fbpx
Laugardagur 02.mars 2024
Fókus

Þegar stærsta tækifærið knúði dyra sagði Magnús nei takk – „Við vorum svo miklir asnar sko“

Fókus
Þriðjudaginn 6. febrúar 2024 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Magnús Þór Sigmundsson er eitt stærsta nafnið í íslenskri tónlistarsögu og tvímælalaust einn af ástsælustu laga- og textahöfundum landsins. Hann er enginn nýgræðingur og hefur lifað og hrærst í heimi tónlistar frá árinu 1966 og er hvergi nærri hættur, en hann er nú að leggja lokahönd á næstu plötu sína.

Magnús er nýjasti viðmælandi Mumma í Kalda pottinum frá sviðinu í Gömlu Borg. Hann rekur þar tónlistarferilinn og hvernig hann komst nálægt því að meika það í Ameríku.

„Ég er að gera hljómplötu núna sem heitir Ég lofa þig líf, þar sem ég þakka fyrir gengin spor og fagna því að vera til akkúrat hér og nú í augnablikinu. Það fer vel með okkur hjónin og við eigum börn og barnabörn og þetta gengur allt bara og skapar sína eigin sögu sem er okkur bara góð.

Ég var að klára að mixa hana bara í fyrradag.“

Helvítis Færeyingurinn kenndi honum mest

Magnús kemur úr Ytri-Njarðvík en á rætur til Færeyja, en faðir hans kom þaðan til Íslands þar sem hann, afa Magnúsar til mikillar skelfingar, heillaði 17 ára heimasætuna upp úr skónum.

„Helvítis Færeyingurinn er kominn til að stela stelpunni,“ sögðu föðurbræður Magnúsar sem voru ekki hrifnir, en máttu sín lítið gegn sjálfri ástinni.

„Þau urðu ástfangin og ég varð til. Hann var dásamlegur karl, hann pabbi. Hann kenndi mér miklu meira en aðrir menn. Hann talaði ekki mikið en átti rosalega sterkt þögult tungumál. Augnatillit, hreyfingar, svona „nikka kolli“.“

Faðir hans var maður fárra orða en gat sagt allt sem segja þurfti í þögninni. Magnús segir þetta hafa kennt sér mikið í mannlegum samskiptum og án þess að faðir hans sagði nokkuð þurfti Magnús aldrei að efast um að föður sínum þætti vænt um sig.

Þetta þögla tungumál kom sér síðar vel og í raun spilaði stórt hlutverk í einu merkasta tónlistarsamstarfi þjóðarinnar.

Mokuðu sig saman

Sem ungur maður hafði Magnús ákveðið að leggja tónlist fyrir sig. Gallinn var þó sá að hann hafði framan að bara gítar með þremur strengjum. Hann hélt þó áfram að æfa sig og þakkar ADHD, sem hann greindist ekki með fyrr en áratugum síðar, fyrir þann árangur sem hann náði enda gat hann setið við æfingar heilu vinnudaganna.

Ekki gat hann lifað þó af tónlistinni á þessum tíma svo hann hafði aflað sér tekna með því að fara á sjóinn og síðar sem verkamaður hjá bæjarfélagi sínu. Þannig atvikaðist það að hann komst í kynni við ekki minna merkan mann, Jóhann Helgason.

„Það var klassísk og skemmtileg kynning,“ segir Magnús. Á þessum tíma var rígur milli Njarðvíkur og Keflavíkur, en þarna var Magnúsi falið að taka þátt í að vinna við skurð sem var grafinn milli bæjanna tveggja. En Jóhann starfaði einmitt sem verkamaður hjá Keflavíkurbæ. Þeir hafi í raun mokað sig saman og greindi Jóhann þá frá því að hann væri í hljómsveit. Örlögin höfðu leitt þessa hæfileikaríku menn, frá bæjarfélögum sem almennt samdi illa, og til að setja punktinn yfir i-ið kom á daginn að hljómsveit Jóhanns var að æfa lag sem Magnús hafði einmitt náð góðum tökum á.

Magnúsi var því boðið að koma á æfingu og var þá ekki aftur snúið.

„Við Jóhann urðum bara svona æðislega fallegir andlegir elskhugar, og við bara skildum hvorn annan. Ég þekkti hann bara í gegnum tungumál pabba. Hann talar ekki mikið hann Jói.“

Í kjölfarið fóru hann og Jóhann að semja tónlist saman og enduðu óvænt með að slá í gegn sem dúett á menntaskólaböllum.

