fbpx
Laugardagur 18.maí 2024
Fókus

Faðir Olgu var einn þekktasti læknamiðill landsins – „Hann vissi allt“

Svava Jónsdóttir
Laugardaginn 13. apríl 2024 09:00

Olga Marta Einarsdóttir og faðir hennar, Einar Jónsson á Einarsstöðum

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Olga Marta Einarsdóttir býr ásamt fjölskyldu sinni á æskuheimili sínu, bænum Einarsstöðum í Reykjadal í Suður-Þingeyjarsýslu. Margir hafa heyrt um föður hennar, Einar heitinn læknamiðil: Einar á Einarsstöðum. Og margir hringdu í hann eða hittu hann á Einarsstöðum og báðu um aðstoð að handan. Einar heitinn, sem sá og skynjaði meira en gengur og gerist, var hlédrægur maður með húmor.

Olga Marta Einarsdóttir er dóttir hjónanna Einars Jónssonar, sem margir þekkja sem Einar læknamiðil á Einarsstöðum, og Erlu Ingileifar Björnsdóttur sem var frá Reykjavík. Erla Ingileif átti þrjár dætur af fyrra hjónabandi og flutti sú yngsta þeirra, Hjördís, með móður sinni norður og var hún átta ára þegar Olga Marta fæddist. Guðfinna, miðsystirin, giftist síðar bróðursyni Einars og er búsett á Einarsstöðum 2.

Aðstoðaði fólk með hjálp að handan

Jú, Einar á Einarsstöðum var þekktur læknamiðill og segja margir að hann hafi aðstoðað þá með hjálp að handan. Hér má minnast á bókina Miðilshendur Einars á Einarsstöðum eftir Erling Davíðsson sem kom út árið 1979 og í þessari grein eru tekin nokkur dæmi úr bókinni.

Olga Marta þekkti náttúrlega ekkert annað en að faðir hennar skynjaði meira heldur en aðrir og að fjöldi ókunnugra kom til hans til að fá aðstoð. Einar var 54 ára þegar einkadóttirin fæddist og bjó félagsbúi á Einarsstöðum ásamt systkinum sínum.

„Við mamma og pabbi og systir mín bjuggum á efri hæðinni á Einarsstöðum en amma mín og tveir föðurbræður bjuggu á neðri hæðinni sem og ein föðursystir mín. Amma dó þegar ég var á tíunda ári og föðursystir mín flutti til Akureyrar um svipað leyti.“ Olga Marta ólst því upp að miklu leyti innan um fullorðið fólk og dýr.

Einarsstaðir er fallegur bær sem stendur rétt við þjóðveg 1 – bærinn stendur við vegamót; manni verður hugsað til vegamóts lífs og dauða. Hvítt hús með rauðu þaki og hvít kirkja í sömu litum. Trjágróður er orðinn gróskumikill. Fegurðin er mikil. „Þetta er gróin og góð sveit; Reykjadalur.“ Fossinn Hreimur er rétt hjá bænum. „Hann sér um að það er aldrei þögn hérna. Það heyrist alltaf í honum. Og það er mikill fuglasöngur á sumrin. “
Reykjadalur er umvafinn ávölum lyngivöxnum heiðum. „Ég var hrædd við fjöll þegar ég var lítil; mér fannst þau myndu hrynja niður á mig og því var ég hrædd í Ljósavatnsskarðinu á leiðinni til Akureyrar. Þegar ég sótti um í Bændaskólanum á Hólum kveið ég fyrir að vera umkringd fjöllum en ég fann aldrei til ótta í Hjaltadalnum.“

Fallegt er á Einarsstöðum

En síðustu viðskipti okkar Einars á Einarsstöðum eru þau, að í fyrra, 1978, fékk ég ristil og fárveiktist. Fékk ég ekkert við þessu nema kvalastillandi töflur hjá Gísla lækni á Húsavík. Hann lét þess einnig getið við mig að ég myndi aldrei læknast til fulls vegna þess hve gamall ég væri orðinn. Liðu svo mánuðir. Í fyrrahaust, 1978, andaðist Björg konan mín og kom Einar að jarðarför hennar, sem gerð var í Mývatnssveit. Hann ræddi við mig að útförinni lokinni og sagði þá:„Þú kemur til mín, við skulum sjá, hvort ekki er hægt að tjasla eitthvað í karlinn, og vertu hjá mér eina tvo daga.“
Þegar þetta var, var ég auðvitað orðinn miklu betri af ristlinum þótt hann gerði mér lífið leitt. Ég þoldi t.d. ekki að sitja og gat ekki rétt höndina upp.
Tveim dögum eftir jarðarförina fór ég til Einars og hann tók mig til lækninga. Strax um kvöldið fann ég mikla breytingu á mér og síðan batnaði mér algerlega og hef ekki fundið fyrir þessu síðan. (Miðilshendur Einars á Einarsstöðum. Stefán Sigfússon.)

