fbpx
Föstudagur 01.mars 2024
Fókus

Sandra Ósk er alltaf á vaktinni – ,,Ef að ekki er hægt að borða né pissa í tíu tíma skiptir það engu“

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Sunnudaginn 19. júní 2022 09:00

Sandra Ósk Jóhannsdóttir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Þetta er átakanlegt á stundum, mikil sorg, og ekki alltaf skemmtileg vinna að finna týnd dýr. Það koma stundum mjög erfið mál inn sem taka á sálina og ég tek inn á mig því ég er svo mikill dýravinur,” segir Sandra Ósk Jóhannsdóttir, 22 ára sálfræðinemi og meðlimur í Hundasveitinni. „Krakkarnir kalla okkur reynda oft Hvolpasveitina, sem er mjög krúttlegt.

Hundasveitin er hópur sjálfboðaliða, allt kvenna, innan frumkvöðlafyrirtækisins Dýrfinnu og sérhæfir hópurinn sig í leit að týndum hundum. Konurnar leggja nótt við nýtan dag við að sameina gæludýr eigendum sínum, aðallega hunda, en einnig ketti. „Við förum heim til fólks sem hefur fundið hund eða kött sem er hugsanlega týnt og skönnum örmerki dýrsins. Oft eru þetta kisur sem búa nálægt en það gerist líka að kettir eru týndir í lengri tíma og þeir finnast oft á þennan hátt.”

Hluti af kröftugum hópi Hundasveitarinnar.

Hoppaði eins og trúður

Hundasveitin er líka með ráðgjöf um leit týndra dýra, ekki aðeins hunda, og segir Sandra Ósk að það þurfi að haga leit að köttum allt öðruvísi en hundum. „Það er mjög erfitt að leita að köttum sem er ástæðan fyrir því að við gerum það yfirleitt ekki nema þá í algjörri neyð, þá helst ef um er að ræða kettlingafulla læðu, kött sem hefur kannski dottið ofan af þriðju eða fjórðu hæð eða kettling. En það er gríðarlega erfitt að leita að hinum almenna heimilisketti, hann getur verið hvar sem er, þetta eru útiverur og það kemur engum á óvart að sjá kött á ferli úti. Það er öðruvísi með hunda, það er strax tekið eftir lausum hundum enda er lausaganga hunda bönnuð hér á landi. Við lendum reyndar oft í því að fá ekki vísbendingar svo sólarhringum saman því hundarnir eru ekki að sjást. Þá halda þeir sig í gróðri eða eru bara ekki á ferð á daginn, forðast jafnvel mannabyggðir, og fara bara um á næturnar.”

Sandra Ósk segir Hundasveitina fá fjölda tilkynninga um lausa hunda á dag en flestir sameinist þó eigendum sínum blessunarlega strax. Alltaf sé þó hlaupið til sé dýr í hættu, til að mynda við stofnbraut. Sjálf lenti hún í því í síðustu viku að aka heim úr vinnunni og sjá hund á miðjum veginum í hverfinu sínu. „Auðvitað kom þetta fyrir mig af öllum!” segir hún og hlær. „Hann var ekki með ól eða neitt og ég varð að gera eitthvað. Svo ég lagði bílnum og reyndi að kalla hann til mín. En þetta var hundur sem skildi ekki íslenskar skipanir og átti augljóslega erlendan eiganda. Maður þarf oft að spila af fingrum fram til að ná dýrinu svo ég byrjaði að hoppa eins og trúður á götunni til að lokka hann til mín með leik alla leið heim til mín enda aldrei þessu vant ekki með skannann minn á mér. Sem gerist næstum aldrei, ég er alltaf með hann,” segir Sandra Ósk og dregur fram græjuna úr töskunni. 

Aldrei neitt frí

En hvað gerist í þeim tilfellum sem dýrið er ekki örmerkt?

Sandra Ósk segir að í langflestum tilfellum séu hundar skannaðir en það sé upp og ofan með ketti þótt oftast sé þeir merktir. Furðulega oft séu dýrin merkt ræktanda sem gleymt hafi að breyta skráningu. 

„Þarna hófst hefðbundin rannsóknarvinna, ég hafði samband við stelpurnar og ein kannaðist við hundinn og fór að grafa í gagnagrunnum. Ef að dýrið er ekki með örmerki á skrá höfum við samband við alla dýraspítala á landinu og fáum yfirleitt svör þannig. Í þessu tilfelli fundum við eigandann á skrá en það var ekkert símanúmer skrá svo Freyja, sem er í hópnum, ók heim til eigandans og lét hann elta sig heim til mín þar sem hann fékk hundinn sinn. Sem hafði reyndar farið þvílíka vegalengd.”

