Anna Guðný Baldursdóttir, hárgreiðslukona og bóndi úr Bárðardal, lagði af stað í morgun í eina erfiðustu og lengstu kappreið veraldar, Mongol Derby. Eins og nafnið gefur til kynna fer kappreiðin fram í Mongolíu en þeir sem klára keppnina munu hafa lagt að baki um 1.000 kílómetra leið, sem er aðeins rúmum 300 kílómetrum skemur en hringvegurinn í kringum Ísland.
„Ég er mjög spennt fyrir því að fara af stað, vonandi næ ég bara að sofa í nótt,“ sagði Anna Guðný í samtali við DV kvöldið fyrir keppni.
Eftirvæntingin er skiljanleg enda hefur aðdragandinn verið langur. Anna Guðný sótti um þátttöku í kappreiðunum í ár um jólin 2022 en umsóknarferlið er langt og strangt. Þá var hún gift, tveggja barna móðir sem auk þess að sinna búskap starfaði sem hárgreiðslukona í hlutastarfi. Hjónabandið rann sitt skeið í millitíðinni en þegar að jákvætt svar barst varðandi þátttökuna í kappreiðunum kom ekki annað til greina en að láta slag standa.
Anna Guðný hefur aldrei tekið þátt í keppni sem þessari og rennir því að einhverju leyti blint í sjóinn. Hún hefur hins vegar notið góðs af ráðlegginum Anítu Aradóttir, sem tók þátt í kappreiðunum árið 2014, fyrst Íslendinga.
Hún segist vera undirbúin fyrir það að keppnin muni reyna gríðarlega á líkama og sál en keppendur fá aðeins takmarkaða aðstoð frá skipuleggjendum. Keppnisleiðin er aðeins merkt stikum á 35 kílómetra fresti og mega keppendur aðeins hafa fimm kílógramma bakpoka með sér. Svo eiga þeir að redda sér sjálfir varðandi mat og gistingu hjá hirðingjum á leiðinni.
Það sem Anna Guðný býr hins vegar að er gríðarleg reynsla af íslenska hestinum, sem svipar mjög til þess mongólska. Hún hefur setið á hestbaki frá blautu barnsbeini, rekið hestaleigu og skipulagt reiðnámskeið sem og lengri og skemmri útreiðatúra.
Anna Guðný kom til Mongolíu tæpri viku fyrir keppnina og hafa dagarnir farið í að kynna sér aðstæður og undirbúa sig fyrir keppnina. Hafa keppendur fengið að prófa hestana sem þeir koma til með að sitja. Keppendur munu skipta ört um hesta á leiðinni og mun það hafa talsverð áhrif á keppnina hvernig hest keppendur fá úthlutað.
„Það hefur gengið ágætlega og verið áhugavert. Það hafa eru einhverjir keppendur sem hafa fengið flugferðir fyrstu dagana. Ég heyri það hér að við erum að fá að prófa rólega hesta til að byrja með þannig að ótemjurnar bíða kannski síðar á leiðinni,“ segir Anna Guðný kímin.
Mikil áhersla er lögð á velferð hestanna á meðan keppni stendur. Við hverja stöð, þar sem keppendur skipta um hesta, er púls þeirra mældur og ef hann er ekki kominn niður fyrir 56 slög á mínútu eftir hálftíma stopp þá fá þátttakendur tímarefsingar. Gerist það ítrekað er keppendum vísað úr keppni.
„Það er verið tryggja að það sé ekki gengið fram af hestunum og þeir sem það gera lenda strax í vandræðum,“ segir Anna Guðný. Þá eru hestarnir einnig skoðaðir í bak og fyrir og ef á þeim sjást sár eða skrámur, þá getur það líka leitt af sér tímarefsingar og mögulega brottvikningu úr keppninni.
Alls taka 46 keppendur þátt í kappreiðunum, víðs vegar að. Heimamenn taka þó ekki þátt, það gerðu þeir fyrst eftir að kappreiðarnar hófust árið 2009 og unnu þeir auðveldlega á heimavelli. Anna Guðný hefur aðeins náð að kynnast keppendum síðustu daga og segir að andinn sé góður.
„Ég upplifi alla vinalega og hjálplega en svo gæti það breyst,“ segir hún og hlær. Hún hafi kynnst tveimur konum frá Bretlandi og Bandaríkjunum vel og segir þær hafa rætt það að fylgjast að, að minnsta kosti fyrst um sinn, í keppninni.
„Það verður örugglega ekkert gefið eftir samt. Hingað er til dæmis mætt hin breska Anna Boden en hún sigraði í Gaucho Derby, sem eru sambærilegar kappreiðar um Patagóníu, og hún ætlar eflaust að verða fyrst til þess að sigra báðar þessar keppnir,“ segir Anna Guðný.
Til að tryggja heiðarlega keppni eru þó ýmsar reglur til staðar, til að mynda ef keppandi dettur af baki eða slasar sig með einhverjum hætti þá verða aðrir keppendur, sem eiga leið hjá, að stoppa, hlúa að viðkomandi og láta skipuleggjendur vita. Allir keppendur eru með GPS-staðsetningartæki og því sést greinilega ef einhverjir ríða fram hjá öðrum keppanda sem er lentu í ógöngum.
Anna Guðný ætlar eins og kostur er að uppfæra Instagram-síðu sína á meðan keppni stendur en þó er óvíst með öllu hvort að eitthvað netsamband náist.
View this post on Instagram
Þá verður hægt að fylgjast með henni á heimasíðu keppningar, Mongol Derby, en þar má sjá stöðuna í rauntíma.
Anna Guðný fjármagnaði ferðina að hluta í gegnum Karolina Fund og hafa viðtökurnar farið fram úr hennar björtustu vonum. „Ég setti markmiðið á 2 milljónir sem er um 50% af kostnaðinum við þátttökuna. Ég er komin yfir það, sem er alveg frábært, en ég ætla að leyfa söfnunina að vera í gangi áfram á meðan keppninni stendur,“ segir Anna Guðný.