fbpx
Laugardagur 24.febrúar 2024
Fókus

Melkorka missti stjórn á líkama sínum – „Það að standa upp til að borða eða nota salerni var sársaukafullt“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Mánudaginn 12. febrúar 2024 10:52

Skjáskot/Instagram @melkorkat

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hársnyrtirinn Melkorka Torfadóttir hefur átt erfið síðustu ár en keyrði sig áfram af fullum krafti þar til líkaminn sagði stopp. Hún gat varla hreyft sig og aðeins það að borða og nota salernið var sársaukafullt.

Hún greindi frá þessu í einlægri færslu á Instagram og gaf DV leyfi til að deila sögu hennar áfram með lesendum.

„Síðustu ár hafa verið erfið. Ég er búin að vera takast á við allskonar djöfla sem hafa fylgt mér í gegnum ævina.

Ég reyndi að fara á hörkunni og sýndi sjálfri mér ekki vægi. Og taldi sjálfri mér trú um að ég væri í fínu jafnvægi og sko alls ekki svolítið brotin. Ég bældi niður allar vondar minningar, hundsaði líkama minn og andlega heilsu þegar ég þurfti hvíld og ró, og keyrði mig áfram á hundrað í vinnu og að vera sterk. En alltaf var ég gjörsamlega örmagna af þreytu. Ég setti aðra í forgang og sjálfa mig í síðasta sæti. Ég gaf meira af mér en ég átti til, andlega gjörsamlega í þroti.“

Melkorku fannst erfitt að viðurkenna fyrir sjálfri sér að hún þurfti hjálp.

„Það var erfitt að kyngja stoltinu og þurfa að hlusta á þær þarfir sem var löngu kominn tími á að sinna. Einn daginn vaknaði ég og líkami minn og sál voru sprungin. Ég þurfti að taka skref sem ég hélt ég gæti aldrei tekið, barði sjálfa mig niður fyrir að vera algjörlega búin og að geta ekki lengur gert einfalda daglega hluti,“ segir hún.

„Ég þurfti mjög skyndilega að hætta að vinna og hjálpi mér hvað mér leið eins og svo miklum aumingja. Þarna var komið að skuldardögum.“

Mynd/Instagram @melkorkat

Þetta hafði gríðarleg áhrif á Melkorku.

„Allt í einu hafði ég ekki stjórn á líkama mínum, ég gat bókstaflega varla hreyft mig. Líkaminn sagði nei og eina sem ég gat gert var að liggja og sofa. Það að standa upp til að borða eða nota salerni var sársaukafullt.

Ég höndlaði ekki samskipti við fólk, þar sem ég hafði gengið svo langt á andlegu heilsuna að bara létt spjall var of mikið. Ég þurfti að taka mér pásu, átti erfitt með að vera með fjölskyldu og vinum.

Eina sem ég fann fyrir var skömm, ólýsanleg þreyta andlega og líkamlega, verkir um allan líkama sem ég hef aldrei upplifað áður, gat ekki fundið fyrir gleði eða spenning. Þannig að eina sem ég gat gert var að anda og setja allt til hliðar og bara reyna komast í gegnum einn dag í einu. Kulnun og áfallastreituröskun er sko ekkert grín.“

Melkorka Torfadóttir. Mynd/DV

Í dag er Melkorka í endurhæfingu hjá Hugarafl.

„Verkefni mitt daglega er að gera það sem mér finnst gaman. Ég þurfti að leita inná við og finna út hvað það er sem ég geri fyrir sjálfa mig , hvað nærir mína sál (ég hélt að svarið við því væri að þrifa, vinna og sinna daglegum athöfnum),“ segir Melkorka.

„Ég er að læra að setja mörk og hlusta á þarfir mínar. Í dag tek ég ennþá einn dag í einu. Ég æfi því það er eitthvað sem ég elska og var á tíma hrifsað burt frá mér. Ég er í viðtalstímum hjá yndislegum ráðgjafa hjá Hugarafl og hún er að hjálpa mér að fletta ofan af gömlum sárum og vinna úr þeim, ásamt því að læra að tjá mig og ekki bara troða niður öllum tilfinningum. Hún er að hjálpa mér að finna sjálfa mig aftur.

Ég á langt í land, hægt og rólega er ég að leggja niður allar varnir og vera þakklát, sátt og taka þessu ferðalagi með opnum örmum. Og ekki skammast mín fyrir að vera í hundrað prósent vinnu við að laga það sem var er brotið.“

Mynd/Instagram @melkorkat

Melkorka segir að hún finni enn fyrir þessari ólýsanlegu örmögnun.

„Ég hef ennþá mjög lítið úthald í samskiptum og get oft ekki svarað skilaboðum eða símtölum og þarf að draga mig inn í skelina mína og fá að vera í mínum litla heimi þar sem enginn er nema bara ég,“ segir hún og bætir við að hún líti björtum augum fram á veginn.

„Ég er þakklát, meyr og svo tilbúin í þetta ferðalag. Munum að við erum ekki hér í þessu lífi til að vinna okkur í kaf, fara allt á hnefanum og geta ekki tekið augnablik til þess að stoppa og horfa á allt það fallega sem lífið hefur upp á að bjóða.

Það er ekki aumingjaskapur að þurfa leggja niður brynjuna og leita eftir hjálp. Það er allt í lagi að vera ekki með allt hreinu og vera svolítið brotin/n.

Það er mikilvægt að njóta lífsins því við eigum bara eitt líf, og við skuldum sjálfum okkur það að vera hamingjusöm og njóta þess að vera til.“

Í júní í fyrra var Melkorka gestur í Fókus, spjallþætti DV, og sagði frá því hvernig henni tókst að losa sig úr ofbeldissambandi og vann úr þeirri erfiðu reynslu með hjálp Bjarkarhlíðar, Stígamóta og Kvennaathvarfsins.

Fylgstu með Melkorku á Instagram.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Átakanlegt myndband: Fæddist háð fentanýli

Átakanlegt myndband: Fæddist háð fentanýli
Fókus
Fyrir 3 dögum

Lottó kóngurinn biður nágranna afsökunar

Lottó kóngurinn biður nágranna afsökunar
Fókus
Fyrir 3 dögum

Farþegar fengu bætur eftir dólgslæti Æði-drengjanna um borð

Farþegar fengu bætur eftir dólgslæti Æði-drengjanna um borð
Fókus
Fyrir 3 dögum

Gera grín að Kim fyrir að selja „skítuga“ Birkin fyrir milljónir

Gera grín að Kim fyrir að selja „skítuga“ Birkin fyrir milljónir