Sandra Ósk Jóhannsdóttir

Kjarninn í Hundasveitinni samanstendur af átta konum sem eru í samskiptum svo að segja allan sólarhringinn. „Ef að við erum ekki að leita eða veita ráðgjöf erum við á Facebook. Minn algóryþmi eru allar bæjar- og  hverfissíður landsins og ég er á öllum grúppum að fylgjast með dýrum. Ef ég er ekki að vinna eða í skólanum er ég í símanum að leita að auglýsingum.”  

Minnst á það, er hægt að stunda vinnu eða nám samhliða þessu?

„Þetta tekur sér pláss í heilanum á mér og er sólarhrings vinna. Það er í raun aldrei neitt frí og sem dæmi þá er ein okkar núna á Tenerife en er samt í símanum að leita að týndum dýrum. Og það er ekki bara að leita heldur að miðla upplýsingum til fólks sem er að leita að dýrinu sínu, láta það til dæmis vita að það sé fundið og einhver hafi tekið það inn. Það gerist oft því við alltaf að fylgjast með.”

Oft erfið mál

Sandra Ósk segist finna fyrir gríðarlegu þakklæti dýraeigenda og það hvetji hópinn í starfinu. „En maður er líka að fást við mikla sorg í þessu starfi. Við þurfum að kljást við erfiðar tilfinningar hjá fólki sem veit ekki hvar dýrið sitt er og svo gerist það því miður að hundar finnast ekki.” 

Kisa sem fékk að lúra heima heima hjá Söndru Ósk eftir flakk í heilt ár.

Ekki er langt síðan að göngumaður rakst á hundabein uppi á fjalli og lét Hundasveitina vita sem kom á staðinn og tók beinin í sína umsjá. Járnbútur í hné benti til aðgerðar á fæti sem staðfesti að um var að ræða hund sem hafði verið týndur í tvo mánuði. Eigendurnir voru erlendis svo farið var með líkamsleifarnar á Dýraspítalann þar sem hann var brenndur og eigendunum færð askan við heimkomu. 

„Við erum líka að gera svona hluti fyrir fólk því þetta er oft svo erfitt.”

Hún segir hund sem lést  í Hafravatni hafa verið annað tilfelli sem tók á. „Hún fór undir ís og það var búið að senda dróna og ísskafara. Hjálparsveit skáta leitaði en það var ekkert hægt að gera. Það var ekki fyrr en mánuði seinna, þegar ísinn fór að bráðna, að dróni sá hana og tvær okkar fóru á staðinn, óðu í Hafravatn, sóttu hana og fóru með upp á Dýraspítalann. Eigendur voru einnig erlendis í því tilfelli en komu að kveðja hana þegar þeir komu heim. Við erum að taka að okkur erfið mál á við þetta. Ég get ekki ímyndað mér sjálf hvernig er að vaða út í Hafravatn að ná í dýrið sitt sem hefur drukknað og gat ekki náð í þessa tík, en sem betur fer eru þær sem vinna með mér gríðarlega harðar af sér og með mikla reynslu af dýratengdum málum. En það brýtur í manni hjartað að segja eiganda að ekkert sé hægt að gera.” 

Sandra Ósk segir að meira sé þó af skemmtilegum málum. „Það sem rekur mann fyrst og fremst áfram er þakklætið sem við fáum og vitneskjan að dýrið sé öruggt. Það er mjög gefandi.” 

Grilla pylsur dag og nótt

Sandra Ósk hefur verið hundaeigandi frá barnæsku, alltaf fundið fyrir sterkum tengslum við hunda, og verið meðlimur í hundahópum á netinu. „Það var síðan á Mosógrúppuni sem ég sá lýst eftir hundi, ég hafði bara ekki áttað mig á að fólk týndi hundunum sínum og var ekki meðvituð um það. Ég gat ekki setið á mér, er með of mikla réttlætiskennd til að gera annað en að taka málin í eigin hendur, og fór rúnta um og leita. Ég fann ekkert en eigandinn bað fólk um að koma í skipulagða leit og þarf mættum við þrjár, Freyja, Elín og ég. Við þekktumst ekkert en fórum saman að leita og tengdum svona líka vel.” 

