fbpx
Fimmtudagur 01.maí 2025
Fókus

Ræddi við meðlimi íslenska furry-samfélagsins og lærði mikið – „Bara venjulegt fólk með skemmtilegt áhugamál“

Fókus
Miðvikudaginn 30. apríl 2025 19:30

Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jóhanna Jódís Antonsdóttir er þjóðfræðinemi. Hún segir heillandi hluta af náminu vera hvernig þjóðfræðingar nálgast viðfangsefni sín, en það gera þeir gjarnan með því að tala beint við fólk frekar en að rýna gögn á blaði, til dæmis með því að taka djúpviðtöl. Þegar Jódís frétti af því að á Íslandi má finna samfélag svokallaðra „furries“ fannst henni hún þurfa að rannsaka þann hóp nánar og varð hún svo heppin að fá að taka viðtal við nokkra meðlimi og lærði mikið. Hún hefur nú skrifað grein um málið sem birtist hjá Vísi í dag.

Fyrir þá sem ekki vita hvað furry-fyrirbærið er þá er því lýst sem áhugamáli sem felst í persónugervingu dýra og hlutverkaleik. Þetta snýst í kjarnann um listræna tjáningu og hæfileika.

Jóhanna skrifar: „Það sem ég fann út er að þetta er bara venjulegt fólk með skemmtilegt áhugamál. Það er mikilvægt að auka þekkingu á hópnum og þess vegna langar mig að kynna ykkur aðeins fyrir honum.“

Hún segir að margir meðlimir þessa hóps séu listamenn, rithöfundar eða tölvuleikja- og hlutverkaleikjaspilarar.

„Það sem einkennir „furry“ – hópinn mest er manngerving dýra, og að taka að sér hlutverk dýrslegrar persónu, eða „fursónu“, en nafnið er dregið af orðunum furry og persóna. Getur þetta komið fram í list, hlutverkaleikjum og annars konar performans. Margir af meðlimum furry-samfélagsins búa til, eða fá einhvern annan til að búa til, búning í mynd fursónu sinnar.“

Stór hluti af þessu samfélagi er fólk sem hefur upplifað sig utangarðs. Þetta getur verið hinsegin fólk eða skynsegin fólk og þetta áhugamál getur hjálpað við að byggja upp sjálfstraust.

Það er mikil vinna sem fer í að útbúa búning sem gjarnan er kallaður fursuit.

„Algengt er að nota frauðplast til að móta höfuðkúpuna og síðan límband til að búa til búkinn, en einnig er hægt að nota önnur efni eins og trefjaplast. Eftir að formin hafa verið búin til er loðfeldurinn annaðhvort límdur eða saumaður á. Í gerð höfuðsins þarf einnig að gæta þess að augnholur séu til staðar. Það þýðir ekkert að labba um í blindni þótt sætur sé. Algengast er að augnholurnar séu þar sem augun á grímunni eru, eða í gegnum nasaholurnar.“

Búningarnir geta þó verið bæði plássfrekir og dýrir. Það eru því ekki allir furries sem eiga sinn eigin. Jóhanna segir að búningurinn sé eitt stærsta tákn samfélagsins.

„Þegar fólk er beðið um að ímynda sér hvernig furry einstaklingur lítur út þá er búningurinn yfirleitt það fyrsta sem dúkkar upp í kollinum á þeim. En ekki eiga allir furries svona búning, enda fer mikil vinna og peningur í hönnun og viðhald. Það er því ekki nauðsynlegt fyrir furries að eiga slíkan mun til að geta talist meðlimir hópsins. Það eina sem þarf er að hafa gaman af list þar sem mannleg dýr eru í fararbroddi. Þetta er skemmtilegur hópur, sem ég hvet öll sem hafa áhuga til að kynna sér.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt