Flugfreyjan Danielle Styron fékk draumavinnuna sína árið 2015 þegar hún var ráðin sem flugfreyja um borð í einkaþotu. Launin voru góð og starfinu fylgdu fríðindi á borð við ferðalög til lúxushótela. Þetta var eiginlega of gott til að vera satt og sú reyndist raunin.
Fyrst bauðst Styron starf um borð í einkaþotu auðugs manns sem lifði tvöföldu lífi. Hann varði helmingi mánaðar með fjölskyldu sinni en hinum helmingnum með hjákonum sínum. Flugmaður vélarinnar tilkynnti Styron að þegar hjákonurnar væru í fluginu væri mikið stuð um borð í vélinni sem jafnvel þróaðist út í kynsvall. Ekki væri ætlast til þess að Styron sængaði hjá hjákonunum, en það væri ætlast til þess að hún tæki þátt í gleðinni. Flugmaðurinn tók fram að svona ferðir væru aðeins um einu sinni í mánuði sem ætti ekki að vera of erfitt fyrir hana.
Styron segir í endurminningum sínum, The Mile High Club: Confessions of a Private Jat Flight Attendant, að hún hafi afþakkað starfið. Hún endaði þó með að vinna fyrir þó nokkra erfiða einstaklinga. Hún lýsir sumum þeirra sem „vansælum blóðsugum mannlegrar gleði“. Hún segir að einn farþegi hafi skammað hana fyrir að vera ekki með rétta tequilað um borð, jafnvel þó að engin beiðni hafi borist fyrirfram um að tiltekið áfengi ætti að vera til taks. Einn aðstoðarmaður hótaði að kýla hana í andlitið fyrir að hafa ekki hitað samloku nægilega vel.
Ein kona brást við ókyrrð í lofti með því að hrinda Styron og skamma hana fyrir að hafa hrætt hundinn sinn. „Hún kom betur fram við hundana en fólkið um borð.“
Erfiðast hafi verið þegar einn farþegi bað hana um að redda kampavíni frá hitabeltiseyjunni St. Maarten eftir að eyjan hafði gengið í gegnum hörmungar vegna fellibyls.
„Ég stóð bara og hugsaði, það er ekkert kamavín. Það var bara fellibylur. Fólk stendur fyrir utan heimili sín og bíður eftir brauði og þú ert að biðja mig um að eyða 2,5 milljónum í búbblur?“
Aðeins ein matvöruverslun var opin á eyjunni og þangað þurfti Styron að leggja leið sína, í miðjum hörmungum, til að sækja kampavín.
Hún segir að það hafi eins verið erfitt að verða vitni að framhjáhaldi. Einn maður hafi flogið með óléttri eiginkonu sinni einn daginn og svo aftur með hjákonu sinni nokkrum dögum síðar.
„Sem kona var sárt að taka þátt í slíku. Jafnvel þó ég hefði ekkert val. Hvað átti ég að gera? Kollvarpa lífi mínu til að segja: Hey, maðurinn þinn er að halda framhjá þér? Hún vissi enda líklega af þessu.“
Kynlíf í háloftunum var algengt. Þá átti áhöfnin að láta lítið fyrir sér fara þar til samræðinu lauk og mæta svo með skúringagræjurnar til að hreinsa upp svita og vessa. Þar sem um einkaþotu var að ræða fór kynlífð ekki alltaf fram á bak við luktar dyr salernisins heldur í sætum, sófum eða á gólfi. „Þetta er þeirra hús, er það ekki? Einkaþotur eru eins og fljúgandi stofur.“
Starfið var þó ekki alsæmt. Stundum fékk hún tækifæri til að skella sér út á lífið með áhöfninni á stöðum á borð við Las Vegas, hún gat slakað á í lúxushótelum á Costa Rica og á skíðaskálum í Aspen.
Hún segir þó að slæmu stundirnar hafi verið fleiri en þær góðu.
„Þú heldur að þetta fólk hafi allt sem það þráir en ég sá það gagnstæða. Þau eru mjög óörugg,“ sagði Styron og útskýrir að sama hversu mikið fólkið átti af hlutum og peningum þá hafði það alltaf eitthvað að kvarta yfir. Einn maður átti nokkrar einkaþotur, gullfallega konu og í raun allt sem hugurinn gæti girnst. Það eina sem komst að hjá honum var samt skallinn hans og hvort hann gæti losað sig við hann með því að gangast undir hárígræðslu. Eins tók hún eftir því að þetta fólk átti oftast í yfirborðskenndum vinasamböndum. Þar voru ekki innileg og innihaldrík vinasamtök heldur snerist allt um meting.
Styron vinnur sem snyrtifræðingur í dag og segist ekki sakna háloftanna.