Lítill hluti búnaðarins

Eftir tveggja daga leit fundu þær hundinn og í kjölfarið fór Sandra Ósk að mæta í fleiri leitir og jafnvel taka heim með sér dýr tímabundið, aðallega ketti á vergangi, sem hún segir alltaf erfitt að láta frá sér aftur.  

„Það var alltaf sama fólkið að mæta í leitirnar og við fórum að tala saman um að gera eitthvað meira, við værum hvort eð er alltaf að þessu. Og þetta bara gerðist. Við urðum ótrúlega þéttur hópur og Hundasveitin var eiginlega formlega stofnuð á nýársnótt þegar við vorum nokkrar saman grilla pylsur til að lokka að sex mánaða hvolp sem flugeldarnir höfðu fælt. Þetta var nú nýársdjammið okkar,” segir Sandra Ósk og skellihlær. 

Haglél, snjór, eða slydda skiptir þær engu. Ef að ekki er hægt að borða né pissa í tíu tíma leit skiptir það engu, aðeins að finna dýrið .

„Síðan þá höfum við verið óaðskiljanlegar. Við erum mjög þéttur hópur og afar virkar miðað við hvað við erum fáar við leit á stóru svæði. Við erum að taka allt höfuðborgarsvæðið og förum reyndar líka oft að leita á svæðum þar fyrir utan, til dæmis Selfossi, Hellu og fleiri stöðum.”

Sandra Ósk Jóhannsdóttir

Hún bætir við að það sé stöðluð vinnubrögð að reyna að lokka hunda með lykt og pylsur séu þægilegar og lyktsterkur. „Við grillum pylsur út um allt og á hvaða tíma sólarhrings sem er. En við borðum þær ekki!”

Græjaðar upp

Sandra Ósk segir annasamasta tímann vera milli jóla og áramóta og einna helst sé þar flugeldum um að kenna en einnig séu hundar oft í pössun á þessum árstíma.

„Flugeldarnir eru okkar helsti óvinur og ég er mjög á móti þeim, fæ alltaf í hjartað þegar ég heyri í þeim því þá veit ég að eitthvað dýr er mjög hrætt og hugsanlega týnt.” Hún segist óska þess að björgunarsveitirnar hætti að selja flugelda, það sé margt annað hægt að gera þess í stað. 

Það er meira en að segja það að fara í leiðangra til leitar og útskýrir Sandra Ósk að þær séu með ákveðinn staðalbúnað. „Við erum auðvitað með sjálflýsandi vestin okkar því við erum oft að leita á hættulegum stöðum, til dæmis í hrauni og oft í myrkri. Við erum líka oft að sniglast í íbúðarhverfum á næturnar og viljum auðvitað ekki að fólk haldi að maður sé að þvælast um í glæpsamlegum tilgangi, sem hefur reyndar komið fyrir mig. Því splæstum við í vestin, til að fólk sjái hvað við erum að gera.”

Þær eru einnig með afar sterk vasaljós, góðan fatnað og skó og auðvitað skannann. „Kannski rekst maður á kött og við reynum að skanna öll dýr sem verða á vegi okkar.” Þær eru einnig með nætursjónauka og holumyndavél sem nýtist til að skoða undir palla og í hraunsprungur.

Vill bjóða upp á áfallahjálp

Þessar græjur eru ekki ókeypis og Hundasveitin er unnin í sjálfboðavinnu svo teymið reiðir sig á frjáls framlög. „Allur styrkur sem við fáum fer beint í tækjakaup og þróun á smáforritinu okkar. Við erum komnar ansi langt með það og þetta smáforrit mun halda utan um allt. Þar verður hægt að skrá týnd dýr, kalla eftir fólki í leit, fá tilkynningar, sýna staðsetningu á leit og margt fleira. Forritið mun koma miklu meira skipulagi á starfið, efla nágrannavörslu, og vera með alls kyns þjónustu í boði. Fyrirtæki munu geta auglýst vörur eða þjónustu og ef ég tek bara dæmi um mig sjálfa þá er ég á þriðja ári í sálfræði og stefni á að bjóða eigendum dýra sem finnast ekki eða finnast dáin, áfallahjálp þeim að kostnaðarlausu.”

