fbpx
Laugardagur 24.febrúar 2024
Fókus

Valgerður Auðunsdóttir býflugnabóndi fær aldrei leið á flugunum sínum – ,,Þetta er ekki eitthvað sem maður gerir bara“

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Laugardaginn 25. júní 2022 09:00

Guðjón og Valgerður býflugnabændur að Húsatóftum. Mynd/Aðsend

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

 „Þetta er mjög skemmtileg búgrein og öðruvísi en margar aðrar því hún er mest í höfðinu á manni. Að lesa í hegðunina, setja sig inn í hvað er er í gangi, hvernig skuli haga sér og hvað skuli gera næst. Ég verð alltaf jafn spennt og fæ aldrei leið á þessu,“ segir Valgerður Auðunsdóttir, sem er býflugnabóndi á Húsatóftum á Skeiðum ásamt eiginmanni sínum, Guðjóni Vigfússyni.

„Með okkur í ræktinni er dóttir okkar, Vigdís Guðjónsdóttir, sem býr á Selfossi.“

Kippi mér ekki upp við stungu

„Þetta er ekki eitthvað sem maður gerir bara og mér þykir afar vænt um flugurnar mínar. Sumarið leggst vel í mig og ég er að farast úr spenningi.“

Hún gerir lítið úr því að hafa verið stungin af flugunum sínum. „Hefur þú ekki rekið þig stundum í bílinn þinn? Þetta er ekki ósvipað. Ég var reyndar stungin nú um daginn þegar ég var að vinna í búinu og ein reyndist vera í olnbogabótinni á mér. Hún stakk auðvitað í vörn blessunin en ég er nú ekki mikið að kippa mér upp við það.“

Hreinasta hunang í heimi. Mynd/Aðsend

Valgerður hefur alltaf verið áhuga á ræktun og er með stofnbú á landnámshænum. Hún var stödd á landbúnaðarsýningu þar sem Egill Sigurgeirsson formaður Býflugnaræktendafélags Íslands var að kynna ræktunina og kíkti örstutt við, enda á hlaupum.

„En ég kom heim og spurði bóndann hvort við ættum ekki að fá okkur býflugur. Hann sagði já við því.“

Margir misstu allt sitt

Það tók þau hjón tvö ár að koma býflugnabúskapnum af stað. Þau fóru á námskeið sem stóð eina helgi í mánuði í fjóra mánuði og fengu flugur árið 2011. Námskeið um rekstur býflugnabúa er afar ítarlegt og að mörgu að huga.

„Þar er kennd líffræði dýranna og allt í sambandi við þeirra feril, hegðun þeirra, smitvarnir, umhirðu, fóðrun og meðhöndlun. Hvernig skal lesa búið og byggja það upp, hverju skal fylgjast með og hvernig á að taka hunangið og fara með það.“

Valgerður er nú með þrjú bú, sem hún segir í meðallagi stórt. „Það drepst alltaf eitthvað en ekkert í vetur hjá mér en það gerðist ansi víða. Býflugnabændur sem höfðu verið lengi að misstu allt sitt í vetur vegna veðurfarsins í fyrrasumar sem síðan fylgdi þessi kaldi vetur. Þetta stressaði flugurnar enda eru þær viðkvæm dýr.“

Hún segir vandasamt að hausta flugurnar og vetra, fóðra þær rétt og lesa í hegðun þeirra. „Þetta er samfella og ekki gaman þegar maður uppgötvar að þær hafi drepist yfir veturinn.“

Ísland hreint land

Valgerður er gjaldkeri í félagi býflugnaræktenda og aðspurð um hversu margir séu í ræktuninni segist hún senda út 154 félagsgjöld. „Þeir eru þó ekki allir með bú því það eru margir áhugamenn í félaginu. Áhuginn er að stóraukast og varla friður fyrir hringingum frá áhugasömum að komast á námskeið.“

Frá býflugnabúinu að Húsatóftum. Mynd/Aðsend

Von er á nýrri sendingu flugna á Álandseyjum á næstu vikum og býður stór hópur spenntur enda lagðist allur innflutningur niður í Covid auk þess sem hlé var gert á námskeiðahaldi. Fjöldi aðila sem missti sínar flugur á nú von á að geta tekið upp þráðinn.

