi en ég er hrædd um að köngulóalækningar séu fyrir utan mitt sérsvið ef Baldur lendir í klandri,“ segir Guðrún Ingibjörg.

Hafa netverjar meðal annars bent á það að þó að Baldur tóri sé hann líklega lamaður af eitri Auðar tvö og honum verði svo samviskusamlega sporðrennt þegar sú bústna finnur til svengdar.

Baldur lyfjaður og hress meðverðandi barnsmóður sinni, fullkomlega ómeðvitaður um að hann er á matseðlinum.

En hvernig sér Guðrún Ingibjörg fyrir sér framtíð Auðar tvö sem einstæðrar móður? Mun hún fá að dvelja þarna í góðu yfirlæti, leigulaust, eða mun heimilisfólk freista þess að færa hana búferlum?

„Hún hefur nú ekki alveg búið hér leigulaus því hún var gríðarlega iðin við flugnaveiðar, allt þar til Baldur mætti á svæðið, þá missti hún allan áhuga á öðru en honum,“ leiðréttir Guðrún Ingibjörg og bendir á, sennilega eftir lestur Wikipediu-greinarinnar áðurnefndu, að illu heilli muni Auður tvö ekki lifa það að sjá afkvæmi sín klekjast út. Ef Baldur greyið stóð sig í stykkinu er von á aragrúa nýfæddra köngulóa næsta sumar en þá ætti gula drottningin að hafa kvatt þessa jarðvist.

„Svo ef eggin verða þarna ein eftir þá flytjum við líklega búið á hentugri stað fyrir næsta vor þegar þau klekjast út, þar sem þetta er alveg beint fyrir framan útidyrahurðina okkar,“ segir smádýravinurinn Guðrún Ingibjörg og útilokar með öllu tortímingu ættboga Baldurs blómasala og Auðar tvö.

Þá virðist heldur ekki koma til greina að kveikja bara í húsinu og forða sér eins og nokkrir netverjar hafa ráðlagt.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Ragga Holm og Elma giftu sig hjá sýslumanni

Ragga Holm og Elma giftu sig hjá sýslumanni
Fókus
Fyrir 3 dögum

Hjónin Kristbjörg og Eiríkur hafa sótt Veiðivötn í nær hálfa öld – „Þetta er eins og jólin“

Hjónin Kristbjörg og Eiríkur hafa sótt Veiðivötn í nær hálfa öld – „Þetta er eins og jólin“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Sakar milljarðamæringinn um að hafa neytt sig til fegrunaraðgerða og vændiskaup í sláandi skilnaðarkröfu

Sakar milljarðamæringinn um að hafa neytt sig til fegrunaraðgerða og vændiskaup í sláandi skilnaðarkröfu
Fókus
Fyrir 5 dögum

Borat-stjarnan opinberar breytt útlit – „Þetta er ekki gervigreind“

Borat-stjarnan opinberar breytt útlit – „Þetta er ekki gervigreind“