fbpx
Þriðjudagur 16.apríl 2024
Fókus

Sara hættir í lögmennsku og hjálpar fólki að fá frelsi frá kvíða – ,,Hafði sjálf reynslu af því að vera undir hælnum á Bakkusi“

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Laugardaginn 23. júlí 2022 09:00

Sara Pálsdóttir lögmaöur Mynd/Valli

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

,,Ég ákvað að fara í laganám eftir menntaskóla því ég hef alltaf haft mikinn áhuga á að hjálpa fólki og berjast fyrir mannréttindum og réttlæti. Og því varð stefnan snemma að fara í mannréttindalögfræði,” segir Sara Pálsdóttir, frumkvöðull, dáleiðari, orkuheilari og lögmaður. 

Frá fíkn í frelsi

Sara hefur vakið mikla athygli fyrir pistla sína um stöðu barnaverndarmála hér á landi. Í störfum sínum sem lögmaður tók hún slaginn í barnaverndarmálum og segir kerfið fyrir neðan allar hellur.

Hún hefur einnig barist við fíkn og veikindi en mikilli sjálfsvinnu náði hún að finna frelsið og verða heilbrigð. 

Sara segir ástandið hafa versnað í Hollandi.

Eftir velgengni í starfi sem lögmaður hefur Sara ákveðið að hætta alfarið í lögmennsku og einbeita sér að því að hjálpa fólki að fá frelsi frá kvíða og veikindum, meðal annars með því að kenna fólki að stýra líðan sinni og hugsunum. 

,,Eftir að ég fór í gegnum mitt bataferðalag og fékk frelsið vissi ég að ég þyrfti að hjálpa fólki sem væri statt á sama stað og ég hafði verið á. Ég braust út úr þessu, sigraði kvíðann, verkina, síþreytuna, og varð heilbrigð. Síðan þá hef ég verið að elta þessa sýn og hjálpa öðrum.”  

Kolrangur mælikvarði

Sara lauk grunnnámi í HR og fór svo í meistaranám til Hollands haustið 2010. Hún var dugleg og virk í námi og skörungur út á við en ekki var allt sem sýndist því hún glímdi við mikil veikindi. ,,Ég var með mikinn kvíða, brotna sjálfsmynd og lítið sjálfstraust. Ég var einnig að að kljást við alkóhólisma og átröskun. Það má segja að allt frá barnsaldri, og sérstaklega unglingsárunum, hafi ég byrjað að vera svolítið brotin og leiðast inn á rangar brautir í lífinu.”

Sara segir sína afsökun fyrir að leita sér ekki hjálpar hafi verið að henni hafi alltaf gengið afar vel í námi. ,,Ég vissi að ég væri í miklum vanda stödd og þurfti að fara í meðferð en faldi mig á bak við að ef allt gengi vel í skólanum og ég væri að ná öllum prófunum hlyti allt að vera í lagi. Sem er náttúrulega kolrangur mælikvarði.”

Sara segist hafa verið í mikilli óreglu, bæði með sinn alkóhólisma svo og átröskun sem sé þungur og erfiður sjúkdómur að bera. ,,Og með þetta tvennt líður manni hræðilega.” 

Valdi lífið

Hún segir ákvörðunina að flytja til Hollands hafa verið eina að hennar aðferðum til að flýja sjálfa sig. ,

,Breyta um umhverfi, flytja í nýtt land og breyta öllu. Taka sjálfa mig í gegn og eignast nýtt líf. En það gekk ekki eftir því auðvitað tók ég sjálfa mig með mér og vandinn jókst bara, ef eitthvað var. Þarna var ég komin í mjög mikla dagneyslu, fyrst og fremst á áfengi, en líka á öðrum efnum. Ég átti mjög erfitt en var á sama tíma að reyna að gera mitt besta, reyna að ferðast og lifa lífinu. Eiga eðlilegt líf samhliða þessu öllu. Ég fór áfram á hnefanum í mörg mörg ár af því ég gat ekki leitað mér hjálpar. Ég gat ekki talað um vandann, ég gat ekki einu sinni viðurkennt hann fyrir sjálfri mér, hvað þá talað um hann við aðra. Það var svo mikil og sterk skömm innra með mér yfir að vera svona veik og það hamlaði mér rosalega.”

Sara með vinum á námsárunum.

