

Dreyfuss hefur um langt skeið verið einn þekktasti leikari Bandaríkjanna og hlaut hann Óskarinn fyrir besta leik í aðalhlutverki á Óskarsverðlaunahátíðinni 1978 fyrir myndina The Goodbye Girl. Þá var hann tilnefndur árið 1996 fyrir myndina Mr. Holland‘s Opus.
Sonur leikarans, Ben Dreyfuss, hefur nú stigið fram á samfélagsmiðlum og á Substack til að lýsa því hvernig samskiptin hafa verið síðustu ár og hvernig ágreiningur sem tengdist MeToo-byltingunni olli gjá innan fjölskyldunnar.
Ben, sem er 39 ára og fyrrverandi blaðamaður hjá Mother Jones, sagði í færslu á X í síðustu viku að hann og systkini hans, Emily og Harry, tali ekki lengur við föður sinn í kjölfar atviks sem átti sér stað fyrir nokkrum árum.
„Allir gera ráð fyrir því að við systkinin séum rík af peningum frá pabba, og okkur finnst ekkert sérstaklega þægilegt að tjá okkur um það en staðreyndin er sú að við eigum enga peninga í gegnum pabba,“ skrifaði Ben í færslu þann 13. nóvember síðastliðinn, en henni hefur nú verið eytt.
„Pabbi á enga peninga. Ef hann ætti þá fengjum við þá ekki, því við höfum ekki verið í samskiptum síðan eftir flókið fjölskyldudrama tengt MeToo.“
Ben tengdi ágreininginn við árið 2017 þegar yngri bróðir hans, Harry, birti grein á BuzzFeed þar sem hann lýsti kynferðislegri áreitni af hálfu leikarans Kevin Spacey – ásökunum sem Spacey neitaði.
Ben sagði að hann hafi birt stuðningsyfirlýsingu við Harry á Twitter-reikningi föðurins – og að í kjölfarið hafi kona komið fram með ásakanir gegn Richard Dreyfuss sjálfum. „Hann kennir okkur um það,“ sagði Ben.
Í færslu á Substack birti Ben jafnframt síðustu tölvupóstsamskipti sem hann átti við föður sinn, en þau samskipti áttu sér stað eftir erfiðan fjölskyldufund í San Francisco árið 2022.
Þar svaraði leikarinn í hástöfum, orðrétt:
„AT LEAST KEEP THIS ONE LETTER. IT’LL BE THE LAST ONE UNLESS YOU STOP BEING A COWARD. OR START BEING BETTER THAN YOUR BROTHER OR SISTER.“
Ben sagði í lok færslunnar að hann elski föður sinn enn: „Ég elska föður minn. Ég hef alltaf elskað hann. Ég held að hann sé betri en þessi tölvupóstur.“
Systir hans, Emily Dreyfuss, 42 ára, tjáði sig einnig á X: „Frá því við fjarlægðumst pabba hefur verið nær ómögulegt fyrir mig að skrifa,“ sagði hún og bætti við: „Ben og ég eigum ólíka reynslu af þessari sorg, en það er mér léttir að þetta sé loks komið upp á yfirborðið.“