Bandaríski kvikmyndaleikstjórinn og framleiðandinn Michael Bay hyggst gera bíómynd um Skibidi Toilet. Skibidi Toilet er stórundarleg netsería sem fjallar um stríð mannshöfða í klósettum.
Tilkynnt hefur verið að kvikmynd um Skibidi Toilet sé nú komin í framleiðslu. Mun Michael Bay leikstýra verkefninu.
Michael Bay, sem er sextugur að aldri, er þekktur fyrir yfirdrifnar hasarmyndir á borð við Bad Boys, The Rock, Armageddon og Transformers. Yfirleitt eru kvikmyndir hans á meðal þeirra tekjuhæstu á hverju ári.
Skibidi Toilet er stórundarleg sería á Youtube sem maður að nafni Alexey Gerasimov gerði og birti á rásinni DaFuq?!Boom! Í henni er fylgst með stríði á milli klósetta með mannshöfuð og mannlegra persóna með raftæki fyrir höfuð. Hefur þetta ratað inn í slangurorðaforða yngri kynslóðarinnar.
Michael Bay er þekktur fyrir stórar sprengingar og miklar tæknibrellur í kvikmyndum sínum og má ekki búast við neinu öðru þegar kemur að þessu verkefni. Hefur hann fengið til liðs við sig óskarsverðlaunaðan tæknibrellumeistara að nafni Rob Legato sem gerði brellurnar í Titanic og Avatar.