fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fókus

Blaðamaður DV fórnar sér – Ég drakk sellerísafa á tóman maga í heila viku

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Sunnudaginn 18. október 2020 09:40

Sellerísafi er sagður bæta meltingu og lækka blóðþrýsting. Eitt er öruggt, hann er skelfilegur á bragðið. Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sellerísafi hefur verið að gera allt vitlaust erlendis undanfarið ár eftir að Medical Medium gaf út bók og hélt því fram að sellerísafi geti læknað hina ótrúlegustu sjúkdóma og hafi jákvæð áhrif á heilsuna. Blaðamaður DV keypti galið magn af selleríi og fórnaði sér af forvitni.

Heilsusafar eru ekki nýtt fyrirbæri, en Anthony Williams, betur þekktur sem Medical Medium, tók hugtakið skrefinu lengra og hóf svokölluðu „sellerísafahreyfinguna“. Hann gaf út bókina Celery Juice: The Most Powerful Medicine Of Our Time Healing Millions World Wide, í maí 2019. Hann heldur einnig úti vefsíðunni medicalmedium.com þar sem má lesa um „lækningarmátt“ sellerísafans.

Medical Medium segir að sellerísafi hafi ótrúleg heilsubætandi áhrif, eins og að lækka blóðþrýsting, laga húðvandamál og bæta meltinguna, svo fátt sé nefnt. Hann gengur svo langt að halda því fram að sellerísafi geti læknað króníska sjúkdóma.

Því skal samt halda til haga að sá sem kallar sig Medical Medium, Anthony Williams, er enginn læknir og tengist ekki læknastéttinni á nokkurn hátt. Það eru heldur engar rannsóknir sem styðja staðhæfingar hans. Aftur á móti eru tugir þúsunda sem segjast hafa fundið mikinn mun á heilsu sinni og líðan eftir að hafa byrjað að drekka sellerísafa. Medical Medium er með reynslusögur á vefsíðu sinni og á samfélagsmiðlum þar sem fjöldi stjarna á borð við Sylvester Stallone, Miröndu Kerr, Pharrell og Jennu Dewan hafa hoppað á sellerísafalestina.

Ef þú ferð á YouTube og leitar að „I tried Celery Juice for 7 days“, finnurðu aragrúa af myndböndum. Ég horfði á nokkur og allir höfðu svipaða sögu að segja, sellerísafi er snilld og hefur jákvæð áhrif á heilsuna. En ég ætlaði ekki bara að trúa fólki á netinu, ég varð að prófa þetta sjálf. Það fyrsta sem ég gerði á morgnana í heila viku var að drekka tæplega hálfan lítra af hreinum sellerísafa. Og trúið mér – hann er ekki bragðgóður.

Bókin hefur slegið í gegn.

Samkvæmt Medical Medium á sellerísafi að:

  • Bæta meltinguna og hjálpa henni að vinna betur úr fæðunni
  • Lækka blóðþrýsting
  • Hreinsa blóðrásina
  • Hreinsa húðina, vinna gegn exemi og bólum.
  • Hafa góð áhrif á margs konar gigt
  • Skola eiturefni úr líkamanum
  • Vera bólgueyðandi
  • Hafa æðastyrkjandi áhrif
  • Og margt annað

Út á hvað gengur þetta?

Þú átt að drekka 475 ml af ferskum sellerísafa á tóman maga á morgnana, áður en þú færð þér morgunmat eða eitthvað annað. Safinn verður að vera úr selleríi og engu öðru, engin sítróna eða engifer til að bæta bragðið. Bara strangheiðarlegur sellerísafi.

Fyrstu þrjá dagana keypti ég tilbúinn safa nýpressaðan hjá Höllu í Grindavík. Hina fjóra dagana bjó ég til safann sjálf. Ég á ekki safapressu, heldur notaði blandara og síaði í gegnum grisjupoka. Það kom á óvart hversu einfalt það er.

Samkvæmt Medical Medium er best að drekka safann um leið og hann er tilbúinn. Því ferskari því betra. Ef þú getur það ekki, þarftu að drekka hann innan sólarhrings eftir að hann er útbúinn. Eftir það hefur safinn „tapað“ lækningarmætti sínum. Ég mæli með að útbúa eigin safa frekar en að kaupa tilbúinn því ef þú ætlar að gera þetta almennilega þarftu nýjan safa á hverjum morgni.

Sellerísafinn kemur ekki í staðinn fyrir morgunmat. Þú þarft samt að borða morgunmat, en bíddu í 15-30 mínútur eftir að þú drekkur safann.

Mín reynsla

Ég verð að viðurkenna að það gat ekkert búið mig undir bragðið af sellerísafanum fyrsta daginn. Það sem eftir var dags fékk ég stundum hroll ef ég fann sellerísafalykt, sem var einhvern veginn af öllu, og ég ropaði líka reglulega bragðinu af selleríi. Sem betur fer aðlagaðist bragðskyn mitt fljótt safanum.

Á degi tvö varð bragðið bærilegra og með hverjum deginum varð það alltaf aðeins skárra. Síðasta daginn sötraði ég safann eins og hvern annan drykk á meðan ég dundaði mér í eldhúsinu.

Ég held ég hafi orðað þetta best á degi tvö þegar ég skrifaði í sellerísafadagbókina mína: „Alls ekki jafn slæmt en samt viðbjóður. Ef ég var fullkomlega meðvituð um hvers konar viðbjóð ég var að fara að innbyrða, þá var það ekki jafn slæmt.“

Ég skrifaði einnig hjá mér að ég væri spennt fyrir næsta degi, ótrúlegt en satt.