Sara segist hafa lifað tvöföldu lífi á þessum tíma. ,,Það var lífið á yfirborðinu sem að allir sáu, glæsileg ung kona með toppeinkunnir en innra með mér kraumaði vanliðan og sársauki. Þetta var mjög sjúkt ástand.”

Þegar að Sara sneri heim að námi loknu var hún komin á þann stað að eiga ekkert eftir og vera hreinlega rúmliggjandi. 

,,Ég vaknaði, byrjaði að drekka, og datt út aftur. Og þá gat ég ekki frestað því lengur að leita mér hjálpar, ég vissi að þetta væri spurning um að lifa eða deyja. Sem betur fer valdi ég lífið.” 

Var komin í mikinn vanda

Sara gerði það en segir fyrstu árin hafa verið erfið, það taki tíma að verða edrú. Hún hefur verið edrú frá því í desember 2013.

,,Ég fór í AA samtökin og fór í mikla sjálfsvinnu, var dugleg að mæta á fundi og var virk þar og í að byggja upp mitt líf. Það gekk vel að vera edrú en kvíðinn og brotna sjálfsmyndin fylgu mér áfram. Ég eignaðist síðan eldri drenginn minn sumarið 2016. Á þessum tíma byrja ég að finna fyrir miklum verkjum í líkamanum, sérstaklega á meðgöngunni. Mig verkjaði í bak, kjálka, herðar og axlir og með árunum ágerðist bæði kvíðinn og króníska verkjavandamálið og líka síþreytan. 

Í kringum 2019 var Sara komin í mikinn vanda. ,,Ég hafði verið edrú í öll þessi ár, drakk ekki, reykti ekki og var dugleg að hreyfa mig og borða hollan mat. Ég stundaði mína vinnu og lifði mjög heilbrigðu og reglusömu lífi. Ég skildi ekki út af hverju ég var svona veik.” 

Dæmd í eilíf veikindi?

Sara gekk á milli aðila innan heilbrigðisstéttarinnar, lækna, kírópraktora, osteopata og sjúkraþjálfara. Hún fór í nálastungur og til bitkjálkasérfræðings. ,,Ég var búin að reyna allt sem mér datt í hug til að fá einhverja hjálp en það gat enginn hjálpað mér. Sálfræðimeðferðin hafði hjálpað við að draga úr kvíðaeinkennunum en það var bara tímabundið og svo blossaði kvíðinn upp aftur.” 

Sara gerði sitt besta til að lifa ,,eðlilegu“ lífi.

Sara segir sig hafa verið óttaslegna og kvíðna á þessum tíma og ímyndað sér allt hið versta. Hún glímdi auk þess við leifarnar af átröskuninni. ,,Mér var alltaf mikið illt í bakinu og var farið að detta í hug krabbamein, það hlaut að vera ástæða fyrir þessum verkjum. Þannig fór ég að finna fyrir miklum heilsukvíða og trúa því að ég væri dæmd í eilíf veikindi” 

Sara rak eigin lögfræðistofu á þessum tíma, það var mikið að gera, en hún var farin að eiga erfitt með að klára vinnudaginn og þurfti að leggja sig yfir miðjan daginn vegna þreytu og verkja. ,,Þetta var mjög erfitt.”  

Alvarleg mannréttindabrot

Talið berst að lögmennskunni en Sara hafði snemma á ferli sínum fengið mikinn áhuga á barnarétti og fór að sinna barnaverndarmálum árið 2020. 

,,Ég fór inn í þetta kerfi og fékk sjokk. Ég trúði því ekki að barnaverndarkerfið á Íslandi væri eins og það blasti við mér. Ég átti ekki til orð og sá alvarleg mannréttindabrot, fjölskyldu-sundrungu, óréttlæti og vinnubrögð sem mér fannst vera fyrir neðan allar hellur. Ég var að vinna í stóru máli og trúði ekki öðru en að ég myndi ná réttlæti. Ég leitaði til dómstóla, umboðsmanns Alþingis, úrskurðarnefndar velferðarmála, umboðsmanns barna og fleiri en það var enga hjálp að finna. Það voru allir meðvirkir með kerfinu og lögðu blessun sína yfir þessi mannréttindabrot sem ég var að sjá í kerfinu, eins og þetta væri eitthvað eðlilegt og að það væri útilokað að barnavernd gerði mistök.

