fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fókus

Fyrrverandi fangi óttast að segja kærustunni frá

Fókus
Sunnudaginn 18. október 2020 20:00

Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kristín Tómasdóttir hjónabandsráðgjafi svarar spurningum lesenda um málefni er varða fjölskylduna, börnin og ástina í Fjölskylduhorni DV. Að þessu sinni svarar Kristín spurningu lesanda sem óttast að segja kærustunni leyndarmál úr fortíð sinni.

Hæhæ. Ég á leyndarmál sem ég hef ekki sagt kærustunni minni frá. Við höfum verið saman í eitt og hálft ár, því lengra sem líður á sambandið því erfiðara finnst mér að koma orðum að því. Leyndarmálið tengist fortíð minni, en ég fékk dóm og sat inni í 4 mánuði. Ég held að þetta muni koma henni mjög mikið að óvart og svo er ég að sjálfsögðu skíthræddur um að missa hana. Í dag gengur allt svo vel hjá mér að ég einfaldlega nenni ekki að „skemma” allt með því að henda þessari bombu á hana, en svo óttast ég að hún frétti þetta frá öðrum. Það væri skelfilegt. Kær kveðja, Einn í vanda.

_ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _

Enginn er vondur

Blessaður. Já, þú ert vissulega í vanda staddur, en það er ekkert svo vandasamt að ekki sé hægt að finna á því bærilegar lausnir. Spurning þín ber þess merki að þér er annt um að koma hreint fram og nú þarf bara að finna bestu lausnina svo það sé framkvæmanlegt.

Í starfi mínu hef ég lært að það er enginn vondur. Punktur. En ástæður fyrir hegðun okkar geta verið margvíslegar, stundum gáfulegar og stundum ekki. Við búum yfir mismunandi reynslu, karakter og hæfni, og saman hefur þetta allt fjölþætt áhrif á það sem við gerum og gerum ekki. Stundum þarf fólk að taka ábyrgð á gjörðum sínum, biðjast afsökunar, læra af þeim og/eða reyna að endurtaka ekki leikinn. Það lenda allir í því, en misilla. Af spurningu þinni að dæma hefur þú snúið við blaðinu og breytt til betri vegar, væri ekki gott að leyfa kærustunni þinni að meta það við þig?

Ég ímynda mér að þetta hafi rúllað af stað eins og snjóbolti sem vex svo bara og dafnar og því stærri sem hann verður, því erfiðara er að stöðva boltann? Það segir okkur líka að það verður ekkert auðveldara að stinga á kýlið með tímanum. Hvað þarftu til þess að opna á þessa umræðu? Getur einhver aðstoðað þig? Getur þú undirbúið kærustuna þína undir fréttirnar?

Örugg tengsl mikilvæg

Heiðarleikinn er svo mikilvægur í ástarsambandi. Mögulega gæti verið ráð að segja kærustunni þinni að þú viljir koma hreint fram og að þú þurfir að segja henni dálítið, en að þú eigir erfitt með að koma því frá þér. Þá gæti hjálpað að tína til hvaða afleiðingar það eru sem þú óttast og mögulega að þú viljir fá aðstoð við að gera þetta á eins góðan hátt og hægt sé. Það kæmi mér ekki að óvart að kærastan þín myndi þiggja þá aðstoð með þökkum.

Ég á pínu erfitt með að hjálpa þér þar sem ég þekki ekki forsögu þína eða fyrir hvað þú varst dæmdur, en það gæti þá kannski reynst vel að byrja á að útskýra óskrifaða kafla úr fortíð þinni. Hvað leiddi til þess að þú varst dæmdur? Í hvaða hugleiðingum varstu? Þessar upplýsingar geta dempað höggið hennar.

Fyrir mér hljómar þetta eins og þið hefðuð gott af tækniæfingum sem einfalda ykkur að ræða saman, opna ykkur og eiga í nauðsynlegum samskiptum. Slíkar æfingar gætu svo leitt til þess að þið mynduð byggja upp nægilegt traust til þess að þú gætir komið leyndarmálinu þínu frá þér með öruggum hætti.

Örugg tengsl í sambandi snúast um að báðir aðilar séu öruggir til að tjá líðan sína og þarfir. Það er hægt að byggja upp örugg tengsl milli fólks, en það er tækni sem krefst æfingar. Hægt er að bera þetta saman við að ná góðri golfsveiflu eða þungu snatch-i í ólympskum lyftingum. Vilji og styrkur er eitt, en tæknin er svo annað. Þar getum við hjónabandsráðgjafar komið að góðum notum.

Nýta fyrri reynslu

Þekking þín er dýrmæt. Þú þekkir þína sögu, kærustuna þína og ykkar samskipti. Hverjir vissu af dómnum þínum á sínum tíma? Hverjum hefur þú sagt leyndarmálið? Hvað gekk vel og hvað ekki í því samhengi? Getur þú nýtt þá reynslu? Er kærastan þín betur upplögð á ákveðnum tímum fram yfir aðra? Væri ráð að ræða við hana á sérstökum stað? Getur einhver sem þekkir ykkur bæði gefið þér mat á stöðunni?

Að lokum, án þess að gera lítið úr vandamálinu þínu, þá miklum við stundum fyrir okkur það sem framkallar hjá okkur óvissu. Það heitir kvíði og kvíðann þarf að hugsa til enda. Hvað er það versta sem getur gerst? Hvað gerir þú þá? Hver myndi þá hjálpa þér? Hverjar eru líkurnar á því versta? Hvað væri það besta í stöðunni?

Þú ert sjálfur mjög voldugur þegar kemur að eigin hugsunum og það væri þér afar hollt að sefa kvíðann og óöryggið með því að svara ósvöruðum spurningum og útrýma þannig óvissunni.

Þá ert þú sjálfur betur undirbúinn þegar kemur að því að segja sannleikann, öruggari og veist í grófum dráttum hverjar afleiðingarnar geta orðið. Þannig munt þú rúlla þessu verkefni upp, hvernig svo sem það endar! Gangi þér sem allra best.

_ _ _ _ _ _ _ _ _

Við hvetjum lesendur til að senda spurningar og vangaveltur sínar til Kristínar í tölvupósti á: hjonabandssaela@gmail.com. Spurningunum verður svo svarað hér í Fjölskylduhorninu, að sjálfsögðu nafnlaust og í fullum trúnaði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

8 ára drengur með heilaæxli steig á svið – Sjáðu atriðið sem hreyfði við Simon Cowell

8 ára drengur með heilaæxli steig á svið – Sjáðu atriðið sem hreyfði við Simon Cowell
Fókus
Fyrir 3 dögum

J. Lo loksins laus við slottið – 7 ár í sölu og verðmiðinn lækkaður um milljónir

J. Lo loksins laus við slottið – 7 ár í sölu og verðmiðinn lækkaður um milljónir
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Ég er í dag ekki vitund hrædd við dauðann. Það kom eftir þessa lífsreynslu.“

„Ég er í dag ekki vitund hrædd við dauðann. Það kom eftir þessa lífsreynslu.“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Þetta var uppáhalds skyndibiti Elísabetar drottningar

Þetta var uppáhalds skyndibiti Elísabetar drottningar