Á degi þrjú var safinn mikið skárri. Ég setti fram þá tilgátu að laufin hefðu verið notuð í safann dagana á undan. Það má nota laufin í safana, en það gerir safann beiskari á bragðið.

Ég bjó til safa með blandara.

Safagerð

Næstu dagana á eftir bjó ég til safann sjálf heima. Ég notaði blandara og pantaði síunarpoka á Ljósið.is. Pokinn kostaði þúsund krónur og kom inn um lúguna heima. Ég fann myndband á YouTube sem fór yfir hvernig væri hægt að gera safann og svo hófst ég handa.

Þetta var miklu minna mál en ég bjóst við. Mesta vandamálið er eiginlega þrifnaðurinn eftir þetta. Það þarf að þrífa blandarann, síunarpokann, skálina, trektina, skurðbrettið og hnífinn.

Ef þú ætlar að gera þetta á morgnana ráðlegg ég þér að vakna allavega korteri fyrr en venjulega.

Hvað gerði safinn fyrir mig?

Raunin er sú að þessi safi gerði ekkert fyrir mig þessa sjö daga sem ég drakk hann. Alls ekki neitt! Eftir öll loforðin um að sellerísafinn myndi hreinlega umturna lífi mínu til hins betra, þá verð ég að viðurkenna að þetta var smá bömmer. Var allavega að vonast til að losna við smá bólur og prumpa ekkert í nokkra daga. Samkvæmt öllum sögunum frá fólki sem lofsamar safann þá virkar hann greinilega fyrir einhverja, bara ekki fyrir mig. Svo gæti verið að ég hefði þurft að drekka hann lengur, og sumir finna fyrir áhrifum á undan öðrum. Það má heldur ekki gleyma „placebo“ áhrifunum og öllu öðru því sem gæti spilað inn í að fólki líður betur þegar það innbyrðir safann. Ætla samt ekki að neita því að sellerí er meinhollt og allir hafa gott af því að innbyrða meira grænmeti.

En þegar öllu er á botninn hvolft þá er sellerísafi engin töfralausn en gæti látið þér líða aðeins betur. Mér fannst þetta skemmtileg tilraun og miðað við allar jákvæðu umsagnirnar sem þessi einfaldi safi hefur fengið þá er það þess virði að prófa, að mínu mati. Kannski mun ég einhvern tíma prófa að drekka safann í mánuð og sjá hvort það hafi einhver áhrif. En miðað við verð og vesen þá er ég ekki að fara að gera það á næstunni.

Áhrifavaldurinn Nicole Coulter prófaði að drekka sellerísafa í viku og deildi upplifun sinni á YouTube. Myndbandið hefur fengið yfir átta milljón áhorf.

Nokkur ráð

  • Gefðu þér allavega hálftíma í að drekka safann fyrsta daginn og gerðu ráð fyrir að vera heima næsta hálftíma eftir á, því þú þarft alveg örugglega á klósettið fljótlega eftir að þú ert búin/n að innbyrða safann.
  • Geymdu hratið sem verður eftir, settu það til dæmis í klakabox og svo þegar það er frosið geturðu sett það í box eða poka og geymt í frystinum og notað í súpur og þeytinga.
  • Það er þægilegra að nota lífrænt sellerí. Það var eina selleríið sem ég þurfti ekki að skrúbba og svo var minnst af laufum á því.
  • Notaðu hanska. Ég var með einnota plasthanska sem ég skolaði og hengdi upp með síunarpokanum eftir hvert skipti. Fyrsta daginn sem ég gerði safa notaði ég ekki hanska og hendurnar á mér lyktuðu eins og sellerí allan daginn, sama hversu oft ég þvoði þær með sápu.
  • Ef þú hefur smá tíma settu safann inn í ísskáp í smá stund, þó það sé ekki nema í 15-30 mín., hann er mikið skárri kaldur en við stofuhita.

Skotheldur sellerísafi

Hráefni

Ca. 1 og ½ búnt sellerí

Vatn eftir þörfum

Ég reiknaði þetta gróflega að um 500 grömm af skoluðu og skornu selleríi gæfu tæplega 500 ml af safa. Ég notaði ekki laufin.

  1. Skolaðu selleríið vel.
  2. Skerðu það í bita áður en þú setur það í blandara. Annars geta „strengirnir“ í selleríinu verið til vandræða.
  3. Settu smá vatn með í blandarann, það kom mér á óvart hvað það þurfti lítið vatn. Bættu við eftir þörfum. Þú þarft meira vatn ef þú ert ekki með „plastprik“ til að hræra í blandaranum á meðan hann er í gangi.
  4. Settu síunarpokann yfir skál og helltu selleríinu í pokann. Kreistu allann safann úr pokanum.
  5. Helltu safanum í glas og drekktu. Ég mæli með að klaufar eins og ég noti trekt í þetta skref.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður
Fókus
Í gær

Aðeins ein sýning á einstakri mynd um þjálfara körfuboltaliðs fatlaðra

Aðeins ein sýning á einstakri mynd um þjálfara körfuboltaliðs fatlaðra
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sjáðu paratattú Kleina og Hafdísar sem eru hjá því allra heilagasta

Sjáðu paratattú Kleina og Hafdísar sem eru hjá því allra heilagasta