Sandra Ósk Jóhannsdóttir

Sandra Ósk hefur skipulega unnið að því að bæta sérhæfingu við menntun sína í því skyni og hyggst halda því áfram. Reyndar hafa sjálfboðaliðarnir verið öflugir við að afla sér menntunar, til að mynda með sérhæfingu í hegðun týndra dýra, svo fátt eitt sé nefnt. „Við búum reyndar yfir mikilli reynslu, ekki síst í hegðun týndra hunda, og vitum oftast hvar þeir halda sig, jafnvel þótt það sé mjög einstaklingsbundið. Ógeldir hundar fara til dæmis lengra en geldir og hundar sem týnast á ævintýragöngu haga sér öðruvísi en þeir sem fæst við flugelda.”

Hundasveitin tekur alltaf við

„Almenn vitneskja á velferð dýra er að aukast og ég trúi því að eftir nokkur ár verðum við mun hundavænni þjóð en við höfum verið. Það hefur gríðarleg aukning í hundahaldi, ekki síst í Covid, og það þarf meiri þrýsting bæði á ríki og sveitarfélög. Það er svo margt úrelt, bæði í hunda- og kattasamþykkt á Íslandi. Ég les yfir allar reglugerðir sveitarfélaga og þær segja að ef eigandi finnist ekki beri að aflífa hundinn. Af hverju er ekki búið að breyta þessu? Það er engin þörf á að aflífa neitt dýr, hvorki hunda né ketti, árið 2022. Það er nóg til, Kattholt, Vilikettir, Dýrahjálpin. Það eru svo mörg úrræði til og ég vil ekki sjá orð eins og „aflífa” eða „eyðing” og kalla eftir uppfærslu eftir þessum samþykktum. Ég myndi vilja taka fundi með öllum bæjarstjórum svo þeir viti eftir hverju skal kalla hjá gæludýraeigendum, sérstaklega með áherslu á örmerkingar.” 

Rölt heim á leið eftir sjö tíma leit að hundinum Balta nú síðast í gær.

Hvað getur fólk gert til að gæta þess að týna ekki dýrinu sínu?

„Dýrið þarf alltaf að vera með taum úti, gps-ólar breyta öllu og hafa þær lýsandi yfir vetrartímann. Það týnast einnig margir hundar yfir sumarið þegar þeir eru í pössun og þá þarf að hafa sérstakan vara á.” 

Sandra Ósk segir Hundasveitina endilega vilja fá fleiri sjálfboðaliða. ,

„Við erum bara átta en ein býr erlendis og við allar hinar erum líka í öðru. En það fer alveg með mig að þurfa að læra undir próf, vitandi að það sé týndu hundur einhvers staðar þarna úti.” Hún segir að einnig sé öllum fjárframlögum tekið fagnandi. „Hitasjónauki myndi vera æðisleg viðbót. Vasaljósin gera sitt gagn en vá hvað hitasjónauki myndi breyta miklu!” segir Sandra Ósk Jóhannsdóttir, sálfræðinemi og Hundasveitaliðsmaður, dreymin á svip. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Katla orðlaus eftir að hafa orðið vitni að óheiðarleika fastakúnna – „Ég er svo reið. Þetta er manneskja sem ég hef afgreitt margoft niður í búð“

Katla orðlaus eftir að hafa orðið vitni að óheiðarleika fastakúnna – „Ég er svo reið. Þetta er manneskja sem ég hef afgreitt margoft niður í búð“
Fókus
Í gær

Köttur hleypti íslenskum hesti inn á heimilið – „Ég er að fela mig til að sjá hvort að hann komi inn“

Köttur hleypti íslenskum hesti inn á heimilið – „Ég er að fela mig til að sjá hvort að hann komi inn“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Rifjar upp hryllilegu dagana eftir hvarf systur sinnar – Málið sem heimurinn stóð á öndinni yfir

Rifjar upp hryllilegu dagana eftir hvarf systur sinnar – Málið sem heimurinn stóð á öndinni yfir
Fókus
Fyrir 2 dögum

Lét banna áhrifavald í ræktinni eftir að hún tók upp þetta myndband

Lét banna áhrifavald í ræktinni eftir að hún tók upp þetta myndband
Fókus
Fyrir 3 dögum

Leikarinn Chris Gauthier bráðkvaddur

Leikarinn Chris Gauthier bráðkvaddur
Fókus
Fyrir 3 dögum

Fólk kastar upp í ræktinni eftir að hafa byrjað á vinsælu megrunarlyfi – „Sem betur fer náði ég í ruslafötuna“

Fólk kastar upp í ræktinni eftir að hafa byrjað á vinsælu megrunarlyfi – „Sem betur fer náði ég í ruslafötuna“