fbpx
Miðvikudagur 11.desember 2024
Fókus

Faðir Rakelar fékk hugboð um að eitthvað væri að og hljóp út á inniskónum – „Hann bjargaði lífi mínu“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Mánudaginn 8. janúar 2024 11:00

Rakel er nýjasti gestur Tinnu Barkardóttur í Sterk saman.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Rakel Sara er 34 ára, frá Reykjavík en búsett á Akureyri. Hún er þriggja barna móðir sem á stóra sögu og er nýjasti viðmælandi hlaðvarpsins Sterk saman.

Rakel er ein af svokölluðum Laugalands stelpum en hennar áfallasaga byrjar mun fyrr.

„Ég lenti í mínu fyrsta stóra áfalli sem lítið barn, líklega fimm ára en ég man hvernig veðrið var og hvernig lífið breyttist frá þeim degi og ég varð mjög reið en ég fann ekkert,“ segir hún.

Rakel talar um hvernig hún tók út ofsareiði á móður sinni, réðst á hana og það endaði með því að hún var send á BUGL.

„Ég var sett á lyf við hegðunarvandamálum mínum en enginn reyndi að díla við orsökina, eina konu grunaði hvað hefði komið fyrir mig en þorði ekki að nefna það. Hún hefði mögulega geta bjargað mér frá fullt af öðru sem kom í kjölfarið ef hún hefði bara sagt það sem hana grunaði.“

Byrjaði að misnota lyfin sín

Aðeins tólf ára var Rakel farin að misnota lyfin sín til að komast í annað ástand og flýja vanlíðan og sinn veruleika.

„Tólf ára gömul segir mamma mér að ég sé að fara í heimavistarskóla fyrir stelpur. Ég var bara barn og var spennt. Pabbi keyrði mig norður á Laugaland í júlí og ég vissi ekkert hvað beið mín.“

Þegar norður var komið tók Ingjaldur á móti henni, sendi pabba hennar í burtu og setti hana í svokallaðan strokugalla. Það var sumarfrí og því engar aðrar stelpur á staðnum.

„Það var erfitt að kveðja pabba, mér var bara sagt að hætta að grenja, ég væri komin á stað sem væri síðasti staðurinn fyrir aumingja eins og mig, sem enginn vildi. Þetta væri meðferðarheimili fyrir stelpur sem enginn vildi, niðurbrotið byrjaði um leið og pabbi fór. Allt dótið mitt var tekið af mér.“

Ofbeldi á Laugalandi

Rakel segir frá ofbeldinu og niðurbrotinu sem átti sér stað á Laugalandi en þar dvaldi hún í tvö og hálft ár, lengst allra.

Aðspurð hvað hún hafi tekið með sér úr dvölinni þar segir hún: „Ég tók það með mér út í lífið að karlmenn megi eða eigi að beita konur ofbeldi, þeir séu æðri, ég sé ekki nóg og á að þóknast þeim.“

Fimmtán ára gömul fór hún í fóstur til frænda síns og byrjaði þar neysla á ný. Hún kynntist eldri stelpum á Laugalandi sem höfðu verið í mikilli neyslu og kom þaðan með það markmið að prófa það sem þær höfðu gert.

Hún fór á milli fósturheimila en átján ára endaði hún á götunni, fyrst í Reykjavík en svo á Akureyri. „Átján ára kynntist ég fyrsta barnsföður mínum, hann lofaði öllu fögru ef ég kæmi norður, íbúð og góðu lífi, sem ég trúði auðvitað. Ég fór norður en við tók meiri neysla og mikið ofbeldi.“

Beitti hana ofbeldi á meðan hún var með barnið í fanginu

Fljótlega varð hún ófrísk og var nítján ára þegar dóttir hennar kom í heiminn. „Barnavernd var komin inn í mín mál áður en ég var komin tólf vikur á leið vegna þess að ég hafði svo oft lent á spítala vegna alvarlegs ofbeldis,“ segir Rakel.

„Ég var ekki einu sinni búin að ákveða hvort ég ætti að halda meðgöngunni áfram þegar þau voru komin en auðvitað skil ég skylduna að tilkynna. Ég vildi samt verða mamma og þráði að elska skilyrðislaust.“

Ofbeldið jókst bara með tímanum og stöðvaði það ekki barnsföður Rakelar þó hún héldi á barni þeirra í fanginu.

„Ég gjörsamlega sturlaðist þegar barnavernd tók barnið mitt, nýorðin tvítug, í miklu ofbeldi og í neyslu. Ég tapaði mér.“

Barnavernd bauð henni að fara í meðferð og hún þáði það. Hún vildi vera mamma og var heppin með fyrrverandi tengdaforeldra sem stóðu þétt við bak hennar og dóttur hennar.

Pabbi hennar fékk hugboð

Fjögur ár af edrú lífi, bata og uppbyggingu fóru svo fyrir lítið þegar hún, nýi maðurinn hennar og barnsfaðir töldu sér trú um að geta fengið sér án þess að missa tökin, sem er einmitt eins og fíknisjúkdómur virkar.

„Við höfðum gift okkur og komið upp góðu lífi en enduðum í mikilli neyslu og ljótum skilnaði. Hann fór með báða krakkana og ég vissi ekki um börnin mín í þrjár vikur,“ segir hún.

Líf Rakelar hefur oft á tíðum verið á pari við bíómynd en faðir hennar, sem er flugmaður, fékk hugboð eina nótt í Reykjavík og hljóp á inniskóm niður á flugvöll.

„Hann hljóp á flugvöllinn og sagði að hann þyrfti að komast norður strax þarna um morguninn, hann var viss um að það væri eitthvað mikið að.“

Þessa nótt var Rakel lamin mjög illa og fannst meðvitundarlaus og illa farin af neyslu. Faðir hennar fékk fregnir af henni á spítalanum þegar norður var komið en þeir vissu ekki hvort hún myndi lifa.

„Pabbi minn er af gamla skólanum en ég sá það á honum þegar ég opnaði augun hversu brotinn hann var og hversu erfitt þetta var. Hann fór með mig heim og fór að vaska upp og ganga frá, hann dæmdi mig ekki. Hann gerði nákvæmlega það sem ég þurfti, hann var til staðar fyrir mig. Ég sagði honum þá að ég þyrfti aðstoð.“

Hlustaðu á þáttinn hér að neðan.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Talaði Trump af sér?
Fókus
Fyrir 2 dögum

Vikan á Instagram – Sjóðandi heitur desember

Vikan á Instagram – Sjóðandi heitur desember
Fókus
Fyrir 2 dögum

„Það er of mikil áhersla lögð á að fá einhverja einkunn á prófi en gleymist að það gengur ekki upp ef börnum líður illa“

„Það er of mikil áhersla lögð á að fá einhverja einkunn á prófi en gleymist að það gengur ekki upp ef börnum líður illa“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Jólalestin mun keyra sinn árlega hring um höfuðborgarsvæðið í 30. skiptið

Jólalestin mun keyra sinn árlega hring um höfuðborgarsvæðið í 30. skiptið
Fókus
Fyrir 4 dögum

Harry Bretaprins rýfur þögnina um skilnaðarorðróminn

Harry Bretaprins rýfur þögnina um skilnaðarorðróminn