fbpx
Miðvikudagur 19.mars 2025
Fókus

Hjálmar ræðir um aðdraganda hjartaáfallsins – „Þetta var svo mikill sársauki að mig langaði bara út úr líkamanum“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Föstudaginn 7. mars 2025 10:04

Hjálmar Örn Jóhannsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Grínistinn og skemmtikrafturinn Hjálmar Örn Jóhannsson, 51 árs, fékk hjartaáfall síðastliðinn laugardag. Hann greindi fyrst frá því á sunnudaginn en fer nánar út í saumana í nýjasta þætti af hlaðvarpinu Hæ hæ – Ævintýri Helga og Hjálmars og segir frá aðdragandanum.

Hjálmar hafði verið að glíma við slæman verk í öxlinni fyrir hjartaáfallið, sem hann segir ekki tengjast. Daginn fyrir hjartaáfallið var hann hress, en smá orkulaus og illt í öxlinni. Hann fór að skemmta um kvöldið „Og það var smá slen í mér, en það hefur oft gerst,“ segir hann.

Hjálmar segir að hann hafi farið snemma að sofa umrætt kvöld og tekið inn bólgueyðandi lyf út af öxlinni fyrir svefninn.

„Ég vakna ógeðslega skringilega“

„Svo vakna ég á laugardagsmorgninum 1. mars og maður hefur heyrt þetta svo oft… en ég vakna ógeðslega skringilega,“ segir Hjálmar.

„En svo hristir maður þetta bara af sér. Ég ákvað svo að fá mér að borða og taka eina töflu um morguninn.“

Hjálmar hafði fengið bólgueyðandi töflurnar uppáskrifaðar frá lækni og hafði til þessa alltaf tekið eina töflu fyrir svefninn en þarna ákvað hann að taka eina um morguninn og ætlaði svo að taka inn aðra um kvöldið. „Því ég gat ekkert sofið út af öxlinni,“ segir hann.

„Síðan fór ég með Loga á fótboltaæfingu, ekkert vesen. Var nokkuð hress. Síðan kom ég heim um tvö leytið.“

„Þetta var svo mikill sársauki að mig langaði bara út úr líkamanum“

Hjálmar segir frá því hvernig hann kom inn heima og fann lyktina af bananabrauði sem Ljósbrá konan hans hafði bakað. Hjálmar er yfirleitt ekki mikið fyrir bananabrauð en ákvað að smakka smá bita.

„Ég sker lítinn bita, fæ mér hann og hugsa: „Nú er enski boltinn að byrja, ætla að horfa á enska. Svo er ég að fara að vinna um kvöldið.“ Ég fæ mér bitann og svo er ég búinn að vera í smástund, þá finn ég svona… ég náði ekki andanum. Eins og ég væri með geðsjúkan brjóstsviða, þetta var svo skrýtið og svo varð þetta verra og verra.“

Hjálmar segir að á þessum tíma hafi Ljósbrá verið á leiðinni út úr húsi. „Ég segi við hana: „Nei, heyrðu þetta er eitthvað skrýtið, ekki fara.“ Þetta var svo mikill sársauki að mig langaði bara út úr líkamanum,“ segir hann.

„Ég var nánast öskrandi en ég gat ekki öskrað því þetta var svo mikill sársauki […] Ég segi við Ljósu: „Hringdu á sjúkrabíl, þetta er eitthvað skrýtið.“

Krakkarnir fóru til nágrannans á meðan Hjálmar og Ljósa biðu eftir sjúkrabíl. „Sársaukinn varð alltaf meiri og meiri,“ segir hann og bætir við að hjartaáfallið hafi ekki verið eins og það er sýnt í bíómyndum.

„Bara stanslaus verkur, ógeðslega mikill verkur. Svo mikill að maður gat ekki fókusað. Svo var ég orðinn ískaldur, kófsveittur.“

Týpískt að deyja þegar enski boltinn var að byrja

Sjúkraflutningamennirnir reyndu að slá á sársauka Hjálmars en ekkert gekk, ekki einu sinni sterkt verkjalyf, fentanýl, í æð. Þá var ákveðið að fara upp á spítala.

„Um leið og ég kem inn á bráðavaktin […] þá sé ég að klukkan er akkúrat þrjú, það er fyrsta sem ég sé, og heilagasti tími dagsins hjá mér er þrjú á laugardögum [út af enska boltanum]. Þá hugsaði ég: „Já, auðvitað ferð þú klukkan þrjú á laugardegi.“

„Verkurinn var svo mikill að ég vissi að þetta væri eitthvað óeðlilegt.“

Það voru framkvæmdar alls konar rannsóknir og var Hjálmar að lokum sendur í þræðingu. Hann segir lækninn hafa sagt að hjartaáfallið hafi ekki verið tengt stressi heldur mataræði og hreyfingarleysi.

Hjálmar ræðir nánar um tímann á sjúkrahúsinu í spilaranum hér að neðan. Hann segist mjög þakklátur heilbrigðisstarfsfólkinu fyrir fagmennsku og kærleik.

Hjálmar ræðir nánar um þetta í þættinum sem má hlusta á hér að neðan.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Bryndís sá ógleymanlega sýningu í Borgarleikhúsinu – „Gekk út með tárin í augunum“

Bryndís sá ógleymanlega sýningu í Borgarleikhúsinu – „Gekk út með tárin í augunum“
Fókus
Í gær

Gerir þú þetta í samböndum? – Ragnhildur segir það geta leitt til kulnunar og svefnleysis

Gerir þú þetta í samböndum? – Ragnhildur segir það geta leitt til kulnunar og svefnleysis