fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fókus

Þurý ferðaðist til Indlands og hitti styrktarbarnið sitt – „Ég vissi einhvern veginn ekkert hvað ég var að fara út í“

Auður Ösp
Sunnudaginn 21. júlí 2019 14:00

Mynd: Eyþór Árnason Hún gerðist styrktarforeldri fyrir SOS Barnaþorp og fór til Indlands að hitta strákinn sem hún hafði verið að styrkja.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þurý Bára Birgisdóttir er ein af tæplega níu þúsund Íslendingum sem gerst hafa styrktarforeldri barns í SOS barnaþorpunum víða um heim. Hún gekk skrefinu lengra á seinasta ári þegar hún ferðaðist til Indlands og heimsótti styrktarbarn sitt, indverskan pilt. Fundurinn átti eftir að hafa djúpstæð áhrif á hana.

Tvístígandi í fyrstu

Þurý var nýskilin og í djúpri sjálfsskoðun þegar hún ákvað að gerast styrktarforeldri árið 2014. Hún vildi að eigin sögn „gera eitthvað gott í heiminum.“ Í kjölfarið fór hún að styrkja dreng í barnaþorpinu Buhj á Indlandi og fékk reglulega sendar af honum myndir og fréttir úr lífi hans.

„Ég hélt reyndar fyrst að ég væri að fara að styrkja eitthvert lítið og dúllulegt barn en fékk svo senda mynd af slánalegum unglingsstrák sem leit út eins og kóngulóarmaður,“ segir Þurý og hlær en bætir svo við að auðvitað eigi maður ekki að vera „pikkí“ þegar maður er að hjálpa öðrum. Það var seinasta haust að Þurý og systurdóttir hennar, Ingibjörg Björnsdóttir, ákváðu að leggja leið sína til Indlands. Þær frænkur hafa áður ferðast saman víða um heim, flakkað um Evrópu og  heimsótt  Suður-Afríku og Suður-Ameríku.

Frænkurnar Þurý Bára og Ingibjörg

„Ég sagði strax að ég vildi fara til Buhj og hitta þennan strák,“ segir Þurý sem hafði í kjölfarið samband við fulltrúa SOS á Íslandi sem reyndust allir af vilja gerðir. Henni var í kjölfarið komið í samband við indverskan tengilið samtakanna. Í nóvember síðastliðnum flugu frænkurnar til Múmbaí, með millilendingu í London. Framundan var mikið ævintýri en Þurý viðurkennir að á leiðinni út hafi hún verið tvístígandi. „Ég hugsaði með mér: „Hvað er ég eiginlega að fara að gera?“ og ég var alveg við það að hætta við allt saman,“ segir hún og bætir við að þar hafi einfaldlega verið á ferð hræðsla við hið óþekkta. „Ég vissi einhvern veginn ekkert hvað ég var að fara út í.“

Þakklátur og auðmjúkur

Þegar komið var til Indlands tók leiðsögumaður á móti frænkunum og í Buhj fengu þær höfðinglegar móttökur. Frænkurnar fengu að sjá heimilið þar sem pilturinn ólst upp og þar reyndust aðstæðurnar prýðilegar, allt hreint og snyrtilegt og andrúmsloftið hlýlegt. „Eftir að hafa dvalið á Indlandi í stuttan tíma þá sér maður að það er munaður sem ekki allir hafa.“

Þeim var síðan fylgt á skrifstofu samtakanna þar sem þær hittu piltinn, sem í dag er 19 ára gamall. „Við tókumst í hendur og þetta er var dálítið skrítin upplifun, og ég vissi satt að segja ekki alveg hvernig ég ætti að haga mér í þessum aðstæðum.“

Pilturinn talar smávegis ensku og hann og Þurý gátu því átt dálítil samskipti sín á milli. „Hann kom mér fyrir sjónir sem feiminn og ljúfur og það er augljóst að hann er góð sál. Hann var ofboðslega auðmjúkur og var greinilega mjög þakklátur fyrir þennan stuðning. Ég held að það skipti þessa krakka alveg ofboðslega miklu máli að það sé einhver þarna úti í heimi sem er annt um þá og vill styðja þá.

Mynd: Eyþór Árnason

Þegar við stóðum upp og vorum farin að hugsa okkur til hreyfings þá beygði hann sig skyndilega niður fyrir framan mig og kyssti á mér fótinn. Ég vissi að sjálfsögðu ekkert hvað þetta þýddi eða hvað ég ætti að gera,“ rifjar Þurý upp, en seinna komst hún að því að þessi siður, „praṇāma“ er ríkjandi í indverskri menningu og táknar virðingu og þakklæti.

Þurý fékk að vita að pilturinn væri kominn í háskólanám í verkfræði og stæði sig þar með prýði. Draumur hans er að flytja til annars lands í framtíðinni. Þá kom upp úr dúrnum að hann hafði lagt á sig langt ferðalag til að koma og hitta hana en skólinn sem hann er í er í rúmlega sólarhrings fjarlægð með lest frá barnaþorpinu í Buhj. Þrír fylgdarmenn voru með piltinum, þar á meðal fósturfaðir hans og forstöðumaður heimilisins og pössuðu þeir vel upp á hann. „Það er greinilega haldið mjög vel utan um þessa krakka. Ég var afskaplega uppnumin eftir þessa heimsókn. Kannski af því að ég vissi ekkert á hverju ég mátti eiga von.“

Þurý mun halda áfram að styrkja piltinn þar til hann hefur náð 21 árs aldri. Hún segist í raun ekki hafa gert sér grein fyrir því áður, hvað örlítið mánaðarlegt fjárframlag getur haft mikil áhrif. „Þarna sá ég að mínir peningar fara greinilega í gott málefni. Ég veit svo sem ekkert hvað verður um hann í framtíðinni en ég get allavega sagt að ég hafi átt þátt í að hann fór í þessa átt og er á þeim stað sem hann er á í dag. Það hefur gefið mér heilmikið.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður
Fókus
Í gær

Aðeins ein sýning á einstakri mynd um þjálfara körfuboltaliðs fatlaðra

Aðeins ein sýning á einstakri mynd um þjálfara körfuboltaliðs fatlaðra
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sjáðu paratattú Kleina og Hafdísar sem eru hjá því allra heilagasta

Sjáðu paratattú Kleina og Hafdísar sem eru hjá því allra heilagasta