fbpx
Föstudagur 12.apríl 2024
Fókus

Kristín segir skort á þessu hafa mikil áhrif á heilsu fólks – Þurfum að horfa á þetta eins og við horfum á hreyfingarleysi

Fókus
Mánudaginn 4. mars 2024 09:05

Skjáskot/YouTube

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kristín Sigurðardóttir, þrautreyndur bráða- og slysalæknir segir læknisfræðina standa á tímamótum í nútíma samfélagi. Kristín, sem er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar, fer í þættinum yfir sögu læknisfræðinnar og hvernig lífsstíls- og samfélagssjúkdómar séu að sliga vestræn samfélög á 21. öldinni. Hún segir lækna upp til hópa orðna mun opnari fyrir umræðu um að lyf séu ekki lausnin á öllu og að það þurfi að horfa á hlutina heildrænt.

„Ég hef alltaf verið heildrænt þenkjandi, alveg frá því að ég byrjaði að læra læknisfræði. En mér fannst ég stundum ein og það var erfitt að tala fyrir „common sense“ hlutum áður en það voru komnar fram rannsóknir á bak við hlutina. En það er búið að gjörbreytast á undanförnum árum. Það er mjög mikilvægt fyrir lækna að vera alltaf með opinn huga og taka á móti nýjungum, annars verða engar framfarir. En á móti verðum við alltaf að vera með gagnrýnin gleraugu og vanda okkur og nýta okkur vísindin. Annars er hætta á að við förum að gera hluti sem eru ekki gagnlegir fyrir fólkið sem við erum að hjálpa. Þetta er það sem gerir læknislistina að því sem hún er. Blanda af húmanísku fagi og raunvísindum og Hippocrates, faðir læknisfræðinnar talaði algjörlega á þessum nótum. Það skiptir máli hverju við öndum að okkur, hvað við látum ofan í okkur, hvað við látum á húðina og svo framvegis,” segir Kristín, sem segir að læknisfræðin sé á ákveðnum tímamótum með tilkomu breyttrar samfélagsgerðar.

„Það hefur verið krefjandi fyrir læknisfræðina að takast á við þann faraldur lífsstílssjúkdóma sem hefur verið í gangi á undanförnum áratugum. Lífsstíls- og samfélagssjúkdómar eru risastór áskorun fyrir okkur öll. Við verðum að skoða það hvort við höfum komið okkur upp samfélagi og samfélagsvenjum sem eru ef til vill alls ekki heibrigð fyrir okkur. Læknisfræði 20. aldar er ekki sama læknisfræði og læknisfræði 21. aldarinnar. Á tuttugustu öldinni varð bylting með tilkomu sýklalyfja og út frá því varð til mikil trú á mátt lyfja og einkennalækningar náðu ákveðnu hámarki. Það varð til mikil sérhæfing, en á móti gleymdist kannski að horfa heildrænt á hlutina. Það má alls ekki misskilja mig og ég tek það fram að lyf geta oft á tíðum verið frábær og hjálpað fólki gríðarlega. En nú erum við komin á stað þar sem við getum ekki lengur fest okkur í einkennalækningum. Lífsstíls- og samfélagssjúkdómar eru nú 60-70 prósent af viðfangsefnum heilbrigðiskerfisins og eru að sliga þróuð vestræn ríki.“

Hraði og streita

Kristín segir eitt af því sem skýri aukna tíðni lífsstíls- og samfélagssjúkdóma sé mikill hraði, neysla og keppni í vestrænum samfélögum. Mögulega þurfum við að skoða að taka skref til baka og endurskoða samfélagsgerðina ef ekki eigi illa að fara.

„Við erum alltaf að reka okkur meira og meira á afleiðingarnar af of miklum hraða og streitu í samfélaginu. Það dynur á okkur stanslaust áreiti um að gera meira og kaupa meira og það hefur í gegnum tíðina myndast stemmning fyrir því að það sé flott að það sé alltaf allt á fullu og brjálað að gera. Við höfum upp til hópa fundið sjálfsvirðið í því að vera alltaf að og það hefur orðið hluti af okkar samfélagsgerð. Og svo ef fólk þarf að hvíla sig hefur oft verið horft á það sem leti og aumingjaskap. Vestræn einstaklingshyggja hefur ekkert endilega verið holl fyrir okkur og við þurfum að skoða hvort það sé ekki rétt að skipta um takt. Ég hef lengi bent á að harka er ekki það sama og seigla. Of mikil harka í of langan tíma endar bara illa. Til að þróa með þér seiglu þarft þú að hafa ákveðna mýkt, rétt eins og tré sem bognar, en brotnar ekki. Ef fólk fær ekki tækifæri til endurheimtar munu líkamskerfin byrja að bresta. Það er beinlínis rangt að segja við fólk sem hefur farið yfir strikið og endað í alvarlegri streitu eða kulnun að það sé bara með vandamál í hausnum. Í endurheimtinni er hvíldin, meltingin og alls konar hlutir sem við þurfum nauðsynlega á að halda til að lifa í góðu jafnvægi.“

Orsakavaldur kulnun hjá læknum

Kristín, sem vann í áraraðir við bráðalækningar bæði á Íslandi og erlendis, segir að stétt lækna sé alls ekki út undan þegar kemur að þessari þróun. Eitt af því sem sé að valda mikilli kulnun hjá læknum, sé hve stór hluti af starfstímanum fari í allt aðra hluti en að lækna fólk.