Öðruvísi uppvöxtur

Olga Marta segist hafa verið ofboðslega feiminn krakki. „Félagsskapur minn voru kisurnar mínar og hestarnir. Ég ræktaði ketti. Ég var mjög ung þegar ég eignaðist kisu og mér fannst ég vera að rækta ketti; hún átti marga kettlinga og aðaláhugamálið var að reyna að finna út hver væri pabbinn. Kisa talaði við mig og við ræddum málin og það var mikið gert grín að mér af því að ég sagði einhverjar fréttir sem Abba Njála hafði sagt mér; hún hét í höfuðið á hjónunum sem gáfu mér hana. Ég var mest með dýrunum mínum og eitthvað að dinglast úti; elta pabba.“ Olga Marta segist hafa verið pabbastelpa. „Ég var eins og hvolpurinn hans pabba. Ég elti hann eins mikið og ég komst upp með.“

Olga Marta segir að eftir að hún byrjaði í Litlulaugaskóla hafi mamma hennar alltaf farið á haustin til Akureyrar til að kaupa á hana föt. Þau fóru svo til Reykjavíkur einu sinni á ári. „Pabbi hélt stóra lækningafundi í Langholtskirkju og var líka með einkatíma þar og við fórum oft suður í kringum þetta. Þetta var seinni hluta vetrar og vorum við fyrir sunnan í kannski eina viku.“

Hún segir að það hafi breytt miklu að vera dóttir læknamiðils. „Ég býst við að það sé allt öðruvísi uppvöxtur að alast upp við þessar aðstæður heldur en þar sem fólk hefur jafnvel enga trú eða engan áhuga á framhaldslífi. Ég ólst upp við það að það væru milljón manns í kringum mig sem sáu það sem ég var að gera. Ég gat ekkert falið mig. Og ég ólst upp við að hlusta á segulbandsspólur; fræðslufundi hjá Hafsteini Björnssyni miðli. Hann var mikill vinur pabba og pabbi og mamma áttu spólur sem á voru upptökur af fræðslufundum, transfundum, hjá Hafsteini þar sem framliðnir töluðu í gegnum hann og útskýrðu lífið fyrir handan, hvað tæki við eftir vistaskiptin og ýmislegt fleira eins og áhrif mismunandi tónlistar á mannssálina. Mamma og pabbi voru stundum að spila þetta fyrir vini og vandamenn. Í upphafi þessara funda söng látinn sjómaður með raddböndum Hafsteins. Ég geri ráð fyrir að mín sýn sé eitthvað lituð af þessu; mér finnst það vera mjög líklegt. Ég held að það séu til mismunandi víddir sem maður áttar sig ekki á,“ segir Olga Marta.

Hún segir að pabbi sinn hafi ekkert verið öðruvísi út af þessu; þetta var bara hann.

Borðaði Rauðku að lokum

„Þetta var hluti af honum og ekki á neinn hátt óeðlilegt fyrir mér. Hann talaði ekki mikið um næmnina en þetta var samt bara einhvern veginn partur af lífinu. Ég man sérstaklega eftir því þegar reiðhryssan mín var felld þegar ég var sjö ára og ég átti að borða hana; þetta var gömul hryssa sem pabbi átti sem ég hafði fengið að nota sem reiðhest og var hún felld og söltuð eins og tilheyrði í sveitinni. En ég var ekki á því að borða hana Rauðku. Pabbi sagði mér að Rauðka væri ósköp hress og frísk þarna úti, hann sæi hana alveg, og hvort ég hefði ekkert velt því fyrir mér að það væri særandi fyrir hana ef mér fyndist kjöt gott en Rauðkukjöt ógeðslegt. Og ég náttúrlega borðaði Rauðku,“ segir Olga Marta.

Sveitastörfin og heimilislífið gengu sinn vanagang en oft kom það fyrir að næmni bóndans litaði lífið og hugmyndir heimasætunnar um lífið, tilveruna og heiminn að handan. Það hefur haft mikil áhrif að hafa átt föður sem var læknamiðill og sem skynjaði meira en aðrir.

„Maður var algjörlega berskjaldaður fyrir honum og það gerði það að verkum að maður hafði ekki mikla þörf fyrir að vera einhvern veginn í feluleik. Það var aldrei í boði. Hann vissi ef eitthvað hafði komið upp á í skólanum. Ein af uppáhaldssögunum mínum tengist því þegar ég fór á ball 16 – 17 ára og sá þar sætan strák. Ég hef sjálfsagt borið þess merki að vera skringileg á svipinn eftir ballið en ég sagði mömmu og pabba ekkert frá þessu. Svo vorum við í eldhúsinu einhvern daginn eftir og mamma stóð við hrærivélina sem var í gangi og þá sagði pabbi allt í einu nafn stráksins. Bara fullt nafn. Þögn. Og ég eldroðnaði og varð alveg eins og hálfviti. Ég vissi ekki hvernig ég átti að vera. Mamma slökkti á hrærivélinni og sagði: „Einar, sagðir þú eitthvað?“ Og hann sagði: „Ég? Nei.“ Mamma kveikti aftur á hrærivélinni.“

Olga Marta hlær.

