Kenningar fljúga nú á samfélagsmiðlum um að úrslitin í hnefaleikabardaganum á milli Mike Tyson og Jake Paul hafi verið ákveðin fyrir fram. Atvik þegar Paul rekur út úr sér tunguna er sagt sýna fram á það.
Breska blaðið Daily Mail greinir frá þessu.
Bardaginn þann 16. nóvember var afar umdeildur. Ekki sýst vegna þess að Tyson er orðinn 58 ára gamall. Strax í annarri lotu var farið að draga af Tyson og Paul hafði yfirhöndina restina af bardaganum. Eftir átta lotur var Paul lýstur sigurvegari með einróma dómaraákvörðun.
Nú hafa úrslit hins umdeilda baradaga verið dregin í efa. Það er vegna atviks þar sem Paul sést reka út úr sér tunguna.
„Jake Paul er að gefa Mike merki um að taka því rólega,“ skrifaði einn áhorfandi á samfélagsmiðilinn X.
Lét hann fylgja með myndbrot úr bardaganum þar sem Tyson náði góðu höggi beint á hökuna á Paul. Strax eftir það setti Paul tunguna út.
Sumir myndu telja að Paul hefði gert þetta til þess að sýna Tyson fram á að höggið hefði ekki meitt hann neitt. En samsæriskenningasmiðir telja að um merkjasendingu hafi verið að ræða.
Talsmaður fyrirtækisins Most Valuable Promotions, sem stóð að bardaganum, neitaði að svara spurningum Daily Mail um málið.