„Það er talað um að tími fyrir framan tölvu sé allavega 50 prósent af starfinu og sumir vilja meina að tími fyrir framan tölvu sé orðinn 70 prósent hjá mörgum læknum. Það var ekki þess vegna sem fólk fór í læknisfræði og þetta er eitt af því sem er að valda streitu í stéttinni og að endingu kulnun. Svo er alltaf ætlast til þess að hlaupið sé hraðar og hraðar þegar álagið eykst. Og það fer mjög illa með fólk að geta ekki sinnt vinnunni sinni eins vel og hægt er að gera.“

Vill skilgreina skort á útiveru sem alvöru kvilla

Í þættinum ræða Sölvi og Kristín um heilsu og heilsuleysi í nútímanum. Kristín vill skilgreina skort á útiveru og tíma í náttúru sem alvöru kvilla. „Nature Deficit Disorder“. Hún segir ekki lengur hægt að líta framhjá öllum þeim rannsóknum sem eru komnar fram og sýna fram á jákvæð áhrif náttúru og útiveru á heilsu.

„Ég segi að við þurfum að horfa á náttúruleysi með svipuðum augum og við horfum á hreyfingarleysi. Innst inni vitum við það að útivist og náttúran eru allra meina bót, en vísindin voru svolítið lengi að taka við sér. En núna á undanförnum árum eru komnar fram vel yfir þúsund rannsóknir sem staðfesta mikilvægi náttúru á bæði andlega og líkamlega heilsu og líðan okkar. Það skiptir okkur lífeðlisfræðilega máli að fá nægan tíma í náttúru. Ég vil kalla þetta náttúruleysi á íslenskunni. Mér finnst það ná nokkuð vel utan um hugtakið „nature deficit disorder“. Það er að verða gríðarleg vakning í því hve mikil jákvæð áhrif náttúran hefur á okkur og ég sé ekki annað en að það muni bara aukast á komandi árum. Það frábæra við nútímann er hvað við erum orðin upplýst og við höfum allar forsendur til þess að auka lífsgæði og líftíma okkar enn meira á komandi áratugum.”

Hægt er að nálgast viðtalið við Kristínu og öll viðtöl og podcöst Sölva Tryggvasonar inni á solvitryggva.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Edda Lovísa um áhrifin sem það hafði á sambandið þegar hún og kærastinn hættu að horfa á klám

Edda Lovísa um áhrifin sem það hafði á sambandið þegar hún og kærastinn hættu að horfa á klám
Fókus
Fyrir 2 dögum

Barkley skaut fast á sólmyrkvaáhorfendur – „Ég ætla ekki að sitja úti eins og hálfviti og bíða eftir myrkrinu“

Barkley skaut fast á sólmyrkvaáhorfendur – „Ég ætla ekki að sitja úti eins og hálfviti og bíða eftir myrkrinu“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segir að James sé óþolandi týpa sem kyssti rassa fyrir frægðina

Segir að James sé óþolandi týpa sem kyssti rassa fyrir frægðina
Fókus
Fyrir 3 dögum

Afreksmaður rifjar upp óbærilegar þjáningar föður síns – Styður frumvarp um dánaraðstoð

Afreksmaður rifjar upp óbærilegar þjáningar föður síns – Styður frumvarp um dánaraðstoð
Fókus
Fyrir 3 dögum

Pawel sleppti því að drekka áfengi í mánuð – Þetta gerðist

Pawel sleppti því að drekka áfengi í mánuð – Þetta gerðist
Fókus
Fyrir 3 dögum

Varar Íslendinga við eyjunni fögru – „Hvað er eiginlega að gerast á Tenerife?“

Varar Íslendinga við eyjunni fögru – „Hvað er eiginlega að gerast á Tenerife?“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Ingibjörg bregst við netníði Árna – „Allan minn feril hef ég mætt þessum körlum”

Ingibjörg bregst við netníði Árna – „Allan minn feril hef ég mætt þessum körlum”
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Ég hef fengið á mig alls konar hótanir og vesen, en þegar maður er búinn að sætta sig við að maður sé að fara að deyja fer óttinn“

„Ég hef fengið á mig alls konar hótanir og vesen, en þegar maður er búinn að sætta sig við að maður sé að fara að deyja fer óttinn“