Olga var afar náin Einari föður sínum.

Fór oft sálförum sem hann þó stjórnaði ekki sjálfur

„Hann vissi allt. Það þýddi ekkert að vera með eitthvað sprell. Þegar hann var staddur í Reykjavík á hernámsárunum skrapp hann sálförum hingað heim og sá að hestur ömmu hafði misst augað. Hann fór oft sálförum og gat þá lýst staðháttum og atburðum nákvæmlega því hann hafði sannarlega verið á staðnum. En þessu stjórnaði hann ekki sjálfur. Hann gat setið með gestum við eldhúsborðið og skyndilega þagnað og orðið fjarrænn um stund; þá þurftu læknarnir að grípa hann með sér eitthvert stundarkorn og mamma bað þá gestina að bíða bara rólega á meðan. Jarðarfarir voru honum erfiðar; hann sá miklu fleira fólk heldur en var þar og sá gjarnan þann sem verið var að jarða. Honum fannst þetta stundum erfitt og hann heilsaði fólki sem var ekki á staðnum.“

Og heilsaði það honum?

„Já. Og hann spjallaði við það. Hann segir frá þessu sjálfur í bókinni Furður og fyrirbæri eftir Erling Davíðsson.“

Olga Marta segir að faðir sinn hafi séð dauð dýr.

„Hann var í vandræðum með það að hann sá ekki mun á kindunum sem voru á lífi og þeim sem hafði verið slátrað en hann sagðist þó stundum finna öðruvísi lykt af þeim síðarnefndu. Hann átti mjög erfitt með að telja kindurnar vegna þess að hann sá alltaf svo allt of margar. Það var maður hérna í sveitinni sem sagði mér frá því að hann hefði farið í aðra sveit til þess að sækja kindur í réttir og kom með þær hingað heim. Pabbi fór upp á vörubílspallinn og sótti hóp af kindum og setti þær inn í fjárhús. Svo fór hann aftur upp á pallinn til þess að smala fleiri kindum. En það voru engar kindur eftir á pallinum. Hann bara sá ekki muninn hvort viðkomandi var þessa heims eða annars. Það var honum oft ofboðslega erfitt en þarna kom það sér vel að hann tók sig ekki of hátíðlega og gerði óspart grín að sjálfum sér.“

Slapp við aðgerð eftir meðhöndlun Einars

Sérfræðingurinn skoðaði fótinn og myndir voru teknar. Síðan kom úrskurðurinn: Afltaugin í fætinum klemmd af brjósk- eða beinmyndun, sem þar hafði orðið og að hér væri ekki um annað en uppskurð að ræða – skurð frá il og upp undir hné, meðfram afltauginni.

Að þessu loknu hélt ég heimleiðis. Ég átti að fá um það að vita, hvenær ég kæmist að til uppskurðar. Liðu svo vikur, sem urðu að fjórum mánuðum og mér batnaði ekki, fremur hið gagnstæða. Þótti mér biðin orðin nægilega lögn og fór að hringja suður og spyrjast fyrir um það, hvenær ég kæmist að. Fékk ég það svar, að enn væri langt í land. Vegna þess hve margir væru á undan mér. Leið nú einn mánuður til viðbótar, en þá hringdi ég suður og síðan í hverri viku og fékk ávalt sama svarið, að enn yrði ég að bíða þolinmóður. Heldur sótti í það verra með fótinn og var mér nú farin að leiðast biðin og að fyrir alvöru, enda fór ég þá að hugsa ráð mitt á annan veg.

Ég hafði heyrt talað um Einar Jónsson á Einarsstöðum og lækningar hans og eftir talsverða umhugsun ákvað ég að leita til hans. Hringdi ég til hans þeirra erinda og tók hann erindi mínu mjög vel. Varð það að samkomulagi, að ég kæmi til hans á ákveðnum degi og á ákveðnum tíma. Þegar sá dagur rann upp, fékk ég tengdason minn, Þorstein Pétursson, lögregluþjón, til að aka með mig austur í Einarsstaði. Fórum við í rólegheitum og stefndum að því að koma á tilsettum tíma. Kvöddum við svo dyra á Einarsstöðum og kom kona Einars til dyra. Sagði ég henni erindi mitt og það einnig, að ég kæmi á þeim tíma, sem ákveðið hefði verið á milli okkar Einars. En hún sagði, að Einar væri í heyskap úti á túni, en fyrst hann hefði sagt þetta, hlyti hann að koma heim að vörmu spori.

Konan bauð okkur til stofu og að lítilli stundu liðinni kom Einar til okkar og bað afsökunar á því, að hann hefði orðið seinn fyrir og þyrfti nú að fara í bað, áður en hann gæti talað við mig.

Ég hafði aldrei fyrr séð Einar, en aðeins talað við hann í síma og hafði ég gert mér allt aðra hugmynd um hann, hvað útlit og framkomu snerti. Það fannst mér strax athyglisvert, að hann fór í bað áður en hann talaði við mig til þess að ganga hreinn og snyrtur til viðræðufundar við sjúkling og fannst mér það bera vitni um lotningu hans fyrir lækningastarfinu.