Súkkulaði kom í veg fyrir spilun hjá BBC

Hann rifjar svo upp þegar Jóhann ákvað að nú væri tími kominn til að færa út kvíarnar og fá samning erlendis. Hann hringdi og greindi Magnúsi frá þessari ákvörðun og varla sólarhring síðan hafði Jóhann aftur haft samband og sagðist hafa samið lagið sem myndi landa þessum samningi.

Þetta var lagið Yakketty Yak, Smacketty Smack, sem flestir þekkja í dag. Lagið heillaði eiganda upptökustúdíó-s í Bretlandi, en því miður kom samnefnt súkkulaðistykki í veg fyrir að lagið yrði spilað á BBC. Magnús segir að samningurinn sem þeir gerðu við stúdíóið hafi ekki verið þeim hagfelldur, en þeir voru metnaðarfullir og dreymdi um að slá í gegn.

„Við skrifuðum undir einhvern lélegasta samning sem sögur fara af,“ segir Magnús en í honum fengu þeir aðeins brotabrot af mögulegum hagnaði og þurftu að auki að borga allan kostnað sjálfir.

Svo ákvað Jóhann að nóg væri komið að því að hann og Magnús kæmu fram tveir sitjandi á stólum. Þeir þyrftu hljómsveit. Úr varð hljómsveitin Changes.

Sögðu nei takk þegar Ameríka kallaði

Með Changes héldu þeir aftur út til að taka upp og þar birtist þeim tækifæri sem Magnús telur í dag að þeir hafi verið flón að grípa ekki.

„Allt í einu kemur þarna inn í stúdíóið maður, H.B. Barnum heitir hann, heimsfrægur útsetjari og pródúser frá Ameríku sem var að útsetja fyrir Osmond-systkinin.“

H.B. Barnum útsetti tónlist fyrir stórstjörnur á borð við the Supremes, Frank Sinatra, Aretha Franklin, Little Richard, Gladys Knight, Etta James, The Temptations, The Jackson 5 og svona mætti áfram telja.

„Þetta var heavy, gæji, topp maður.“

Barnum sagðist hrifinn af tónlist Magnúsar og Jóhanns og hafði áhuga á þeim sem lagasmiðum. Hann bauð þeim í heimsókn á hótelherbergi sitt þar sem þeir spiluðu fyrir hann. Í kjölfarið bauðst Barnum til að hjálpa þeim að gera plötu.

„Hann er bara þarna heitur og við gerum þessa plötu og svo segir hann: „After working with you guys I would like to bring you, Magnús, and you, Jóhann, with me to the States to work with me.“

Þetta boð heillaði þó ekki félaganna sem þarna voru í hljómsveit og líkaði það vel og kærðu sig síður um að færa sig bak við tjöldin til að semja lög fyrir aðra.

„Við vorum svo miklir asnar sko,“ segir Magnús þegar hann hugsar til baka. Þarna hafi goðsögn úr amerískri tónlistarsögu boðið þeim gullegg. Hann ætlaði að borga fyrir þá húsnæði, uppihald og kynna þá fyrir gyðjunni Diana Ross sem og öðrum stórstjörnum.

„Og við sögðum bara nei takk.“

Hlusta má á viðtalið við Magnús og fyrri þætti Kalda pottsins á tyr.is eða á Spotify.

Kaldi Potturinn er spjallþáttur þar sem Mummi fær til sín á sviðið heima alls konar fólk úr öllum kimum samfélagsins, með fjölbreytta lífsreynslu, djúpa sýn á tilveruna og sterkar skoðanir á lífinu. Fólk sem fer sínar eigin leiðir. Mummi hefur sjálfur sterkar skoðanir og er óhræddur við að tjá sig um hvað sem er, svo allt fær að flakka á sviðinu. Kaldi Potturinn hefur ekkert að fela.

Dagskrárgerð Kalda pottsins er í höndum Mumma og stjórn upptöku er í höndum Gunnars Bjarna en upptökur fara fram á heimili Mumma og eiginkonu hans, Þórunnar Wolfram, á Gömlu Borg í Grímsnesi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Opnar sig um ofbeldi í fyrri samböndum – „Ég vil þetta ekki lengur“

Opnar sig um ofbeldi í fyrri samböndum – „Ég vil þetta ekki lengur“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Nýjar upplýsingar um heilsuástand Katrínar eftir að Vilhjálmur þurfti skyndilega að aflýsa komu sinni á viðburð

Nýjar upplýsingar um heilsuástand Katrínar eftir að Vilhjálmur þurfti skyndilega að aflýsa komu sinni á viðburð