

Sjónvarpsstjarnan Susannah Constantine er ekki hrifin af Andrési Mountbatten-Windsor, fyrrum Bretaprins, en Susannah kynntist honum lítillega á árum áður þegar hún átti í ástarsambandi við meðlim konungsfjölskyldunnar.
Fyrrverandi kærasti Susannah er David Armstrong-Jones. Hann er jarl og sonur Margrétar prinsessu sem var yngri systir Elísabetar Bretadrottningar.
Andrés hefur nú verið á milli tannanna hjá Bretum vegna tengsla sinna við níðinginn Jeffrey Epstein og hefur nú verið sviptur konunglegum titlum sínum.
Susannah ræddi við hlaðvarpið Spooning With Mark Wogan um samband sitt við jarlinn, en þau eru enn vinir í dag. Hún játaði að hafa varið smá tíma með fjölskyldu jarlsins, þar með talið Andrési. Þáttastjórnandi spurði þá hvort Andrés væri mögulega misskilinn.
Sjónvarpsstjarnan hélt nú ekki og var ómyrk í máli þegar hún sagði:
„Að mínu auðmjúka mati er hann fáfróður, frekur og heimskur einstaklingur sem telur að heimurinn skuldi honum greiða og að hann sé yfir lög og afleiðingar hafinn. Fyrir mér er svona tilætlunarsemi það versta í fari manneskju, svo já, ég er enginn aðdáandi hans.“
Hún bætir þó við að það hafi líklega ekki verið auðvelt að alast upp í skugga krónprinsins, Karls Bretakonungs.
„Hann hafði engan tilgang. Eini tilganginn sem hann hafði fékk hann ekki að velja sjálfur. Fyrir þannig mann, sem fæðist inn í gífurlegt ríkidæmi, með gífurleg forréttindi, hvaða rými hefur hann til að láta drauma sína rætast?“
Eins bætti Susannah við að dætur Andrésar, prinsessurnar Beatrice og Eugenie, væru efnilegar. Þær væru skynsamar og heillandi ungar konur.
„Til þess að þær yrðu þannig hljóta foreldrar þeirra að vera stórkostlegir að einhverju leyti því þau stóðu sig í stykkinu með uppeldi dætra sinna.“