„Álandseyjar eru eina svæðið með hreinar flugur og því kaupum bara þaðan. Og því er Ísland hreint land, reyndar það eina ásamt Álandseyjum því það eru ekki bara Norðurlönd og Evrópa, heldur allur heimurinn sem er undirlagður af sýkingum sem við erum laus við.“

Allt tekið lögtaki og brennt

Valgerður segir afar mikilvægt að halda býflugunum heilbrigðum. „Á Álandseyjum fluttu tveir aðilar inn flugur sem báru með sér smit. Þá var allt tekið lögtaki hjá þeim, búin brennd og þurftu þeir að byrja upp á nýtt. Það er alltaf hætta á að einhverjir vitleysingar ætli að flytja inn sjálfir og það hafa verið gerðar tilraunir til þess hérlendis. Það er hægt að koma með drottningu í litlu hylki í vasa við komuna til landsins og sé hún smituð er allt farið fyrir bý.

En Matvælastofnun stendur sig helvíti vel í þessu og vona að þeir geri það áfram.“

Aðspurð um hvað hún sé að fá mikið hunang segir Valgerður það afar misjafnt.

„Það rigndi í allt fyrrasumar en það komu tíu dagar í ágúst sem þær höfðu til að safna í ramma. Og á þeim dögum fékk ég 30 kíló. Ég hef mest fengið 90 kíló en til dæmis ekkert í hitteðfyrra. Þá rigndi allt sumarið og ég ákvað að gefa þeim sem mestan sykur til að halda í þeim lífi. Það tókst en ég fórnaði hunanginu, ég tek það aldrei ef það er blandað með sykri.“

Töluvert er um að áhugasamir komi við á Húsatóftum til að berja búskapinn augum, jafnt innlendir sem erlendir, áhugafólk og ræktendur. „Við tökum vel á móti þegar við höfum tök til, það fer eftir veðrinu,“ segir Valgerður og hlær.

Ein spýta á tíuþúsundkall

Hvernig á að bera sig við að hefja býflugnarækt? Getur borgarbúinn hafið rækt í garðinum?

„Það eru nokkur bú í Reykjavík en vandinn er sá að það er enn verið að eitra þar garða. Hér áður fyrr voru til dæmis norskar flugur í Reykjavík og víðar en þær voru svo árásargjarnar að það endaði á því að þeim var eytt. Þær sem við erum með í dag eru mun viðkvæmari og gott að umgangast þær. En ef þú ert skítlogandi hræddur við að koma nálægt búinu skynja þær það og þá er mun meiri hætta á stungu. Þær eru miklu næmari en mannskepnan.“

Valgerður segir námskeiðin auðvitað vera skyldu en það er minnsti kostnaðurinn. „Það er allt sem þarf til að byggja upp bú. Þú hendir ekki bara einhverju upp úti á túni, ein spýta kostar tíu þúsund kall og fyrsta árið hjá mér var um hálf milljón í ramma, búninga og fleira sem er nauðsyn.“

Rándýrt en annar ekki eftirspurn

Valgerður hlær bara þegar hún er spurð á því hvort hún safni ríkidæmi í býflugnabransanum.

„Nei, við verðum seint rík á því. Ég hélt reikning fyrstu fjögur árin þangað til ég náði núllinu. Síðan hefur þetta verið upp og ofan en ég held að ég sé nú ekki að stórtapa á þessu. En þetta er áhugamál og margir eyða stórfé í sín áhugamál. Og þar er býflugnabú býsna snjall og skemmtilegur kostur.“

Valgerður Auðunsdóttir. Mynd/Aðsend

Hunangið er eins hrein vara og hugsast getur og Valgerður segir það rándýrt en annar þó vart eftirspurn. Það má fá á Húsatóftum, hjá Frú Laugu og Me&Mu í Garðabæ.

„Við hjónin erum með komin á aldur en við heyjum öll okkar tú, erum með hross í hagagöngu og gefum þeim úti á veturna. Svo eru um hundrað hænur og auðvitað tíkin og stundum hvolpar. Við erum reyndar oft spurð að því hvort við séum enn með þessar býflugur?

Það er alltaf sama svarið. „Það verður það síðasta sem við losum okkur við,“ segir Valgerður Auðunsdóttir, býflugnabóndi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Átakanlegt myndband: Fæddist háð fentanýli

Átakanlegt myndband: Fæddist háð fentanýli
Fókus
Fyrir 3 dögum

Lottó kóngurinn biður nágranna afsökunar

Lottó kóngurinn biður nágranna afsökunar
Fókus
Fyrir 3 dögum

Farþegar fengu bætur eftir dólgslæti Æði-drengjanna um borð

Farþegar fengu bætur eftir dólgslæti Æði-drengjanna um borð
Fókus
Fyrir 3 dögum

Gera grín að Kim fyrir að selja „skítuga“ Birkin fyrir milljónir

Gera grín að Kim fyrir að selja „skítuga“ Birkin fyrir milljónir