Hjónin og atvinnudansararnir Derek Hough og Hayley Erbert, eiga von á sínu fyrsta barni saman.
Tilkynntu þau gleðitíðindin með myndbandi á Instagram í dag.
Í myndbandinu gengur Hough að konu sinni og þau faðmast á sólríkum degi. Þegar þau faðmast sýnir Erbert fylgjendum þeirra sónarmyndir.
„Við trúum ekki að það stærsta sem getur komið fyrir okkur geti verið svona lítið ♥️,“ skrifa þau í myndatexta.
View this post on Instagram
Ár er síðan hjónin heimsóttu Ísland og skemmtu sér konunglega eins og sjá mátti á fjölmörgum myndum frá heimsókninni.
Sjá einnig: Heimsþekkt danshjón á Íslandi
Hjónin giftu sig í ágúst 2023 í Monterey-sýslu í Kaliforníu eftir sjö ára samband.
Derek er dansari, danshöfundur, leikari og söngvari. Árin 2007-2016 dansaði hann sem atvinnudansari í Dancing with the Stars og á met í vinningi þar ásamt stjörnumeðdönsurum sínum. Árið 2020 kom hann inn sem dómari í þáttunum. Hann hefur hlotið 14 tilnefningar til Emmy verðlauna og unnið sex sinnum. Derek hefur komið margoft fram á sviði, í kvikmyndum, sjónvarpsþáttum og tónlistarmyndböndum.
Líkt og eiginmaðurinn þá hefur Hayley dansað frá barnsaldri. Í menntaskóla komst hún í þriðja sæti í þáttunum So You Think You Can Dance. Hún hefur komið fram í fjölda þátta og kvikmynda og meðal annars dansað með stjörnum eins og Paula Abdul, Pitbull og Carrie Underwood. Hún dansaði með Derek og systur hans, Julianne, í tveimur danssýninum þeirra árin 2014 og 2015, auk þess að vera hluti af hópnum í Dancing with the Stars: Live! sýningunum.
Í september 2024 greindi Hough frá því í viðtali við E! News að þau vildu eignast börn. „Við viljum klárlega stofna fjölskyldu. Við sjáum hvað gerist, hvað er í vændum. Lítil dansandi börn hlaupandi um.“