Sara á námsárunum í Hollandi.

Sérstaklega fóru umgengnismál fósturbarna fyrir brjóstið á Söru. ,,Það var almenn venja að börn foreldra sem höfðu verið forsjársviptir fengu eingöngu að hitta foreldra sína u.þ.b. 2 skipti á ári í örfáar klukkustundir í senn. Og þá undir eftirliti í lokuðu húsnæði. Og jafnvel þótt að foreldrið væri komið út úr fíknisjúkdómnum, orðið edrú og búið að byggja upp eðlilegt líf og þráði ekkert meira en að fá að elska og hugsa um barnið sitt. Þá var samt þessi þvingaði aðskilnaður milli foreldris og barns. 

Ekki hlustað á rök

Sara fór að grafa ofan í lagarammann og mannréttindaákvæði. ,,Ég sá að hvorki var verið að fylgja Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna né Mannréttindasáttmála Evrópu þegar umgengniákvarðanir voru teknar af yfirvöldum. Séu ákvæði barnaverndarlaga um umgengnisrétt fósturbarna túlkuð til samræmis við reglur Barnasáttmála SÞ og mannréttindasáttmála Evrópu er engin leið að komast að þeirri niðurstöðu að útiloka foreldra fósturbarna nánast alfarið út úr lífi barnanna sinna til 18 ára aldurs.  

Sara sogaðist inn í barnaverndarkerfið og var komin með fjölda barnaverndarmála í hendurnar áður en varði. En hún segir að í fyrstu hafi ekki verið hlustað á sín rök um þessa brotalöm í samfélaginu sem hún segist hafa séð alls staðar. 

,,Einhvern tíma í fortíðinni hefur einhver sérfræðingur metið það að það mætti ekki raska stöðugleika og ró barna hjá fósturforeldrum og fósturfjölskyldu með umgengni við blóðforeldra. Það er litið á það sem skaðlegt að börn hitti blóðforeldri sitt of mikið þegar að búið er að ,,slíta tengslin” – sem að mínu mati er mannréttindabrot út af fyrir sig. Það er alveg sjónarhorn út af fyrir sig og í undantekningartilfellum getur það verið nauðsynlegt ef foreldrið er barninu skaðlegt en það er alls ekki alltaf þannig.

Oft er um að ræða tímabundin vanda hjá foreldrinu og ef að vandinn nær yfir lengri tíma en eitt eða tvö ár er tekin sú stóra ákvörðun að slíta á öll tengsl foreldris og barns um alla framtíð.“ 

Mismunun í kerfinu

,,En eitt eða tvö ár eru svo ótrúlega skammur tími í lífi barns og börn sækja alltaf í blóðforeldra sína og vilja yfirleitt vera þar. Og því eru þessi tengsl svo vel varin í stjórnarskrá og mannréttindasáttmálum, þau eru friðhelg. Það er mannréttindi barnanna að viðhalda þessum tengslum og tvö skipti á ári geta ekki flokkast undir eðlilegt tengsl eða reglubundum umgengni líkt og þessi fósturbörn eiga rétt á samkvæmt Barnasáttmálanum en hann hefur verið lögfestur hér á landi.“ 

Sara Pálsdóttir Mynd/Valli

Söru finnst vera ríkjandi mismunun í kerfinu. 

,,Skilnaðarbörn eiga oft tvö heimili og flakka á milli án þess að það sé litið á það sem eitthvað skaðlegur óstöðugleiki fyrir börnin heldur eru það tengslin við foreldrana sem eru aðalatriðið.” Henni fannst fullkomlega eðlilegt að fara fyrir hönd sinna skjólstæðinga á reglulega umgengni, til að mynda aðra hvora helgi væri foreldri talið hæft til, orðið edrú og með alla aðstöðu til að hugsa um barnið. Þar fengi barnið að hitta stórfjölskylduna og góðar stundir. ,,Á þeim tíma var þetta álitin vera fráleit krafa frá sjónarhóli barnaverndaryfirvalda, búið væri að slíta tengslin og litið á þau sem varanlega slitin til 18 ára aldurs.”

Grimmd

Hún segir það vera gríðarlega erfitt að horfa upp á börn rifin frá foreldrum og stórfjölskyldu, vinum og leikskóla og plantað kannski hinum megin á landinu í óþekktu umhverfi.

