Þegar við hugsum um líf okkar erum við ómeðvitað alltaf að glæða það tilgangi og við erum sífellt að glíma við tímann og gleymskuna. Við getum aldrei munað fortíðina fullkomlega eins og hún var heldur lögum hana að sögu sem við spinnum um okkur sjálf.
Skáldskapur fjallar oft um tímann og þegar hann gerir það vel er hann að minnsta kosti jafnheilandi og heimsins bestu sjálfshjálparbækur. Þessar tvær ólíku bækur sem ég drep á hér eiga margt sameiginlegt og í báðum er tekist á við fortíðina, hið liðna gætt lífi og skilningi. Báðar eru sjálfsævisögulegar, svokallaðar sannsögur, þar sem sannir atburðir eru teknir skáldskapartökum. „Atburðurinn“ er eftir franska Nóbelsverðlaunahöfunduinn Annie Ernaux. Þar tekst hún á við minningar frá unglingsárum er hún varð þunguð og sá enga lausn á vandanum aðra en þá að gangast undir þungunarrof. Árið er 1963 og þungunarrof er hvarvetna bannað en framkvæmt ólöglega í hinum ýmsu skúmaskotum. Ernaux veitir einstaka innsýn í þá angist og utangarðstilfinningu sem þetta hlutskipti vekur ungu stúlkunni, og rekur þrautagöngu hennar á milli lækna og skottulækna.
Inni á milli talar hún til okkar frá samtímanum (eða ritunartíma sögunnar, sem er í kringum síðustu aldamót) og slík uppbrot á frásögninni skerpa hana. Stundum veltir hún því fyrir sér hvort hún muni tiltekna atburði og staði rétt, alveg eins og við gerum sjálf reglulega þegar minningarnar leita á hugann.
„Atburðurinn“ er mjög áhrifarík lesning sem tæpast er hægt að mæla nógsamlega með. Þýðandinn er Ólöf Þórhildur Ólafsdóttir, sem státar af doktorsprófi í frönskum bókmennntum og starfsferli sem háskólakennari í frönsku. Ég veit ekkert um frumtexta bókarinnar en Ólöf hefur skilað af sér afskaplega fáguðum, beinskeyttum og liprum texta í þýðingunni.
Hin bókin sem ég vildi minnast á er síðan Þórhildar sjálfrar, „Með minnið á heilanum – frásagnir úr fjarlægum bernskuheimi.“ Í lifandi og næmum minningarbrotum lýsir hún sveitalífi á Íslandi um miðja síðustu öld frá sjónarhorni barns. Um leið og hún varðveitir þar augnablik úr eigin bernsku gæðir hún lífi horfinn heim sem þó er fremur nálægur í tíma, og varðveitir hluta af sögu þjóðarinnar. Þessi djúpa og fallega bernskusaga er allra athygli verð og er hin notalegasta lesning.
Útgefandi beggja bókanna er Ugla.