fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fókus

Viljirðu láta fokka í þér, skaltu lesa þessa bók!

Jóhanna María Einarsdóttir
Sunnudaginn 1. desember 2019 16:40

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Haustið 1839 rekur óþekktan dreng á land við Hjörleifshöfða.“ Um þetta vitna fyrstu blaðsíður Seltu og minna lesendur óneitanlega á flóttamenn frá stríðshrjáðum svæðum nútímans sem skolar á land, nær dauða en lífi. Þar sleppir ekki samanburði bókarinnar á fortíð og nútið enda er þetta samtímaskáldskapur, en ekki verk frá lokum nítjándu aldar.

Sögusvið Seltu er Ísland á eftireldaöld, eða um hálfri öld eftir Skaftárelda og Móðuharðindin. Landlæknir og Mister Undertaker, póstmaður, finna sjórekinn dreng sem á erfitt með mál. Drengurinn er með kunnuglegan fæðingarblett í auga sem vekur upp gamlar minningar um fornar ástir, töpuð sendibréf og grafin loforð. Þeir taka drenginn með í svaðilför yfir sandinn og árnar þar sem á meðal annars að saga hönd af konu, kafa í hvalreka eftir ambursteini og hitta Dagmar. Eftir það skal haldið í Skagafjörð í von um að finna vísbendingar um uppruna drengsins.

 

Þetta er fokkering mikil

Stíllinn í Seltu er ákaflega fallegur, glettinn og skemmtilegur og minnir um margt á ritstíl sem einkenndi öldina sem sagan á að gerast á, en sagan er sögð út frá lækni, sem einnig er ritunarmaður frásagnarinnar. Höfundur hikar ekki við og jafnvel gerir í því að því að nota nútímaslettur en aðlaga þær að tungutaki textans þannig að þær smellpassa á næstum truflandi máta. Þá er átt við orð eins og „fokkering“ á bls 94: „Þetta er fokkering mikil, læknir. Hér kann enginn að saga af útlimi nema þú.“ Þannig má segja að höfundur fokki örlítið í huga lesanda á skemmtilegan máta. Bókin er eins stútfull af gullfallegum setningum sem gaman er að smjatta á. Ein þeirra er að finna á blaðsíðu 53. „Fyrir jörðina tekur milljón ár að búa til þann gimstein, sagði hún, en fyrir mannfólk verður hann til í einu handtaki.“

Í ítarlegu viðtali við Stundina segir höfundur að bókin sé sprottin af grúski eða af einlægri og óstjórnlegri ást sinni á lífinu. „Hún er eins og anatómíuskápur með ólíkum mixtúrum og grasasýnum, læknisverkfærum og orðum sem hafa að ófyrirsynju fallið í gleymsku. Eflaust sprettur hún líka af áhuga mínum á gömlum og sérkennilegum ritum, ferðasögum, náttúrurannsóknum og landkönnuðaskýrslum. Þannig var hugmyndin í upphafi, einföld og berstrípuð: Saga landlæknis sem ferðast um Ísland á fyrri hluta 19. aldar. Ég vissi í sjálfu sér ekkert hvað ég ætlaði að skrifa um annað en frumstæða læknisfræði og rannsóknarleiðangra.“

Í fyrri hluta sögunnar eru áhugaverðar pælingar um illskuna, hvað það sé sem geri mann slæman, hvort það séu verk hans eða hvort illskan sé meðfædd, hvort unnt sé að leita sáluhjálpar eftir fólskuverk, og um menn sem sturlast skyndilega og fremja ósegjanega hluti sem enginn hefði haldið þá geta.

Selta inniheldur fjölda frásagnarstefja og eitt þeirra er ferðasagan Islandia sive popularum (& mirabilium quae in ea Insula reperiuntur accuratior descriptio) eftir Dithmar Blefken. Um er að ræða bók sem var gefin út árið 1607 í Leiden og er einskonar útlistun á Íslandi og staðháttum. Bókin var áhrifamikil á sínum tíma en átti sér einnig nokkra íslenska hatursmenn, enda mikið um rangfærslur á síðum bókarinnar. Þá er líklegt að höfundur hafi í raun aldrei komið til Ísland, eða að minnsta kosti að hann hafi skáldað upp stóran hluta hennar til þess að gera viðfangsefnið ennþá meira framandi en það var. Landlæknir nefnir bókina nokkrum sinnum á nafn og útskýrir meðal annars að hann noti hana til þess að stoppa í gat í húslofti sínu á Sandi. Hriktir svo í blaðsíðunum þegar blæs inn í húsið. Þá gefur hann lítið fyrir innihald bókarinnar enda sé hún „…nú orðin álíka ljót og innihaldið“. Líkt og Islandia sive popularum er Selta ferðasaga sem skrifuð er af höfundi sem hefur ekki komið á staðinn sem um er rætt. Og hver veit nema sá sem kunnugri væri staðháttum myndi segja nákvæmlega það sama um Seltu og landlæknir segir um Islandia sive popularum?

Selta. apókrýfa úr ævi landlæknis er falleg, skemmtileg og umfram allt áhugaverð saga, skrifuð af natni og virðingu fyrir fortíð og nútíð. Þá vitnar hún um horfna tíma, án þess að vera föst í fortíðinni en fjallar á sama tíma um samtímann og ýfir upp samfélagsmein sem við glímum við í dag.

Höfundur: Sölvi Björn Sigurðsson

Útgefandi: Sögur útgáfa

273 blaðsíður

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Margrét Friðriks tekur upp nýtt nafn – „Finnst það koma með ferskan blæ inn ì mitt líf“

Margrét Friðriks tekur upp nýtt nafn – „Finnst það koma með ferskan blæ inn ì mitt líf“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Þjáningar Sævars – Nýtt lag og fjársöfnun

Þjáningar Sævars – Nýtt lag og fjársöfnun