,,Systkini eru alltof oft skilin að og börn fá ekki að hitta ömmu sína og afa nema kannski einu sinni á ári. Og svo þegar að barnið fær loksins að hitta foreldra og það grætur, þá er umgengnin jafnvel skorin enn meira niður því barnið ,,sýnir vanlíðan í kjölfar umgengni.” Það er ekki litið til þess að barnið sé sennilega í vanlíðan því það sakni mömmu sinnar sem það sér kannski ekki svo mánuðum skiptir. Af hverju fá fósturbörn ekki að hitta foreldri sitt, ef það er orðið edrú, í lagi, lifir reglusömu lífi og þráir ekkert heitar en að elska barn sitt? 

Ég skil ekki þessa grimmd.” 

Innbyggð hindrun í kerfinu

Sara segist hafa vitnað mikinn sársauka, skapaðan að nauðsynjalausu í kerfinu. 

,,Það truflaði mig að þeir sem voru að skapa þennan sársauka hjá þessum fjölskyldum voru þeir sömu og áttu að vera að vernda þær. En ég hef skynjað breytingu undanfarna mánuði, sérstaklega hjá barnaverndinni í Reykjavík, og farin að sjá ríkari umgengni, þótt að þetta sé ekki orðið eins og ég vildi sjá þetta verða. Barnavernd Reykjavíkur er farin að byggja í meiri mæli á ákvæðum Barnasáttmálans í úrskurðum sínum, eitthvað sem ég sá ekki áður. En næsta stjórnsýslustig fyrir ofan, úrskurðarnefnd velferðarmála, virðist enn föst í þessu gamla viðhorfi og horfir algjörlega framhjá þeim mannréttindaákvæðum sem um slíka umgengni gilda þegar þeir kveða upp úrskurði um umgengni. Það er mjög alvarlegt að sjá kærunefnd á stjórnsýslustigi sem á að úrskurða um rétt þessara barna neita að horfa á þau mannréttinda ákvæði sem gilda um þetta samband foreldris og barns.

Það er líka innbyggð hindrun í dómkerfinu því dómstólar neita að dæma umgengni fósturbarna við foreldra sinna, eitthvað sem þeir gera á hverjum einasta degi varðandi skilnaðarbörn.

Það er mismunun sem sviptir fósturbörn þeirri réttarvernd sem þau eiga rétt á samkvæmt stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu.” 

Titrandi og skjálfandi

Sara segist skynja mikinn ótta hjá skjólstæðingum barnaverndar. ,,Starfsmenn hjá barnavernd hafa ægivald yfir lífi þínu og barnanna þinna. Oft eru þetta brotnir einstaklingar sem kannski hafa verið í neyslu og að glíma við geðræna erfiðleika. Þetta fólk er oft með lélega sjálfsmynd og veikt bakland og er alveg afskaplega hrætt við að segja og gera eitthvað vitlaust sem rati inn í einhverja skýrslu og er síðan notað gegn þeim.

Sara Pálsdóttir.

Það er titrandi og skjálfandi á beinunum og ég hef séð framkomu hjá barnavernd sem hefur ýtt undir þennan ótta og gert það að verkum að það vantar traust í kerfið.”

Stórundarlegur sjúkdómur

Sara segir að vissulega hafi orðið miklir árekstrar á milli hennar og barnaverndar en í dag eigi hún mun betra samstarf við barnaverndina á höfuðborgarsvæðinu. 

,,Ég er líka farin að sjá hina hliðina og að það eru þarna starfsmenn sem raunverulega brenna fyrir að hjálpa þessum börnum. Það sem ég hef verið að gagnrýna fyrir utan brot á umgengnisrétti fósturbarna er að það vanti sérfræðiþekkingu innan barnaverndar, til dæmis á fíknisjúkdómi. Langstærstur hluti skjólstæðinga barnaverndar eru alkóhólistar og þarna kem ég inn sem lögmaður, verandi sjálf alkóhólisti sem skilur hvernig sjúkdómurinn virkar.

