Ari Eldjárn grínisti var í áhugaverðu viðtali við The British Comedy Guide á dögunum. Frægðarsól Ara hefur risið hratt erlendis á undanförnum árum, og þá sérstaklega í Bretlandi þar sem hann hefur komið fram á fjölmörgum stöðum, klúbbum og hátíðum og verið gestur í vinsælum sjónvarpsþáttum.
Í viðtalinu nefnir Ari afa sinn, Kristján Eldjárn fornleifafræðing og þriðja forseta Íslands þegar hann er spurður um hver sé áhugaverðastur í fjölskyldunni hans.
„Hann keyrði um á Willys jeppa og bjó með fjölskyldu sinni í lítilli íbúð sem var inn í Þjóðminjasafninu, þannig að krakkarnir hans ólust upp innan um beinagrindur og sverð.“
Þá segir Ari að uppáhalds íslenska orðið hans sé„ vaðlaheiðarvegavinnuverkfærageymsluskúraútidyralyklakippuhringur“ en bein þýðing væri eitthvað í líkingu við „lyklakippa fyrir lykla að hurðinni á verkfæraskúr fyrir verkamenn í Vaðlaheiðargöngum.“
Hann rifjar líka upp að í eitt sinn hafi hann staðið klukkutímum saman í röð í bókabúðinni Waterstones, til að fá sérstakt armband til að sýna daginn eftir, þegar Bítilinn Paul McCartney var að árita bókina sína High in the Clouds. „Ég mætti daginn eftir og beið í annarri röð í nokkra klukkutíma áður en ég fékk loksins að taka í höndina á manninum,“ rifjar Ari upp og bætir við að hann hafi meira að segja tekið í höndina á söngvaranum án þess að spritta, eitthvað sem heyri líklega sögunni til. Því miður var engin mynd tekin af þeim félögum, enda var þetta árið 2006 og myndatökur ekki eins tíðar og í dag. „Í dag hefði þetta líklega endað með selfie og namaste.“
Aðspurður um uppáhaldssamgöngumáta nefnir Ari vespuna sem hann keypti fyrir tveimur árum, af vini sínum sem var að koma úr einhvers konar miðlífskreppu. Hann upplifði mikinn mun eftir að hafa eingöngu notast við bíl í 22 ár. „Það er svo endurnærandi að þeysast um á hjólinu og geta séð, heyrt og fundið lykt. Það er reyndar ekki eins gaman þegar það er hálka.“
Aðspurður um hvað viðburð hann myndi helst vilja fara á nefnir Ari Woodstock tónlistarhátíðina. „Til að finna þessa mögnuðu tengingu sem fólk upplifði. En með baksviðspassa og aðgang að sturtu. Og mat. Og þyrlu.“
Að lokum rifjar Ari upp eitt af sínum vandaræðalegustu augnablikum. „Það var þegar ég sagði langan brandara um söngvarann úr Sigur Rós, fyrir framan stelpu sem síðan reyndist vera systir hans. Ísland í hnotskurn.“