Að nokkurri stund liðinni kom hann í stofudyrnar til okkar Þorsteins og bað mig að koma og fylgja sér. Tók hann síðan lykil upp úr vasa sínum og opnaði hurð að herbergi og bauð mér að ganga þar inn. Þar inni var öllu snoturlega fyrir komið. Á borði var lítill kross með ljósi í og kveikti Einar á því. Bað hann mig að setjast á stól og settist sjálfur við hlið mér á annan stól. Lét hann mig svo leggja veika fótinn upp á þriðja stólinn.

Við ræddum ekkert saman, en hann fór að strjúka fótinn á mér, fyrst laust en síðan þétt. Það, sem þá vakti athygli mína var það, hvað hann hélt sig alltaf við þann stað, sem sárindin voru mest, enda því líkast, að hann þrýsti fingrunum inn í holdið. Þarna sátum við á aðra stund. Allan þann tíma var hann að handleika fótinn. Ekkert var sagt, en það vakti furðu mína hvað hann einbeitti sér. Hann roðnaði í andliti og svitaperlur spruttu fram á enni hans. Andardráttur hans virtist þungur og jafnvel erfiður.

Loks fór hann að ræða við mig og var þá sem allur annar maður. Spurði ég hann þá, hvernig á því stæði, að hann hefði þrýst mest á þann stað, sem aumastur var. Hann svaraði því þannig: „Ég var látinn gera það.“ Frammi á ganginum, þegar hann hafði læst hurðinni að baki okkar spurði ég hann:
„Heldur þú, Einar, að ég muni þurfa að fara suður í aðgerð?· Hann hugsaði sig um stund arkorn og sagði síðan: „Ég held, að þess gerist ekki þörf.“ Eftir þetta bauð hann mér inn í eldhús. Þar var ungt fólk í skemmtilegum samræðum og drakk ég kaffi með því. Þar kynntist ég allt öðrum Einari en þeim, sem áður hafði setið hjá mér sem læknir eða milligöngumaður og vill láta gott af sér leiða við að bæta mein þeirra, sem erfitt eiga. Við kaffiborðið tók Einar þátt í gamansömum umræðum og var á léttur í máli. Mánuði síðar var ég orðinn fullbata og hef aldrei síðan fundið til þessa sjúkleika, sem hafði leikið mig svo grátt í langan tíma. (Miðilshendur Einars á Einarsstöðum. Aðalsteinn Óskarsson.)

Eins og millistykki milli heima

Einar fæddist og ólst upp á Einarsstöðum og voru systkinin 11 auk eins hálfbróðurs. Olga Marta segir að frá því hann var barn hafi hann séð fólk og skepnur sem aðrir sáu ekki.

„Hann var hræddur við þetta fyrst; sérstaklega þegar hann áttaði sig á því að þetta var eitthvað sem hinir voru ekkert að sjá en hann var fljótur að vaxa upp úr því. Hann talaði um þetta við ömmu og afa og þau voru umburðarlynd og trúðu honum. Svo ráðlögðu þau honum að vera ekkert að tala um þetta við alla þannig að hann hélt þessu mikið fyrir sig. Hann bar sjálfan sig aldrei á torg. Ég veit að allavega að einu sinni fann hann kind uppi á heiði sem hafði fennt yfir; honum var bara vísað á hana en hann gat ekki pantað þannig vitranir. Það voru alls konar sögur til af þessu. Hann sá fylgjur fólks þegar gestir komu og þá gat hann sagt ömmu frá því að von væri á fólki frá vissum bæjum. Ég minnist þess þegar vinkona mín kom í heimsókn til mín og pabbi fór til dyra og sagðist hafa vitað að þetta væri hún vegna þess að amma hennar hafði komið á undan henni, amma hennar sem dó þegar mamma hennar var lítil stúlka.“

Í bókinni Furður og fyrirbæri eftir Erling Davíðsson segir Einar frá því hvernig starfið hófst: „Borgfirsk kona, Guðrún Waaage að nafni, dásamlegum dulrænum hæfileikum gædd, heimsótti mig haustið 1955 og sagðist eiga við mig áríðandi erindi. Ég varð logandi hræddur og beið þessa erindis hennar með sárum ótta í hjarta. Kona þessi, sem bæði sá og heyrði umfram aðra, athugaði mig og hæfileika mína og sagði mér frá reynslu sinni. Mér var það hinn gagnlegasti fróðleikur að kynnast manneskju, sem þurft hafði, eins og ég, að berjast við það að vera ekki eins og annað fólk.

Guðrún sagði mér eftir stutta viðkynningu, að næsta skrefið á leið minni væri það, að ég ætti að biðja frú Láru Ágústsdóttur á Akureyri um miðilsfund fyrir fjóra. Þar myndi framliðinn læknir koma fram og tala við mig um þá framtíð, sem mér væri ætluð og ég þyrfti síðar að horfast í augu við.

