fbpx
Þriðjudagur 15.júlí 2025
Fókus

Stjórnarliðar fögnuðu þinglokum og valkyrjur tóku lagið

Fókus
Þriðjudaginn 15. júlí 2025 10:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þingfundum 156. löggjafarþings Alþingis var frestað í gær og veiðigjaldafrumvarpið varð loks að lögum eftir lengstu umræður á Alþingi síðan málstofur þingsins voru sameinaðar árið 1991. Fór svo að forseti Alþingis ákvað að beita neyðarhemli þingskapalaga til að stöðva 2. umræðu um frumvarpið, stjórnarandstöðunni til lítillar gleði. Ákvæðið er nú að finna í 71. gr. sem fjallar um úrræði þegar umræður hafa dregist úr hófi. Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði, og fleiri hafa vakið athygli á því að málþóf sem þetta var í raun ómögulegt fyrir breytingar sem gerðar voru á lögum árið 2007. Kaldhæðnin er sú að þessari breytingu var ætlað að draga úr málþófi.

En nú hefur þingi verið frestað og stjórnarliðar fögnuðu á meðan stjórnarandstaðan boðaði nýja tíma á Alþingi þar sem beiting 71. gr. yrði ekki án afleiðinga. Valkyrjurnar í ríkisstjórninni létu sér þó fátt um finnast um þær hótanir, héldu út á fádæmafagran sumardaginn og tóku svo lagið með sínu fólki í dýrðinni á Petersen-svítunni í Ingólfsstræti.

Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, söng að vanda lagið Simply the Best sem söngkonan Tina Turner gerði ódauðlegt á sínum tíma. Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra tóku svo með Ingu Mannakorns-lagið Ó, þú.

Valkyrjur fagna
play-sharp-fill

Valkyrjur fagna

Eins og sjá má á myndskeiðum sem Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra deildi var stemningin góð og ekki hægt að kvarta undan veðri eða útsýni.

Stjórnarliðar taka lagið
play-sharp-fill

Stjórnarliðar taka lagið

Og valkyrjurnar tóku þessa skemmtilegu mynd af sér þar sem þær stilltu sér upp og annaðhvort viljandi eða óvænt voru klæddar í fánalitina. Til gamans má geta að litirnir í íslenska fánanum hafa merkingu. Rauði liturinn táknar eld, sá blái hafið og himininn og hvíti liturinn jökla. Íslendingar völdu sér fyrst bláhvítan fána en bættu rauða litnum við að beiðni danskra stjórnvalda sem fannst bláhvíti fáninn alltof líkur þeim gríska. Fyrst voru íslenskir þjóðernissinnar ekkert paránægðir með rauða litinn, þar sem hann kom tæknilega frá Dönum, en hann var síðar tekinn í sátt enda þótti það viðeigandi að hafa rauðan og hvítan í fána lands elda og ísa.

Og Ugla Tré lét sig ekki vanta, en Ugla er grínpersóna úr smiðju Árna Árnasonar og nýtur mikilla vinsælda á TikTok þar sem Árni birtir skondna ádeilu á bæði stjórnmálin og samfélagið. Nánar má lesa um Uglu Tré hér.

Uppfært: 11:51 – Blaðamanni varð handvömm við ritun fréttar og skrifaði að 146. löggjafarþingi hafi verið frestað í gær. Að sjálfsögðu átti þetta að vera 156. löggjafarþing. Fréttin hefur verið uppfærð og blaðamaður biðst velvirðingar og íhugar að fá sér stærra lyklaborð eða nettari fingur.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Salt Path-skandallinn skekur Bretland – Dramatísk sjálfsævisaga reyndist uppfull af lygum

Salt Path-skandallinn skekur Bretland – Dramatísk sjálfsævisaga reyndist uppfull af lygum
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hversu vel þekkir þú Friends? – Taktu prófið

Hversu vel þekkir þú Friends? – Taktu prófið
Hide picture