Auður Inga Þorsteinsdóttir framkvæmdastjóri hjá UMFÍ segir að markmið þeirra með öllum þeirra viðburðum eins og Forsetahlaupinu sé að hvetja fólk til hreyfa sig á sínum eigin forsendum. „Við hjá UMFÍ erum alltaf að hvetja fólk til að hreyfa sig á eigin forsendum. Það er svo heilbrigt og gott. Þó gaman sé að hreyfa sig ein/n þá er enn betra að gera það með öðrum. Það er bæði gott fyrir sál og líkama að hreyfa sig í hópi eins og í Forsetahlaupinu.“

Forsetahlaup UMFÍ fer fram á Álftanesi laugardaginn 3. september og umsjón með því hafa Ungmennasamband Kjalarnesþings (UMSK), hlaupahópur Stjörnunnar og skokkhópur Álftaness. Viðburðurinn er hluti af Íþróttaveislu UMFÍ, sem farið hefur fram í sumar og í tilefni af 100 ára afmæli UMSK.

UMFÍ hefur staðið fyrir viðburðum í sumar, haldið Landsmót fyrir 50 ára og eldri í Borgarnesi í júní, Unglingalandsmót UMFÍ á Selfossi um verslunarmannahelgina og Drulluhlaup Krónunnar og Hundahlaup UMFÍ og Non-stop dogwear nú í ágúst við góðar undirtektir.

Gott sumar að baki

Íþróttaveislan er liður í því markmiði UMFÍ að hvetja fólk til að hreyfa sig og finna fleiri leiðir til að hvetja fólk til hreyfingar, bæði eitt og með öðrum. Farnar hafa verið ýmsar nýjar leiðir í því skyni sem tókust svo vel að Auður er sannfærð um að haldið verði áfram að feta óhefðbundnar slóðir og tengja íþróttahreyfinguna við hópa sem áður hafa staðið utan við hana. Það var sem dæmi gert í Drulluhlaupi Krónunnar sem var afar vel heppnaður fjölskylduviðburður og í tilviki Hundahlaupsins sem var fyrsta samstarfsverkefni íþróttahreyfingarinnar og hundaeigenda.

„Bæði Hundahlaupið og Drulluhlaup Krónunnar voru frábærir nýir viðburðir og þátttakan góð. Viðbrögð fólks voru líka afar ánægjuleg. Markmið okkar er að búa til viðburði þar sem við fáum mismunandi hópa af stað, fjölskyldur, hundaeigendur og miklu fleiri úr ólíkum geirum. Það er oft áskorun að búa til nýjan viðburð. En þetta er nokkuð sem við þurfum að þora að gera miklu meira af, að prófa nýjar nálganir sem ná til fleira fólks. Þegar vel tekst til fjölgum við þeim sem hreyfa sig – og taka mögulega upp á því að gera hreyfingu að lífsstíl sínum. Hreyfingin er svo mikilvæg, ekki bara fyrir einstaklinga heldur samfélagið allt. Það er gott fyrir alla þegar fleiri hreyfa sig,“ heldur Auður áfram.

Öll saman í Forsetahlaupi UMFÍ – Guðni forseti hleypur

Forsetahlaupið er einn þessara nýju viðburða sem UMFÍ kynnir til sögunnar í sumar. Þetta er skemmtilegur viðburður íþróttaviðburður á svipaðan hátt og Konunglega hlaupið í Danmörku. Það fer fram víða um Danmörku og á Grænlandi líka. Guðni forseti mætir að sjálfsögðu í Forsetahlaupið á laugardag enda hlaupið að Bessastöðum og geta allir þátttakendur notið lífsins að hlaupi loknu.

Auður býst við góðri þátttöku í Forsetahlaupi UMFÍ enda gert ráð fyrir rjómablíðu. „Hlaupaleiðin er líka slétt og góð fyrir alla fjölskylduna,‟ segir hún og hvetur alla sem ætla í hlaupið að fara snemma að sofa. Mótsgögn verða afhent eftir klukkan 9 í Íþróttamiðstöðinni á Álftanesi og verður ræst í fyrsta hlaupið klukkan 10:00.

Í boði er að hlaupa 5 km og hinsvegar eina mílu eða 1,6 km. Allir fá þátttökuverðlaun og þegar allir eru komnir í mark verður grillað og boðið upp á drykki, leiki og sirkusþrautir. Þeir sem ekki taka þátt í sjálfu hlaupinu geta hvatt hlauparana áfram á hliðarlínunni.

„Þetta verður frábær laugardagur fyrir alla sem hafa gaman af því að hreyfa sig,‟ segir Auður Inga Þorsteinsdóttir hjá UMFÍ.

Þátttökugjald í Forsetahlaupinu er 1.000 krónur í Míluhlaupið og 2.000 krónur í 5 km hlaupið. Frítt er fyrir börn og ungmenni 16 ára og yngri.

Skráning og ítarlegri upplýsingar er að finna á hlaup.is undir liðnum Forsetahlaup. Hægt er að skrá sig hér.