Óhætt er að segja að yfirvöld, sem og almenningur, í Bandaríkjunum og Bretlandi hafi verið uggandi yfir dularfullum flygildum sem fóru að sjást á sveimi í nóvember á síðasta ári. Enginn veit nákvæmlega til þessa hver uppruni þeirra er. Vonir standa til að Donald Trump Bandaríkjaforseti muni fljótlega veita einhver svör en hann hafði áður lofað að upplýsa almenning um málið um leið og hann tæki við embætti. Einhverjar stofnanir Bandaríkjanna sem og embættismenn hafa þó gert lítið úr þessari meintu ráðgátu og segja að málið megi rekja til múgæsings. Fólk sé í raun að sjá flugvélar, þyrlur og venjulega dróna. En það eru ekki allir sannfærðir.
Bæjarstjórinn í Belleville, New Jersey, hefur verið áberandi í umræðunni og deilt fjölda myndskeiða á samfélagsmiðlum sem virðast sýna glóandi hnetti á himninum. Michael Melham sagði við fjölmiðla á dögunum að hann bíði enn svara um hvað sé í rauninni að fljúga yfir heimili íbúa í New Jersey á nóttunni. Hann telur líklegt að flygildin séu bandarísk að uppruna. Líklega sé þarna um að ræða verkefni á vegum hins opinbera.
2of2. As mentioned in my NewsNation interview, (IG@ OurStrangeSkies) from Long Island whereby 100s can be seen nightly.
Appears to show glowing orbs turning into drones. Verified not to be planes via flight tracker. They hover. Glow. Then move.@HeyLukOverThere @UAPJames pic.twitter.com/3teFfTCArp
— Michael Melham (@michaelmelham) January 23, 2025
Þar sem engin svör hafa fengist til þessa hafa að sjálfsögðu hinar ýmsu samsæriskenningar farið á kreik. Flygildin voru einmitt viðfangsefnið í nýjasta þætti félaganna í hlaðvarpinu Álhattinum, en þeir velta fyrir sér hvaðan þessir dularfullu furðuhlutir koma og hvort þeir séu mögulega leynivopn sem hulduöflin nota til að blekkja og stjórna.
Álhattar segja í lýsingu þáttarins:
„Risastór, hátæknileg og afar hljóðlát flygildi (drónar) hafa sést á vappi um Bandaríkin og víðar að undanförnu og vakið undran margra. Hvaðan koma þessir drónadónar og hvað vilja þeir upp á dekk? Eru geimverurnar loksins mættar til þess að fylgjast með okkur og gera á okkur umfangsmiklar tilraunir? Eða eru Kínverjar og aðrar óvinveittar þjóðir að prakkarast og grallarast með því að njósna um Bandaríkin til þess að komast yfir hernaðarleyndarmál og hávísindalega framtíðartækni?
Drónarnir hafa flestir sést í og við bandarískar herstöðvar og orkuver, sem gæti bent til þess að drónarnir séu að fylgjast sérstaklega með herstöðvum og leita uppi hernaðarleg gögn eða leynilega tækni sem Bandaríkin vinna að. En gætu þessi ógnarstóru fljúgandi fyrirbæri átt heima á herstöðvunum og verið á vegum bandarískra yfirvalda? Hvað ef flýgildin eru hönnuð til þess að fylgjast með almenningi? Þá hefur heyrst að bandarísk yfirvöld hafi tekið að sér að varðveita úkraínskan kjarnaodd en síðar týnt honum og drónadónarnir séu á sveimi í leit að þessum kjarnaoddi.“
„Önnur skýring er að þarna séu kínverskir njósnadrónar á ferð og hefur það verið rökstutt með því að drónarnir sjáist oft á sveimi nálægt bóndabýlum og ræktarlandi í eigu kínverskra fyrirtækja. Einhverjir vilja meina að drónarnir komi upp úr sjónum og að á hafsbotni séu risastórar og hátæknilegar herstöðvar Kínverja. Aðrir trúa nokkurn veginn því sama nema segja herstöðvarnar og drónadónana vera á vegum Írana eða jafnvel Rússa. Hvað sem því líður og hvaðan sem þessi flýgildi og drónadónar koma þá er morgunljóst að eitthvað verulega bogið er við þetta mál. Drónadónarnir eru svo margir og svo mikið á víð og dreif um heiminn að það er eiginlega ekki hægt að útskýra þá.
Jafnvel þó að allir miðaldra karlmenn í heiminum hefðu ákveðið að fá drónaæði á sama tíma gætum við ekki útskýrt þessa miklu fjölgun. Enda eru þessir drónadónar langtum stærri en hefðbundnir drónar sem eru aðgengilegir almenningi á almennum markaði og töluvert hljóðlátari en nokkuð sem sést hefur áður. Jafnvel stærstu iðnaðardrónar sem Amazon og fleiri nota til þess að afhenda vörur eru ekki svo stórir. Hver er skýringin?
Þetta er einmitt viðfangsefni nýjasta þáttarins af Álhattinum, hvar þeir félagar Guðjón Heiðar, Haukur Ísbjörn og Ómar Þór velta fyrir sér þeirri áhugaverðu samsæriskenningu að „Risa drónarnir sem svífa um Bandaríkin og víðar séu leynivopn hulduafla til að blekkja og stjórna okkur.““