Ég gat ekki lýst því hve undrandi ég varð, einnig óttasleginn, jafnvel hryggur. Ég vantreysti sjálfum mér og hæfileikum mínum og gerði mér mjög óljósar hugmyndir um, hvernig framtíð mín yrði ef látnir menn færu að ráðskast með mig. En ekki varð þó fram hjá þessu gengið og ég ræddi þetta mál við bræður mína. Sögðust þeir fúsir til að fara með mér á þennan fund til Láru og ég ræddi einnig málið við foreldra mína, sem ekki vildu standa í vegi fyrir þessum ráðagerðum.”

Einar væri verkfæri læknanna á jörðinni

Olga Marta segir að á miðilsundinum hafi læknir að handan kynnt sig, sem í lifanda lífi hafi heitið Þórður, og að það hafi verið hann sem sendi Guðrúnu að Einarsstöðum að finna Einar. Olga Marta segir að Þórður hafi sagt Einari að þeir væru nokkrir læknarnir að handan búnir að finna verkfæri til þess að geta starfað áfram við lækningar á jörðinni í krafti frá Guði og að Einar væri þetta verkfæri; hann yrði eins og millistykki fyrir þá eða jarðtenging.

„Hann hafði ekki alveg húmor fyrir þessu; treysti sér ekki í þetta og fannst þetta vera alveg fáránlegt. En sá framliðni fullvissaði hann um að þeir væru alveg harðir á þessu, hann væri sá sem þeir þyrftu á að halda til að geta sinnt starfinu. Og upp frá því byrjaði þetta; þetta fór að spyrjast út. Það er yfirleitt talað um að fyrsti maður sem leitaði til hans og fékk bata hafi verið frændi okkar frá Hólkoti.“

Olga Marta segir að fólk hafi leitað til föður hennar vegna ólíklegustu hluta. „Það var allt frá flughræðslu, kvefi og kvíða og upp í lamanir og illvíg krabbamein. Pabbi gerði engan mun á erindum fólks. Foreldrar mínir voru með leyninúmer og það þurfti að tala við hann í gegnum símstöðina af því að álagið hefði annars verið of mikið; það var ekki hægt að hafa þetta þannig að það gætu allir hringt hvenær sem var. Hann var þess vegna með símatíma.“

Það komu líka margir og hittu Einar á Einarsstöðum. „Fólk átti oftast pantaða tíma klukkan hálfátta til hálftíu nánast á hverju kvöldi og svo kom póstur þrisvar í viku og það var alltaf úttroðið umslag með bréfum í til hans; pósthúsið setti bréfin í A5-umslög til þæginda. Svo var hann með tengiliði en ef einhver þurfti á aðstoð að halda talaði viðkomandi kannski við einhvern sem hann vissi að þekkti pabba og bað hann um að hafa samband við hann. Þessir tengiliðir voru stundum pirraðir; þeim fannst þeir ekki geta haft samband við pabba út af einhverjum sem var bara með kvef og það væri ekki hægt að trufla hann út af slíku. En pabbi var alveg harður á því að það væri ekki hans að ákveða hver þyrfti mest á þessu að halda. Það voru allir jafnir. Ég veit að það var maður sem keypti aldrei bíl nema að ræða fyrst um það við pabba.“

Kraftaverkið þegar elsta systirinn bjargaðist eftir alvarlegt slys

Olga Marta segir frá undursamlegum bata systur sinnar sem lenti í bílslysi.

„Elsta systir mín, Guðrún Vilborg, er í raun gangandi kraftaverk. Hún lenti undir bíl í bílveltu á táningsaldri. Mamma gleymdi aldrei símtalinu sem hún fékk, þar sem læknirinn reiknaði ekki með að hún lifði nægilega lengi til að mamma kæmist suður – og eiginlega ætti hún ekki að óska þess að hún lifði því Guð mætti vita hvers konar líf biði hennar.“

Paul Bannister skrifaði um tilvik hennar í bókinni Strange Happenings sem í þýðingu Ævars R. Kvaran heitir Ókunn öfl: „Þetta var furðulegt tilfelli,” sagði Úlfur Ragnarsson, læknir Guðrúnar, við mig.