En þarna eru starfsmenn sem eru alveg blindir á eðli sjúkdómsins. Sama hef ég séð hjá dómurum sem hafa dregið fjarstæðukenndar ályktanir vegna vanþekkingar á eðli alkohólisma sem sjúkdóms. Þessi sjúkdómur er stórundarlegur og illskiljanlegur. Hann leggst mikið á huga fólks og það er erfitt að skilja hann nema maður hafi sjálfur upplifað hann. Því fór ég að kalla eftir fíknisérfræðingum og áfengisráðgjöfum með sína sérþekkinginu inn í starfsmannahóp barnaverndar.”

Við erum öll jöfn

Sara skrifaði pistil um þetta sem ekki féll í góðan jarðveg hjá félagsfræðingum sem fannst vegið að sér. ,,Ég var alls ekki að rengja hæfi eða mikilvægi félagsráðgjafa, aðeins að það vantaði inn skilning á hvað þetta fólk er að ganga í gegnum og sérþekkinguna til að greina fólk og meta hvaða meðferðarþörf er fyrir hendi. Þrátt fyrir að meginþorri skjólstæðinga barnaverndar séu alkóhólistar starfa engir áfengis og fíkniráðgjafar innan barnaverndar. 

,,Ég tengdi oft mikið við skjólstæðinga mína í barnaverndarmálum enda hafði ég sjálf reynslu af því að vera undir hælnum á Bakkusi. Þeir glímdu iðulega við fíknisjúkdóma, kvíða, brotna sjálfsmynd, verki og síþreytu – alveg eins og ég hafði gert áður fyrr. Skilningsleysið og framkoman sem þessir einstaklingar mættu af hálfu kerfisins fannst mér oft vægast sagt dapurleg. Við erum öll jöfn. Alkohólistar og fólk í félagslegum erfiðleikum á skilið sömu virðingu og framkomu og allir aðrir.” 

Sara með sonum sínum.

Ótrúlegt bataferðalag

Sara glímdi sem fyrr segir við alvarleg veikindi í áraraðir og þá virtist enga hjálp að fá. Hún áttaði sig að hún gæti gert eitthvað sjálf í sínum bata og byrjaði að stunda hugleiðslu. 

,,Í algerri örvæntingu ákvað ég að byrja að stunda hugleiðslu með þeim ásetningi að fá bata. Fá bata frá verkjunum, vöðvabólgunni, kvíðanum og þreytunni. Ég fór að smám saman að sjá að ég hafði miklu meiri stjórn á eigin heilsu en ég hafði haldið.”

Með hugleiðslunni hófst ótrúlegt bataferðalag

,,Ég byrjaði á að hugleiða í fimm mínútur á dag og fann árangur mjög fljótt. Ég byrjaði að heila sjálfa mig og losa um rætur kvíðans og krónísku verkjanna sem áttu rætur í neikvæðri orku og hugarfari. Það liðu bara 8 til 9 mánuðir frá því ég hóf bataferðalagið með hugleiðslu og þar til ég var orðin 80% laus við alla verki, síþreytu og kvíða. Síðan þá hef ég öðlast algert frelsi og lifi lífi mínu í heilbrigði, gleði, frelsi, þakklæti og hugrekki.“

Sjálfsfyrirliting og sjálfshatur

,,Óafvitandi fór ég í hugleiðslunni að gefa skipun um bata í undirmeðvitundina. Og þá fékk ég þau skilaboð frá undirmeðvitundinni um að fara í dáleiðslumeðferð, sem ég vissi þá ekkert um”. Og í gegn um þetta bataferðalag, þar sem ég fékk algert frelsi frá kvíða, verkjum, þreytu og vöðvabólgu, varð mér ljóst hvað það raunverulega var, sem olli öllum þessum veikindum. 

Ég hafði verið föst í sjálfsfyrirlitningu og sjálfshatri“

Sara segir að þegar við elskum okkur ekki skilyrðislaust eða líki illa við okkur sjálf, skapist mikill sársauki innra með okkur sem getur birst með ýmsum hætti. ,,Til dæmis sem  kvíði, meðvirkni, þunglyndi, sjálfsskaðandi hegðun, átröskun og fíknisjúkdómar.“

Sara Pálsdóttir Mynd/Valli

Var yfirfull af neikvæðri orku

Hún segir aðra rótina vera neikvæða orku, þ.e. áföllin em við verðum fyrir, neikvæðar tilfinningar sem safnast síðan fyrir inni í líkamanum okkar. ,,Hræðsla, vonleysi, depurð og reiði er allt orka. Þessar neikvæðu tilfinningar safnast svo fyrir innra með okkur og við finnum fyrir henni í formi vöðvabólgu, kvíðahnútar í maga, þyngsli yfir bringu, ofl. Þegar við kunnum ekki heilbrigðar aðferðir við að losa okkur við þessa orku safnast hún saman þar til maður bugast og þannig var það í mínu tilfelli, ég var yfirfull af neikvæðri orku sem var að búa til vanlíðan, vöðvabólgu og verki í líkamanum.” 

