Bogi Ágústsson er svo sannarlega þekktasti starfsmaður Ríkisútvarpsins enda hefur hann starfað hjá stofnuninni sem fréttamaður í næstum hálfa öld. Hann hefur að mestu leyti séð um sjónvarpsfréttir miðilsins og verið þannig daglegur gestur inni á heimilum fólks. Þau tímamót urðu síðan í gær að Bogi las í fyrsta sinn á starfsferlinum aðalfréttatíma RÚV í útvarpi.
Hann greinir frá þessu í stuttri færslu á Facebook-síðu sinni og slær á létta strengi.
„Mikil upphefð að lesa aðalfréttatíma í útvarpi í fyrsta sinn 😊. Það hefur verið örlítill aðdragandi að þessu, bara 45 ár síðan ég hóf störf hjá RÚV. Bjarni Rúnarsson hélt í höndina á nýliðanum,“ skrifar Bogi og birtir mynd af þeim félögunum.