„Það sannfærði mig um það, að Einar byggi yfir dulrænum hæfileikum. Rifbein stúlkunnar voru næstum gjöreyðilögð, lungu sprungin, versta tegund heilaskemmda, og þar að auki var hún í rauninni stórbækluð, sökum skekkju á mænunni. Nýrun voru kramin og við urðum að koma henni fyrir í stállunga, sökum lungnaskemmda. Hún var víða sár og marin og hafði orðið fyrir heilablæðingu. Ég þóttist viss um það, að ef hún héldi lífi, yrði hún örkumla fáviti. Samt urðu rifbeinin aftur heil með einhverjum dularfullum hætti. Og í dag virðist hún alheilbrigð. Hún fór jafnvel fótgangandi út úr sjúkrahúsinu innan viku.“

„Hann var alveg ákveðinn í því að ekkert af þessu væri honum að þakka“

Olga Marta segir að faðir sinn hafi aldrei viljað halda á lofti því sem hann gerði. Hann talaði til dæmis ekki um það þó fólk hringdi í hann og þakkaði honum fyrir. „Hann var alveg ákveðinn í því að ekkert af þessu væri honum að þakka. Hann væri bara tengiliður. Hann var mjög upptekinn af því að þetta væri einkalíf fólksins sem um ræddi og hann var mjög strangur á því. Hann skrifaði alltaf nöfn og heimilisföng fólks sem hann bað fyrir í bók sem lá á borðinu hans og hann var mjög harður á því að þegar hann færi þá myndum við brenna þessar bækur af því að það mætti enginn komast í þær.“
Og bækurnar voru brenndar eftir að Einar lést.

Olga Marta segir að það hafi verið sérstakt andrúmsloft í herberginu þar sem Einar tók á móti fólki. Hann lést árið 1987 og er herbergið nánast óbreytt. „Við höfum aldrei viljað breyta því eða tæma það. Þetta er hans herbergi. Maðurinn minn á heiður skilið fyrir þolinmæðina gagnvart því eins og svo mörgu öðru sem mér fylgir.

Það mætti gjarnan minnast á þátt mömmu í starfi pabba. Hún var ótrúlega mögnuð húsmóðir auk þess að taka öllum sem til heimilisins leituðu með eftirminnilegri hlýju og björtu brosi. Hún lést fyrir ári síðan eftir að hafa verið ekkja í 36 ár.“

Olga ásamt fjölskyldu sinni

Versnaði á heimleiðinni en svo varð allt betra

Fyrir mörgum árum vann ég á sláturhúsi á Húsavík og fór þá fyrir alvöru að finna til verkja í mjöðm og fæti og varð fóturinn máttlítill við stöður í vinnunni, auk þess sem vanlíðan var þá oft mjög mikil. Fór ég þá til Daníels Daníelssonar læknis þar á staðnum, sem skoðaði mig og gaf þann úrskurð, að á þessu stigi væri ekkert hægt að gera og yrði að athuga um aðgerð síðar.

Fór ég nú til Einars Jónssonar á Einarsstöðum og þurfti ég ekki að lýsa vanheilsu minni fyrir honum, því hann virtist vita allt um hana. Á stofunni hjá honum leið mér undur vel og ég fann notalega strauma undan höndum hans. Ekki tók þetta langa stund og að síðustu sagði hann: „Þú skalt ekki láta þér bregða þótt þú finnir nokkuð mikið til á leiðinni heim til þín, því „þeir“ gerðu smá aðgerð á þér.“

Mágur minn, Jóhannes Jóhanensson, bóndi á Héðinshöfða, beið mér úti fyrir í bíl sínum og við ókum heimleiðis að þessum erindum mínum loknum.
Ekki höfðum við ekið margar bæjarleiðir þegar ég fór að finna mikið til í mjöðm, einkum þar sem vegurinn var harður og ósléttur og var þetta næstum óþolandi. Áður hafði ég ekki fundið til veikinda minna í bíl og leist því miður vel á, að mér skyldi versna svona mikið, í stað þess að batna. Reyndi að hugga mig við það sem Einar hafði sagt, að ég skildi ekki láta mér bregða þótt mér liði illa á heimleiðinni.

Þegar heim kom, skreið ég upp stigann, upp í herbergi mitt á efri hæð og fór í rúmið. Sofnaði ég fljótt og svaf vel um nóttina. Þegar ég vaknaði um morguninn, mundi ég allt er gerst hafði en fór að venju mjög gætilega fram úr rúminu. En mér til mikillar undrunar fann ég ekkert til í mjöðm eða fæti og hef ekki fundið síðan. (Miðilshendur Einars á Einarsstöðum. Sigurlaug Egilsdóttir.))

Finnur fyrir návist hans

Olga Marta játar að hafa skynjað nærveru föður síns eftir að hann lést. „Það er erfitt að útskýra þetta. Það gæti verið líkt því hvernig blindir skynja nærveru. Ég finn mjög sterkt fyrir návist hans. Ég hef stundum séð hann og ég finn mjög oft fyrir honum eða bara nánast alltaf.“
Sjálf er Olga Marta næm en tekur fram að hún sé ekki jafnnæm og faðir hennar var. „Ég hef ekkert gert mikið úr því; ég hef stundum sagt að ég sé grænjaxl og enginn viti hvort ég eigi eftir að verða ber. Ég skynja svolítið og ég finn lykt og stundum heyri ég raddir.“

Þögn.

„Ég er ekkert að gera mikið úr þessu; þetta er ekki eitthvað stórmerkilegt.“

Hún segist hafa séð framliðna en þó oftar dauð dýr.

