Tortímandinn sjálfur, Arnold Schwarzenegger, gengur nú fyrir rafmagni að hluta og telst þar með meiri vél en áður. Leikarinn hefur þurft að gangast undir þrjár opnar hjartaaðgerðir út af arfgengnum hjartagalla og þurfti í síðustu viku að fá gangráð. Þessu greindi fyrrum ríkisstjórinn frá í hlaðvarpi í vikunni.
„Mánudaginn síðasta fór ég í aðgerð til að verða aðeins meiri vél. Ég fékk gangráð. Ég verð að viðurkenna að það stríðir gegn uppeldi mínu í Austurríki að greina frá þessu, en þar talaði fólk ekki um heilsubresti sína. Allt sem varðaði heilbrigðisþjónustu hélt fólk bara fyrir sig. En ég hef fengið svo mörg skilaboð og pósta frá fólki sem fæddist með tvíblöðku ósæðarloku, eins og ég, og greindi mér frá því að það að heyra mig tala um lokuskiptaaðgerðirnar mínar hafi veitt þeim hugrekki og von til að takast á við sínar eigin. Svo ef það að berjast gegn innrætingu minni með því að vera hreinskilinn hjálpar fólki, þá hef ég ekki um annað að velja.“
Leikarinn gekkst undir lokuskiptaaðgerðir árin 1997, 2018 og 2020. Heilbrigðir einstaklingar eru með þríblöðkuloku í ósæð. Stundum gerist það á fósturskeiði að tvær blaðkanna skiljast ekki að og fæðist fólk þá með tvíblöðku ósæðarloku þar sem önnur lokan er stærri en hin. Þetta er algengasti meðfæddi hjartagallinn og er algengari hjá einstaklingum sem fæðast líffræðilega karlkyns. Þessar tvíblöðkulokur eru viðkvæmari fyrir kölkun en venjulegar lokur og veldur frekar ósæðarlokuþrengslum. Einkenni slíks eru mæði og önnur einkenni hjartabilunar, yfirlið og hjartaöng. Væg þrengsl valda gjarnan óverulegum einkennum en ástandið getur þó versnað hratt. Án meðferðar er talið að dánartíðni ósæðarlokuþrengsla sé allt að 50 prósent innan árs eftir að einkenni koma fram.
Hefðbundin meðferð við þessu opin ósæðarlokuskiptaaðgerð en hún hefur gefið góða raun með eins árs lifun yfir 90 prósent. Algengt er svo að einstaklingar þurfi með tíð og tíma að fá varanlegan gangráð.
Schwarzenegger tók fram að hann hafi í gegnum tíðina verið í höndum frábærra lækna. Aðgerðin í síðustu viku hafi gengið vonum framar og læknar tryggt að þetta væri eins sársaukalítið og mögulegt var.
„Engum hefði dottið í hug að ég myndi hefja vikuna mína á aðgerð,“ sagði leikarinn en við skoðun tóku læknar hans eftir því að örvefur eftir fyrri aðgerðir væru að valda óreglulegum hjartslætti. Því var talið ráðlegt að koma tortímandanum sem fyrst í samband.
„Fyrst og fremst vil ég fullvissa ykkur um að mér gengur vel. Ég fór í aðgerð á mánudegi og á föstudag gat ég mætt á stóran viðburð fyrir umhverfið með vinkonu minni og kollega í hreystni, henni Jane Fonda. Og á meðan ég man, þegar við tölum um hreyfingu sem töfralyfið sem hægir á öldrun, þá skulið þið horfa á Jane. Hún er 10 árum eldri en ég, verður 87 ára á þessu ári.“