Þriðja rótin er óheilbrigt hugarfar. ,,Þegar þú hugsar stöðugt neikvæðar hugsanir, eins og að heimurinn sé hættulegur, að eitthvað hræðilegt sé að fara að gerast, að aðrir séu að dæma þig, að allt sé vonlaust þá verðurðu kvíðinn. Þeir sem eru með kvíða eru með kvíðahugarfar, þeir sem eru með þunglyndi eru með þunglynt hugarfar. Lykilskref til varanlegs frelsis er því að öðlast heilbrigt hugarfar og læra að hugsa hugsanir sem skapa vellíðan og heilbrigði en ekki vanlíðan og óheilbrigði.

Það er grunnurinn í námskeiðinu mínu Frelsi frá kvíða – að fólk læri aðferðir þar sem það getur lifað í gleði, frelsi, friði, þakklæti og hugrekki í stað ótta, depurðar og vonleysi.” 

Gríðarleg aukning á kvíða og óöryggi eftir Covid. 

Sara hefur unnið sem dáleiðari í nokkur ár og segist sjá gríðarlega aukningu á krónískum vanda í kjölfar Covid, sér í lagi hvað varðar heilsu- og félagskvíða. 

Hún hjálpar fólki að fá frelsi frá kvíða, þunglyndi, verkjum, vöðvabólgu, svefnvandamálum, lágu sjálfsmati og fleira., með dáleiðslu, heilun og kennslu.

Sara Pálsdóttir Mynd/Valli

,Markmiðið er alltaf að fá algert frelsi og geta þannig lifað því lífi sem maður vill lifa, í stað þess að vera skugginn af sjálfum sér, sem er oft afleiðing þess að glíma við langvarandi kvíða. Þeir sem leggja á sig vinnuna fá mjög hraðan bata og ég hef séð fólk sem hefur barist við kvíða áratugum saman fá algjört frelsi á örfáum vikum. 

,,Allir geta fengið frelsi og bata. Þetta er ákveðin formúla til frelsis og allir geta lært þetta. Lykilatriði er að skoða orkuna okkar og hugsanir. Með því að fjarlægja rætur kvíðans og öðlast heilbrigt hugarfar getum við öll fengið bata frá kvíða og öðrum krónískum neikvæðum einkennum,” segir Sara Pálsdóttir. 

Nánar má sjá á heimasíðu Söru  og á Facebook ,,Frelsi frá kvíða – ókeypis fræðsla og dáleiðsla”

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Tinna er líklega búin að finna móður sína – „Ég þarf að vera tilbúin til að fara út til þegar kallið kemur“

Tinna er líklega búin að finna móður sína – „Ég þarf að vera tilbúin til að fara út til þegar kallið kemur“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Einn dáðasti leikarinn á leið í hnapphelduna eftir að unnustan fór á skeljarnar

Einn dáðasti leikarinn á leið í hnapphelduna eftir að unnustan fór á skeljarnar
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Það var mjög erfitt að horfa upp á ungan mann í dauðastríði“

„Það var mjög erfitt að horfa upp á ungan mann í dauðastríði“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Jón Arnar byrjaði skyndilega að missa hárið – Hefði gert þetta öðruvísi í dag

Jón Arnar byrjaði skyndilega að missa hárið – Hefði gert þetta öðruvísi í dag
Fókus
Fyrir 4 dögum

Læknir segir að þú getir sagt til um typpastærð karlmanns með því að horfa framan í hann

Læknir segir að þú getir sagt til um typpastærð karlmanns með því að horfa framan í hann
Fókus
Fyrir 4 dögum

Prinsinn rýfur þögnina eftir að Katrín greindi frá krabbameinsgreiningunni

Prinsinn rýfur þögnina eftir að Katrín greindi frá krabbameinsgreiningunni