„Ég skynja mjög oft nærveru bæði manna og dýra en ég er ekkert að koma með skilaboð. Fólk hefur oft hringt og verið að spyrja mig hvort ég geti sagt því eitthvað um þetta eða hitt svo sem varðandi veikindi og hvort einhverjum muni batna. Ég er ekkert í einhverju svoleiðis.“

Ennþá leitar fólk til Einarsstaða vegna fyrirbæna. Og það er gert mikið af því.

„Pabbi sagði við mömmu að eftir að hann færi mætti hún prófa að halda áfram að skrifa niður nöfn og heimilsföng fólks í bók á borðinu hans eins og hann gerði alltaf. Hann skrifaði ekki hvað væri að heldur bara nöfn og heimilisföng þeirra sem leituðu til hans eða sem leitað var til hans fyrir.“

Móðir Olgu Mörtu fór eftir því sem Einar bað um og brenndi bækurnar sem hann hafði skrifað í og nýjar bækur voru notaðar. „Mamma gerði þetta og ég hef tekið við. Það er ekki nærri eins mikil ásókn í það eins og þegar pabbi var á lífi; en þetta er þó töluvert. Þægilegast finnst mér að fá fyrirbænirnar í gegnum Messenger en margir finna traust í því að hringja. Ég er svo ófullkomin að þjáningar og raunir annarra taka á en það gleður hjartað þegar vel gengur.“

Vart hugað líf en batnaði svo snögglega

Fyrir fjórum árum lagðist ég á spítalann hérna á Akureyri og upp úr þeim veikindum hætti ég búskap. Veikindi mín stöfuðu af blóðtappa í lungum, sagði læknir mér. Lá ég um mánaðartíma í eins manns herbergi. Ekki hafði ég teljandi verki en leið þó mjög illa, var það ógleði og ólyst og var mjög þjáður. Margt var reynt að gera mér til hjálpar því ekki lágu læknarnir á liði sínu. En það dró af mér og það svo, að konu minni var að síðustu gert aðvart, að hver dagurinn gæti orðið minn síðasti.

Þegar svona var komið tók tengdadóttir mín, Hulda Halldórsdóttir, sig til og bað Einar á Einarsstöðum að hjálpa mér, eflaust með samþykki míns fólks, en sjálfur hafði ég ekki trú á starfi hans, kannski fyrir þekkingarleysi.

Fólkið mitt kom til að kveðja mig, en í stað þess að andast, batnaði mér svo snögglega, að Halldór Halldórsson, læknir, sagði, að þetta væri kraftaverk. Ekki varð ég nú verulega var við neitt yfirnáttúrulegt, sá hvorki né heyrði neitt, sem undir það getur flokkast. Þó er því ekki að neita, að eina nóttina, þegar ég lá vakandi og með fulla meðvitund, eftir því sem ég best veit, varð ég einhvers var, án þess að geta lýst því á annan veg en þann, að mér fannst eitthvað verið að sýsla við mig.

Ég lá svo talsvert eftir þetta, og batinn hélt áfram, fyrst í stað ört eins og fyrr sagði, en síðan smátt og smátt. Ég er nokkrun veginn viss um það, að í þetta sinn hafi Einar á Einarsstöðum hjálpað mér til að sigrast á veikindum, sem höfðu nær dregið mig til dauða. Til marks um þetta álit mitt, skrifaði ég Einari þegar ég hresstist og þakkaði honum. Mitt fólk er miklu trúaðra á möguleika á dulrænar lækningar en ég var.

Halldór Halldórsson læknir spurði mig að því á spítalanum hvort ég hefði leitað til Einars, frænda síns á Einarsstöðum. Það gerði ég reyndar ekki, þó hann væri beðinn fyrir mig, án þess að ég vissi fyrr en síðar. Gat ég því ekki gefið greið svör, en læknirinn sagði, að á mér hefði gerst kraftaverk.  (Miðilshendur Einars á Einarsstöðum. Ketill Guðjónsson.)

Aðrir skiptu meira máli

Einar Jónsson var af flestum talinn hlédrægur og rólegur maður og en hans nánustu sáu aðra hlið. Olga Marta að hann hafi verið sprellikarl en það hafi þó verið meira áberandi þegar hann var yngri.

„Hann var stríðinn og kátur. Honum fannst hann aldrei vera númer eitt í sínu lífi; það voru alltaf allir aðrir sem skiptu meira máli. Það er svolítið fyndið að hugsa til þess í dag í allri þessari núvitund þegar maður á að setja sjálfan sig í fyrsta sæti að ég veit ekki hvort hann hafi einhvern tímann sett sig í fyrsta sæti en líklega einmitt þess vegna er hans minnst enn í dag. Hann virtist þó einmitt vera í núvitund og umfram allt treysti hann Guði fullkomlega.“

Og augun hans Einars á Einarsstöðum sáu margt.

