Fanney er gestur vikunnar í Fókus, viðtalsþætti DV. Samhliða barneignum hefur Fanney menntað sig, hún er stjórnmálafræðingur með MPA í opinberri stjórnsýslu, förðunarfræðingur, og með MS í markaðsfræði. Í dag starfar hún sem markaðstjóri Blush, heldur úti hlaðvarpinu Tvær á floti ásamt vinkonu sinni Söru Alexíu og deilir efni á Instagram og TikTok þar sem hún nýtur vinsælda.
Í spilaranum hér að neðan ræðir Fanney um erfiða tímabilið sem fylgdi því að eignast tvö börn á stuttum tíma og sjálfsvinnunar sem tók við í kjölfarið. Brotið er hluti af nýjasta þætti af Fókus sem má horfa á í heild sinni hér eða hlusta á Spotify.
Fanney varð móðir 2008, átján ára gömul. Hún eignaðist sitt annað barn árið 2018, stúlku, og fylgdi næsta stúlka ári seinna, 2019.
„Það var alveg rosaleg áskorun. Það var mjög erfitt. Jú, það var mjög erfitt að vera ung móðir en munurinn þarna að hann var einn með mér í þessi tíu ár, þannig hann fékk alla þá athygli og allt sem þarf frá mér. Svo koma þær þarna með eins árs millibili tíu árum seinna og það var mjög erfitt,“ segir hún.
„Þú ert með ungabarn þegar þú verður aftur ólétt, þú ert í fæðingarorlofi þegar þú eignast annað barnið, eða í mínu tilfelli þriðja barnið. Og maður eiginlega var pínu í blakkáti að þrauka, að þrauka dagana. Ég hugsaði að þetta væri tímabil og að ég myndi komast í gegnum þetta, að þetta yrði auðveldara á endanum.“
Sem það var. Fanney segir að fyrstu tvö til þrjú árin hafi verið mjög erfið, en það hafi líka hjálpað að hún hóf mikilvæga sjálfsvinnu.
„Ég var farin að vinna í hausnum mínum ári eftir að yngsta mín fæddist. Bíddu, hver er ég? Ég var búin að týna sjálfri mér alveg,“ segir hún.
„Þarna var ég búin að vera í eiginlega þrjú ár í fæðingarorlofi, það var búið að vera Covid […] þannig þetta var mjög erfitt. Ég fann að ég þyrfti núna að staldra aðeins við og hugsa hvað vil ég, hver er ég. Ég var búin að vera í einhverju hamstrahjóli eða þannig, svolítið að sökkva, vissi ekki alveg hvert ég væri að stefna, hvað ég vildi gera og búin að vera í þessu fæðingarorlofi allt of lengi og setja þarfir allra annara í forgang en mínar eigin.“
Fanney ræðir nánar um sjálfsvinnuna og þetta tímabil í spilaranum hér að ofan. Brotið er hluti af nýjasta þætti af Fókus sem má horfa á í heild sinni hér eða hlusta á Spotify.