„Lífsreynslan var augljós því hann hafði séð miklu meira heldur en við þetta venjulega fólk af því að hann sá og skynjaði. Það var ekkert allt fallegt eða skemmtilegt. Það voru ekki síður erfiðleikar. Ég verð oft pínulítið hissa þegar fólk sækist eftir eða langar ofboðslega til að verða læknamiðlar. Það er svo mikið um erfiðleika og vanlíðan annars fólks og það getur verið ótrúlega bugandi. Maður þarf að vera einhvern veginn sérstaklega innréttaður til að geta tekist á við það.“

Hvað er dauðinn í huga Olgu Mörtu?

Þögn.
Löng þögn.

„Það er spurning. Ég veit það eiginlega ekki. Hann er ekkert fyrirkvíðanlegur nema að ég get þá sjálfsagt ekki blaðrað við stelpurnar mínar þegar ég verð dáin. Kannski er dauðinn líkur útskrift úr skóla.“

Hún segist ekki vera í neinum vafa um að það taki eitthvað við eftir dauðann.

Náði heilsunni á ný eftir heimsókn til Einars

Líklega var það 1974 sem ég leitaði til Einars á Einarsstöðum í Reykjadal. En þá hafði ég þjáðst af liðagigt í fjöldamörg ár og eiginlega útilokað að ég gæti gengið. Sumarið 1960 var ég á síld og var þá orðinn þannig að ég komst ekki yfir skilrúmin á dekkinu. Liðagigtin var í báðum fótum til skiptis en fór einnig í axlirnar á mér.

Ég leitaði til Snorra heitins Hallgrímssonar og hann sprautaði mig og mér skánaði af því í bili en versnaði svo aftur. Leið mín lá svo norður til Húsavíkur að mig minnir 1974 og var ég ekki góður til heilsunnar en segja má að þrátt fyrir veikindin hafi ég stundað mína vinnu.

Á Húsavík býr fóstursonur minn og sóknarpresturinn þar er mágur minn og hitti ég þá báða. Presturinn bauð mér, eftir að heilsufar mitt hafði borist í tal, að hringja fyrir mig til Einars og biðja hann að reyna að lækna mig. Niðurstaðan af því samtali varð sú að ég kæmi við hjá Einari þegar ég ætti þar leið um á heimliðinni og ég gerði það.

Ég sat inni hjá Einari í lækningaherbergi hans æði langa stund og þar gerðist svo sem ekkert markvert sem ég tók eftir nema að þarna var mikill friður og mér leið mjög vel, af hverju sem það var. Einar bað mig að skilnaði að hugsa til sín einu sinni á dag tiltekna stund á kvöldin og ég gerði það.

Ég fann litla eða enga breytingu fyrst og fór að draga árangurinn mjög í efa, svo ekki sé meira sagt. Ég hygg að það hafi liðið einn mánuður eða svo áður en batinn kom en þá kom hann mjög greinilegur og síðar hefur liðagigtin ekki þjáð mig og langt frá því að hún hái mér á nokkurn hátt í störfum en áður var þetta óþolandi veiki. Þetta eru einu kynni mín af Einari Jónssyni á Einarsstöðum, þótt margt hafi ég um manninn heyrt, og fyrir þau er ég þakklátur því eftir þau kynni náði ég heilsu minni á ný. (Miðilshendur Einars á Einarsstöðum. Tryggvi Gunnlaugsson.)

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Sneri lífinu við eftir vandræðalegt flug til Íslands – „Ég var að leka yfir í næsta sæti“

Sneri lífinu við eftir vandræðalegt flug til Íslands – „Ég var að leka yfir í næsta sæti“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fær annað tækifæri til að finna ástina

Fær annað tækifæri til að finna ástina
Fókus
Fyrir 2 dögum

Gagnrýnir „heilbrigða og fullkomna“ einstaklinga fyrir að misnota Ozempic

Gagnrýnir „heilbrigða og fullkomna“ einstaklinga fyrir að misnota Ozempic
Fókus
Fyrir 2 dögum

„Þetta er mögulega ósmekklegasta og ógeðslegasta hugmynd þessa forsetaframboðs“

„Þetta er mögulega ósmekklegasta og ógeðslegasta hugmynd þessa forsetaframboðs“
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Ég var ótrúlega heppin að fá að lifa“

„Ég var ótrúlega heppin að fá að lifa“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Helena á góðgerðarviðburði með stórstjörnum og fyrrverandi fegurðardrottningunum sem sprengdu allt upp í síðustu viku

Helena á góðgerðarviðburði með stórstjörnum og fyrrverandi fegurðardrottningunum sem sprengdu allt upp í síðustu viku
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Gaurar voru viljandi að fá sér flúr á lífbeinið og svo voru þeir með hann beinstífan allan tímann að horfa á mig“

„Gaurar voru viljandi að fá sér flúr á lífbeinið og svo voru þeir með hann beinstífan allan tímann að horfa á mig“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Þórhildur kynntist kærastanum þegar hún var á Spáni með eiginmanninum – „Ég man eftir nokkrum notalegum augnablikum á ströndinni“

Þórhildur kynntist kærastanum þegar hún var á Spáni með eiginmanninum – „Ég man eftir nokkrum notalegum augnablikum á ströndinni“